30.12.08

Sniðganga

Það er útilokað búa til svo gott regluverk að ekki finnist á því glufur til misnotkunar.

Ég hef haldið því fram að sú óskrifaða regla gildi hjá Íslendingum að sá sem sendir ekki jólakort tvö ár í röð vilji ekki lengur jólakortast við mann. Sú regla leiðir til þess að óforskammaðar fjölskyldur geta leikið þann leik að senda aðeins út jólakort annað hvert ár, en engu að síður fengið send jólakort á hverju ári eins og ekkert hafi í skorist.

29.12.08

Enn af kjöti

Ég minni á að frestur til að kjósa sér (mér) hrossaket hér til vinstri rennur út jafnhratt og árið 2008. Ráðgert er að hafa sigurkjötið í matinn hér á heimilinu fljótlega í janúarmánuði 2009.

Gullfallegt

Óneitanlega er hún erfið, samkeppnisstaða þeirra sem selja flugelda, en geta ekki státað af því að nota hagnaðinn til að leita að týndu fólki. Þeir sem eru í flugeldasölu af hefðbundinni hagnaðarvon, verða að höfða til væntanlegra viðskiptavina með öðrum hætti en neyðarkallarnir.

Þessi klausa, sem myndi gera sig vel á útifundi, er í auglýsingablöðungi Gullborgar (sem selt hefur flugelda í 30 ár). Hér er ávörpuð hin niðurlægða þjóð og hún eggjuð til að sýna hvað í henni býr. Það verður best gert með ósvikinni flugeldasýningu á gamlárskvöld.
Látum ekki stela líka af okkur áramótunum. Ekki eyða gamlárskvöldi í sjónvarp eða útvarp. Skaupið verður endurtekið og látum ekki apa og svín bulla í okkur meira, hættum að vera heilalausar strengjabrúður.

25.12.08

Af kjöti

Ég lenti í því að halda fram gegn ofurefli fjöldans að bógur, nánar tiltekið grísabógur, væri framantil af skepnunni, herðarnar. Viðmælendur mínir töldu að bógurinn væri tilsvarandi lend á manni. Þegar kröftuglega er efast um það sem maður segir, fer stundum svo að maður efast að lokum sjálfur. Það gerðist þó ekki í þetta sinn. Ég minnist þess að hafa heyrt ungmenni mér nákomið kalla þetta stykki framlæri.

Af þessu tilefni rann upp fyrir mér að orðið lambalæri er ekki eins gegnsætt og ætla mætti í fyrstu. Bróðurparturinn af lambalæri er í raun rassinn á skepnunni. Lambsrass. Segja má að orðið lambalæri flokkist undir skrauthvörf.

22.12.08

Flagg-girlander og jólareglur

Tré hinna tveggja toppa hefur nú verið skreytt og lýst. Stjarnan er á hærri toppnum, enda er hann sýnu beinni. Árhringjatalning leiddi í ljós að tréð var 15 ára gamalt þegar það féll fyrir minni hendi.

Eitt mátti ekki vanta á jólatréð í ár, litla íslenska fána á bandi. Ég keypti fánalengjurnar í Litlu jólabúðinni, neðarlega á Laugaveginum. Það stendur aðeins í mér að fánarnir virðast vera innfluttir. Mér finnst samt að svona fánar ættu að vera til sölu við hvern einasta búðarkassa í lýðveldinu.

Það fylgir jólunum mikið tal um jólahefðir. Ég tel mikilvægi þeirra gróflega ofmetið og raunar held ég að fólk ætti að gera meira af því að brjótast undan þeim og gera eitthvað nýtt á jólunum, jafnvel þó það hafi aldrei verið gert áður. Það eiga ekki öll jól að vera eins.

Sömuleiðis er mér uppsigað við þá kenningu að jólin séu hátíð barnanna.

21.12.08

Jólaandi

Sem oftar náði ég í jólatréð í hlíðar Úlfarsfells, til Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Maðurinn sagði mér að því lengra sem maður gengi eftir stígnum, þeim mun fallegri yrðu trén. Við gengum lengi, lengi en samt varð fyrir valinu grenitré með tveimur topppum. Sennilega hefur aumingjagæska mín aldrei náð meiri hæðum.

18.12.08

Einkennisbúningar

Þegar ég starfaði á Hótel Flúðum á áttunda áratug síðustu aldar, voru sólgulir hnésokkar hluti af einkennisbúningi framreiðslustúlkna.

Búningurinn var stutterma kjóll úr flöskugrænu hnausþykku terlíni með gulum stórum kraga og gulum uppslögum á ermum. Kjóllinn náði niður undir hné og var renndur að framan, þannig að fljótlegt var að vippa sér í hann. Það var álitamál hvað átti að renna hátt upp. Svuntan var gul og hnýtt með slaufu að aftan. Nálægt kanti á svuntu, kraga og ermauppslögum var grænn skrautsaumur, saumaður í einni þessara saumavéla sem geta saumað allt sem hægt er að láta sér detta í hug.

Það var töluvert fyrir því haft að finna gula hnésokka sem pössuðu við kjólinn, ég geri ráð fyrir að það væri heldur auðveldara nú. Tréklossar voru vinsælasti fótabúnaðurinn.

Þessi einkennisbúningur var notaður eftir hádegið, í hádeginu vorum framreiðslustúlkur í upphlut.

Þrátt fyrir að kjóllinn væri óhemjuslitsterkur og hefði vísast þolað margra ára samfellda notkun, var honm lagt og saumaður nýr og nútímalegri kjóll á framreiðslustúlkurnar. Sá var næstum því eins, nema hann var brúnn og beige, úr þynnra efni. Þótti það mikið framfaraskref.

15.12.08

Gjafir

Er það mikið afrek að finna jólagjöf á minna en kr. 5.000? Ég myndi kíkja á síðuna ef hún héti undir2000.is. Jólagjafirnar í ár mega ekki fara upp fyrir þá tölu og eiga helst að vera þar vel undir. Það er meira fyrir því haft að gefa ódýrar jólagjafir heldur en dýrar.

Glereggið sem Ólafur Ragnar Grímsson gaf Hillary Clinton er metið á 300 dollara í skrám yfir mótteknar gjafir árið 1999. Ætli hefði ekki verið jafngott að gefa henni ullarsokka. Ég verð að játa að ég hef ákveðinn skilning á þeirri ráðstöfun að selja eggið á Ebay. Þetta er ein af þeim gjöfum sem er bara stillt upp í stofuglugganum þegar gefandinn kemur í heimsókn.

Í nefndri skrá kemur fram að Írar gáfu Clinton 15 tommu háa postulínsstyttu af kvendansara með dökkt sítt hár, klædd hvítu tjullpilsi, hún stendur á kletti og er umkringd lundum. Moldóvar gáfu þeim myndarlegt landslagsmálverk í gylltum ramma sem sýnir geitahirði með hjörð sína að haustlagi.

Ég sé fyrir mér gríðarmiklar skemmur Hvíta hússins, með hillurekkum uppúr og niðrúr, sem svigna undir gagnslausum gjöfum af þessu tagi.

14.12.08

Friedman

Ég hef komið í hús í Reykjavík þar sem býr Friedman fjölskyldan samkvæmt bjöllu. Það er algengara á Íslandi en ætla mætti í fyrstu.

12.12.08

Gosórói

Þegar ég fer myndavélarlaus austur fyrir fjall þá verð ég aðeins óróleg yfir því þegar ég er komin austur fyrir Selfoss. Það væri hreint til skammar að horfa á Heklu byrja að gjósa og hafa gleymt myndavélinni heima.

11.12.08

Léttara líf

Á einhvern undraverðan hátt hefur mér tekist að lifa heilt góðæri, almennt neyslufyllerí, dæmalausa kaupmáttaraukningu og stórfenglegan viðskiptahalla við útlönd án þess að eignast uppþvottavél. Mig langar í uppþvottavél. Þó heimilið telji aðeins tvær sálir þá held ég að slíkt tæki væri til góðs og gæti sparað ágreiningsmál. Fólk sem á uppþvottavélar virðist hafa mikið dálæti á þeim og verður tíðrætt um ágæti þeirra. Ég vil komast í þann hóp.

8.12.08

Afstæðiskenning

Þegar bensín kostar 130 en kostaði áður 132, þá er það ódýrt. Ef bensín kostar 130 en kostaði áður 128 þá er það dýrt.

Sambærilegt lögmál er í gildi um líkamsþyngd.

7.12.08

Maður segir sögu

Þeir sem eiga eftir að fara á Mr. Skallagrímsson þurfa að drífa sig. Þarna var sögð saga af mikilli íþrótt, enn ein sönnun fyrir mætti hins talaða orðs. Fyrir dómstólunum heitir þetta milliliðalaus málflutningur. Ég spái því að það verði eftirspurn eftir því að Benedikt Erlingsson segi þessa sögu, á meðan hann lifir.

Egils sögu er upplagt að lesa hér.

4.12.08

Yfirdrif

Kona utan af landi var farþegi í bifreið minni nýlega. Þar sem við ókum undir Ingólfsfjalli, framhjá litla kofanum sem stendur innan um stóru björgin, veitti hún athygli litlu ljósi sem logaði í mælaborðinu. Þetta var mjög lítið ljós, eiginlega var þetta óljós. Skilaboðin voru: o/d off. Hnappur fannst eftir stutta leit í bifreiðinni. Við að þrýsta á hann slokknaði á ljósinu, bifreiðin skipti um gír (bifreiðin hefur þá náttúru að skipta um gír óumbeðin) og snúningshraðamælirinn datt umsvifalaust niður. Að sögn farþegans var hér um að ræða svokallað "overdrive". Ég reyndi að lesa mér til um yfirdrifið á wikipedia og sá að það skiptir þónokkru máli hvort það er on eða off. Af þessu má læra að ástæða er að veita fulla athygli logandi ljósum í mælaborði.

3.12.08

Svartar fjaðrir - part two

Dökkt bremsufar hefur myndast í nærbrók Hómers ástargauks. Niðurlægjandi sönnun þess að hann át augnabrúnalitinn, lét sér ekki nægja að smyrja hálsfjaðrirnar.

2.12.08

Jólaspam

Samtölum vindur hægt fram í jólakortum. Ef ég er ávörpuð árið 2007 þá svara ég árið 2008. Ef ég ávarpa einhvern í tvö ár í röð án þess að svar berist næsta ár á eftir, þá lít ég svo á að mér hafi verið dömpað og frekari jólakortasendinga minna sé ekki óskað. Ég lít þannig á að fólk geti gert þau mistök ein jól að gleyma að senda mér jólakort, eða jafnvel að jólakortið hafi týnst í pósti, en tvö jól í röð - þá er um ásetningsbrot að ræða.

Það var alltaf mjög spennandi þegar upp úr umslagi kom jólakort og ekki var hægt að átta sig á hver hafði sent. (Þekkir þú einhvern Grím? Getur þetta verið maðurinn hennar Hrefnu?) Ég hef ákveðið að bjóða tíu ókunnum fjölskyldum, völdum með handvirkri slembiaðferð, upp á slíka skemmtun í ár. Ætli bannmerking í símaskrá taki til jólakorta?

Þegar stóð í jólakortum frá fólki í þéttbýli t.d fjölskyldan Álfheimum 27 þá vissi ég aldrei hverjir sendendur voru. Bæjarnafn gat aldrei valdið misskilningi. Ef fólk bjó í borginni fannst mér viðeigandi að það skrifaði nöfnin sín undir.

30.11.08

Um útsendingu jólakorta

Alltaf finnst mér íþyngjandi þegar fólk talar mikið og lengi um að það sé búið að skrifa jólakortin í nóvember og kaupa jólagjafirnar í október.

Ég ráðgeri að halda í þá hefð að senda jólakortin af stað á síðasta auglýstum "kemst til skila fyrir jól degi" póstsins, nákvæmlega fimm mínútum fyrir lokun þann dag.

Það er mikilvægt sparnaðarráð að senda heimalöguð jólakort. Það virðist ríkja almennur skilningur á að slík jólakort þurfi ekki að vera sérlega falleg. Hægt er að ná fram enn meiri sparnaði með því að búa sjálfur til frímerki á umslögin.

Í minni gömlu heimasveit eru innanhreppsjólakort sett í skókassa á afgreiðsluborðinu í búðinni. Svo tekur fólk einfaldlega sín kort úr kassanum. Þannig komast öll jólakort í sveitarfélaginu ókeypis til skila. Allir eiga erindi í búðina og kerfið virkar fullkomlega. Fyrir utan sparnaðinn þá er miklu fljótlegra að skrifa utan á umslögin, nægilegt að skrifa bæjarnafnið. Þarna hefur pósturinn orðið af miklum tekjum í gegnum tíðina.

28.11.08

Time management

Stundum er rétt að eyða tíma í að bíða eftir að 5 mínútur líði, í staðinn fyrir að ætla sér að nota þær í eitthvað annað, með það í huga að snúa sér á ný að fyrra viðfangsefni þegar umræddar 5 mínútur eru liðnar. Fyrir kemur að sú ráðagerð fer út um þúfur.

Þetta verður betur skýrt með dæmum. Reglan á vel við þegar soðinn er hafragrautur. Hún á líka við þegar borinn hefur verið litur á augabrúnir sem á að sitja þar í 5 mínútur. Ég get staðfest óæskileg áhrif þess að hafa litinn á í klukkustund. Áður hefur verið fjallað um brunahættu sem getur hlotist af broti á umræddri reglu.

26.11.08

Svartar fjaðrir

Það óhapp varð hér á heimilinu að ástargaukurinn Hómer litaði sjálfur fjaðrirnar á hálsinum sér svartar með augnbrúnalit. Ég geri ráð fyrir að atvik sem þessi séu tölfræðilega sjaldgæf, en greinilega ekki óhugsandi. Hann er líka með svartan blett á tungunni.

Þeir sem hafa brúkað augnabrúnalit vita að lit og festi blandað saman í lítið ílát. Sjálfsagt er til fólk sem þrífur ílátið strax eftir notkun. Aðrir loka páfagaukinn inni á baðherberginu þar sem nefnt ílát liggur á glámbekk með háskalegu innihaldinu.

Mig langar að taka það fram að fangelsun gauksins á baðherberginu var gerð með persónulegt öryggi hans í huga, en þófaljónin vilja hann feigan.

25.11.08

Með lögum skal land byggja



Ég hef mikið dálæti á heimatilbúnum skiltum sem fólk hengir upp til að siða samborgara sína. Yfirleitt innihalda þau orðin "ekki", "bannað", "alltaf" eða "aldrei" og vitna um þennan pirring og óþol sem óæskileg hegðun annarra framkallar.

Crosstrainer

Það er sérstök þjálfun í jákvæðni og umburðarlyndi að horfa á Vörutorgið. Það virðist gilda eitthvað óformlegt samkomulag um að Vörutorgið fari frjálslega með staðreyndir og ekki eigi að taka of bókstaflega það sem þar er sagt.

Það þjálfast allir vöðvar líkamans í einu.

Komdu þér í toppform á fáeinum dögum.

Sama hvernig þú viðrar þá getur þú æft þig inni.

Síðasta fullyrðingin er þó sönn þó ekki sé um að ræða óvenjulegan eiginleika hins auglýsta. Minnir mig á þegar auglýst var vatnsheld skúringafata.

24.11.08

Stefnumót við framtíðina

Ég heyrði það eitt sinn að ísjakinn sem Titanic sigldi á, hafi lagt af stað frá Grænlandi mörgum mánuðum áður en skipið leysti landfestar.

23.11.08

Faðmlög

Í gær faðmaði ég ókunnugan mann úti á götu að hans frumkvæði. Síðdegis þegar ég gekk niður Laugaveg, vatt sér að mér og samferðamanni mínum maður og vildi faðma okkur. Hann kvaðst vilja sýna væntumþykju sína á samborgurum sínum þannig í verki. Fram kom að ekki hefðu allir sem hann nálgaðist verið tilbúnir til faðmlaga. Faðmlagið var þétt og einlægt.

21.11.08

Vesserbisserinn

Áðan var í Útsvarinu spilað lagið Edelweiss úr The Sound of Music og spurt um hvaða blóm væri sungið. Gefið var rétt fyrir svarið alparós. Þarna er mikill misskilningur á ferð, eins og ég mun nú útskýra af hógværð.

Söngur Vilhjálmsbarna var um alparós, en segja má að sá sem þýddi hafi tekið sér það skáldaleyfi að láta íslenska textann fjalla um aðra jurt en sungið var um upphaflega, enda hefði alpafífill, alpafífill, bögglast illa í munni . Alparós (rhododendron) er runni, oftast sígrænn. Ein slík blómstrar fagurlega á hverju vori í Grasagarðinum.

Edelweiss heitir á íslensku alpafífill, (leontopodium alpinum), það er lítil, hvít og gráloðin planta, heldur óásjáleg. Hún á að geta vaxið hér í görðum.

Edelweiss, Edelweiss
Every morning you greet me
Small and white, clean and bright
You look happy to meet me
Blossom of snow may you bloom and grow
Bloom and grow forever
Edelweiss, Edelweiss
Bless my homeland forever

Alparós, alparós
árgeislar blóm þitt lauga,
hrein og skær, hvít sem snær
hlærðu sindrandi auga.
Blómið mitt blítt, ó, þú blómgist frítt,
blómgist alla daga.
Alparós, alparós
aldrei ljúkist þín saga.

Jólagjafahandbók Eyrúnar

Í ár er tilefni til að halda jólagjöfum innan skynsemismarka, þó maður vilji auðvitað kaupmönnum (flestum) allt hið besta. Ég bendi á að í Góða hirðinum er hægt að kaupa bækur á 200 krónur, þar er töluvert af nýlegum bókum sem henta vel til jólagjafa.

Mér finnst skemmtilegt þegar fylgir með notuðum bókum, jóla- eða tækifæriskort frá fyrri eiganda.

Hafnarfirði, 23/8 ´48
Hugheilar hamingjuóskir á afmælisdaginn.
Ólafía, Guðmundur.

Kortið var stílað á Sigurð Þorsteinsson í Hafnarfirði. Það var inní Búnaðarriti, prentuðu í Fjelagsprentsmiðjunni árið 1900, sem ég keypti í fyrrgreindri verslun. Ég er ekki viss um að svo mörg hjón á Íslandi árið 1948 hafi heitað Ólafía og Guðmundur. Svo vill til að sonur langömmusystur minnar hét Guðmundur Marteinsson, hann átti konu sem hét Ólafía Hákonardóttir. Kannski er kortið frá þeim.

Minnir mig á það að ég þarf að lesa meira í þessu Búnaðarriti og jafnvel vitna í það hér.

19.11.08

Minning um hrylling

Ég er með aldrinum orðin mjög dugleg að horfa á ógeðslegar bíómyndir. Bregð mér hvorki við sár né bana söguhetjanna. Það var ekki alltaf svo. Þegar ég var yngri var gert grín að mér þegar ég hélt fyrir augu og eyru heilu kvikmyndirnar sem ég hafði þó borgað mig inn á fullu verði. Sérstaklega fannst mér ógeðslegt þegar var verið að pína fólk viljandi.

Þegar ég fór í fyrsta sinn á bíómynd í Flúðabíói sem var bönnuð innan 16 ára þá gekk ég út af henni. Sjálfsagt hef ég verið eitthvað yngri en 16. Ég man vel hvað var svona hræðilegt. Maður og kona voru um borð í bát, þau voru bundin við eitthvað tréverk og að þeim steðjaði mikil ógn. Lítil vélmenni sem litu út eins og dúkkur, gengu skrykkjóttum skrefum í áttina til þeirra og gerðu sig líkleg til að éta þau lifandi. Þessar mannætumorðdúkkur voru með hákarlstennur úr glampandi stáli og skelltu þeim saman ótt og títt. Ég gat ekki hugsað mér að horfa á þetta fólk étið lifandi svo þjáningafullt sem það hlaut að verða, þannig að ég ákvað að forða mér og sagðist þurfa að pissa. Ekki veit ég hvaða kvikmynd þetta var.

Flúðabíó var landsbyggðarbíó sem sýndi heimsfrægar stórmyndir í Félagsheimili Hrunamanna einu sinni í viku, á fimmtudögum, sjónvarpslausum dögum.

18.11.08

Kurl Project

Þessi kona í Hrunamannahreppi slær ekki feilhöggin. Mig langar í fötin hennar.

Lýsisraunir

Eftir að ég hafði rennt niður stórri matskeið af þorskalýsi við stofuhita þá kíkti ég eins og af tilviljun eftir því hver væri síðasti söludagur á flöskunni. Hún rúmar 500 ml og er næstum því full. Síðasti söludagur er í maí 2010. Ég á mér engrar undankomu auðið.

17.11.08

Hagsmunamatur

Innra með mér er háð heilagt stríð. Ég get ekki ákveðið hvort ég á að halda áfram að kaupa dýr brún egg úr hamingjusömum hænum eða hvort ég kaupi framvegis ódýr hvít egg úr þrautpíndum og innmúruðum búrhænsnum sem aldrei líta glaðan dag. Með því að kaupa hvítu eggin tek ég ábyrgð á þeirra ömurlega lífi og ég er ekki viss um að ég treysti mér til að axla þá ábyrgð. Hér vegast á mínir fjárhagslegu hagsmunir og persónulegir hagsmunir hæsnfuglanna.

16.11.08

Bankaleynd

Forsvarsmenn bankanna voru afar meðvitaðir um þá skyldu sína að upplýsa ekki um einkamálefni viðskiptavina þegar þeir neituðu að svara spurningum viðskiptanefndar Alþingis um hvort tiltekinn aðili hefði fengið lánað fé.

"Landsbankanum er óheimilt lögum samkvæmt að tjá sig um einstök viðskipti eða málefni viðskiptamanna sinna og mun sem fyrr fylgja þeim lögum."

Bankaleyndin virðist þó ekki hindra bankana í að miðla upplýsingum um vanskil viðskiptavina sinna til Lánstrausts (Creditinfo). Þeim upplýsingum geta síðan aðrir viðskiptavinir Lánstrausts keypt aðgang að.

Samkvæmt síðasta starfsleyfi Lánstrausts getur kröfuhafi m.a. tilkynnt skuldara inn á skrá Lánstrausts ef skuldarinn mætir ekki til fjárnáms, þrátt fyrir boðun.

15.11.08

Vinsældir

Lagt í munn Þórðar kakala í Óvinafagnaði Einars Kárasonar:

"Ég get reyndar ekki sagt að ég hafi hagað mér þannig að beinlínis væri fallið til vinsælda, en smám saman fór mér þó að skiljast að auralaus Íslendingur er eitthvert það ómerkilegasta kvikindi sem menn telja sig þekkja við hirð Noregskonunga."

Valur smalur

Þau stórtíðindi urðu að Ungmennafélag Hrunamanna bar sigurorð af íþróttafélaginu Val frá Reykjavík í körfubolta karla í gær. Leikurinn fór fram á heimavelli Hrunamanna í íþróttahúsinu á Flúðum og fór 111-115. Þessi atburður hefur ekki vakið mikla athygli. Hrunamenn leggja áherslu á að vera með heimaræktað. Aðeins einn Hrunamaður er af bandarískum uppruna en tveir slíkir munu finnast í liði Vals.

Áfram Hrunamenn! Tími ránfuglanna er liðinn.

14.11.08

Stafsetning á hættutímum

Það er mun verri villa að setja ypsilon þar sem það á ekki að vera, heldur en að sleppa því þar sem það á að vera. Dæmi: Firir - fyryr. Ef vafi leikur á, er best að sleppa ypsiloninu.

13.11.08

Búsetusaga

Ég flutti í bæinn eftir stúdentspróf. Síðan þá hef ég hengt húfur mína upp á Tjarnarstíg, Kjarrhólma, Laufásvegi (tvær íbúðir), Kaplaskjólsvegi, Stóragerði, Álftamýri og Nökkvavogi. Í þessari röð. Fyrstu tvær göturnar eru reyndar ekki í Reykjavík. Ekki alls fyrir löngu þurfti ég að reka erindi á Nesveginum, og fékk þá hugmynd að líta á gamla húsið mitt á Tjarnarstíg í leiðinni. Ég villtist, það var allt svo breytt. Það var í sjálfu sér gott að húsið var óþekkjanlegt, það var ekki á sparifötunum þegar ég bjó þar. Hún María Árelíusdóttir sem leigði okkur húsið sitt árið 1980, fimm tvítugum krakkakvikindum, hlýtur að hafa haft óbilandi trú á að hið góða fyrirfyndist innra með hverjum einstaklingi. Hún kvaðst aðeins fara fram á að húsið hennar yrði ekki "frægt hús". Við reyndum að verða við því.

Klemman

Hugsanlegir lánveitendur okkar virðast allir gera það að skilyrði að við semjum fyrst við Breta. Sú staðreynd gerir okkur ókleift að semja við Breta, þetta skilyrði gerir samningsstöðu okkar að engu, það vita þeir og nýta sér.

Nú þarf að standa upp frá þessu samningaborði þegar í stað.

Hafskip

Langt er orðið síðan ég heyrði síðast frétt í útvarpi þess efnis að skip hlaðið nauðsynjavöru hafi lagst við bryggju í Reykjavík. Helgafellið. Væntanlega eitt þeirra sex skipa sem koma næsta árið.

Ég spái því að svona verði velheppnað aprílgabb 1. apríl 2009:

Flutningaskip strandaði í morgun í Háfsfjöru, hlaðið niðursuðuvörum. Mannbjörg varð. Varningnum skolar smám saman upp í fjöruna, þar sem fjöldi fólks er saman kominn til að næla sér í niðursoðna tómata, kokkteilávexti og fleira sjaldséð góðgæti, þrátt fyrir að Þykkbæingar reyni hvað þeir geta til að hrekja aðkomumenn í burtu. Búist er við að til átaka komi, en Ólafur Helgi Kjartansson sagði í samtali við fréttamann að hann og eini lögreglumaðurinn sem hefur ekki verið sagt upp á Selfossi séu í öðru útkalli.

12.11.08

Veljum íslenskt

Ekki er vika liðin síðan ég kvartaði hér yfir skelfilegu verði á innfluttu hágæða kattafóðri og taldi einsýnt að ég yrði framvegis að fóðra mín elskuðu þófaljón á billegum Euroshopper hroða með yfirvofandi heilsutjóni fyrir þá fóstbræður. Það er mikið því mikið ánægjuefni að sjá að bráðlega verður hægt að kaupa íslenskan kattamat, framleiddan af fyrirtækinu Murr ehf. á Súðavík úr iðrum íslenskra húsdýra, fyrir íslenskar krónur.

Þrotaþjóð

Líf gjaldþrota einstaklings er fullt af hindrunum: Glatað lánstraust, sært stolt, eignir seldar á undirverði, skráning á svartan lista, fjárskortur, reiði kröfuhafa, vanþóknun þeirra sem betur eru settir. Sagt er að ekkert sé til sem heitir gjaldþrota þjóð, en þetta er samt upplifun hennar.

11.11.08

Viðskipti við útlönd

Ég hef saknað þess að fá ekki póstmenn í heimsókn á síðkvöldum. Engin kaup hafa verið gerð á eBay síðan krónan féll og bankakreppan reið yfir. Nú fyndist mér það djarfur leikur að senda seljanda fyrirspurn um hvað kostaði að póstsenda hið falboðna til Íslands. Ég geri ekki ráð fyrir að mér verði treyst, þrátt fyrir langan og hnökralausan kaupferil á eBay.

10.11.08

Margvíslegar hættur

Mikið getur "auto complete" reynst hættulegur fítus. Ármann heitir aðstoðarmaðurinn, ætli póstlistinn heiti ekki "allir fjölmiðlar" eða eitthvað á þá leið.

Í dag gleymdi ég að læsa klósetthurðinni og hún var opnuð.

Breska heimsveldið

Þessi Icesave kúgun gengur ekki lengur. Það er sagt í öðru orðinu að ekki sé skilyrði að Bretum sé greitt, en í hinu orðinu sagt að við þurfum að vera búin að ná við þá samkomulagi. Samkomulagi um hvað? Þeir gera kröfur sem ekki er hægt að semja um og með því móti stoppa þeir afgreiðslu IMF. Auðvelt fyrir þá að senda samhliða frá sér yfirlýsingu um að þeir styðji heilshugar okkar umsókn. Ætlum við að trúa því? Þetta er yfirgangur stórveldis, nýlenduveldis, heimsveldis. Þetta kunna þeir. Mér finnst vanta mikið upp á að við stöndum með sjálfum okkur í þessu máli. Nú fer að styttast í að við hótum slitum á stjórnmálasambandi.

Kapp er best

Ég hef stundum legið undir ámæli vegna frestunaráráttu. Stundum hef ég álasað sjálfri mér lengi og mikið af sama tilefni. Það er oftast, en ekki alltaf, skemmtilegt þegar manni auðnast að gera eitthvað strax. Eitt sinn hugðist ég ryksuga, akkúrat þegar þess var þörf, en ekki síðar. Þegar ég stakk ryksugunni í samband, þá sló rafmagnið út. Það gerðist í nokkur skipti og taldist fullreynt.

Ég ákvað strax að nú myndi það ekki gerast, sem kannski gæti gerst, að heimilið yrði lengi án rygsugunar af því ég kæmi því ekki verk að að fara í verslun og kaupa nýja ryksugu. (Ekki leiddi ég hugann að kostnaðarhliðinni, enda lifði ég þá í algleymi neysluhyggjunnar, lánsfjárkreppan var rétt óriðin yfir heiminn). Ég ákvað jafnframt nú myndi það ekki heldur gerast að ný ryksuga yrði keypt en sú gamla þvældist fyrir fótum mér mánuðum saman. Umsvifalaust setti ég gömlu ryksuguna í skottið, fór í Elko og keypti spánýja ryksugu frá viðurkenndum framleiðanda. Á leiðinni heim kom ég við í Sorpu og varpaði þeirri gömlu í gám merktan "allskonar annað drasl". Þegar heim kom setti ég nýju ryksuguna í samband. Það sló út.

9.11.08

Mokið ykkar flór

Það er merkilegt að ekkert hefur heyrst frá ungmennum landsins. Það er verið ráðstafa framtíðartekjum þeirra með lántökum ríkisins. Menntaskólakrakkar hefðu einhvern tíman tjáð sig af minna tilefni.

Það voru ríflega miðaldra menn í Spaugstofunni sem lögðu ungmennum orð í munn í lokaatriðinu í gærkvöldi. Það var hvasst atriði, en vakti upp hugsanir um hvort þau hefðu ekki eitthvað að segja sjálf, að eigin frumkvæði.

8.11.08

Nýr lífsstíll

Ég er ekki búin að aðlagast til fulls nýjum krepptum lífsstíl. Hingað til hef ég keypt í þar til gerðum sérverslunum hágæða fóður handa heimilisköttunum, hæfandi þeirra aldri, holdafari og lífsstíl. Öll lífsnauðsynleg vítamín og steinefni til að tryggja feldheilsu, greiða framvindu meltingar og starfsemi nýrna. Fóðrið er ekki búið til úr beljuheilum og rollujúgrum, þaðan af síður finnst í því kjúklingaskítur og má af því ráða þvílík gæðavara þarna er á ferðinni. Ég keypti 15 kg poka nýverið fyrir krónur 11 þúsund íslenskar og skrifa þetta mér til hjálpræðis gegn því áfalli. Pokinn kostaði hvorki meira en minna en tvöfalt meira en sá síðasti sem ég keypti. Það þurfa allir að færa fórnir í kreppunni og nú er komið að Putta og Fúsa að leggja sitt að mörkum, þeir munu í framtíðinni þurfa að éta andstyggðarinnar Whiskas tros úr Bónusi.

Hágæða fóðrið er einnig þeirrar náttúru að sá sem það étur, skítur skít sem ekki lyktar eins skítlega og annars væri. Það hefur aukið á mín lífsgæði, því þó að þessar losanir fari oftast fram í blómabeðum, þá kemur einstöku sinnum fyrir að innandyra er lagður mótmælaskítur, helst þegar gleymst hefur að fóðra.

Einu sinni las ég um það að lyfjum með samskonar verkun væri útbýtt á japönskum elliheimilum.

6.11.08

Galdrafár

Einn af þeim 72 sem heimildir eru um að hafi verið drepnir á Þingvöllum var Bjarni Bjarnason, forfaðir minn í 11. lið ef marka má Íslendingabók. Hann var brenndur á báli 4. júlí 1677, þá 62 ára gamall, ekkill sem átti þrjá eða fjóra uppkomna syni. Sama dag var annar maður brenndur á Þingvöllum, sá viðurkenndi að hafa reynt að spekja fé með galdri. Þetta hefur verið ógleymanlegt þing þeim sem sóttu.

5.11.08

Óhræsin

Hetjur fara nú um héruð með haglarana um öxl og skjóta rjúpur. Að fullvaxnir karlmenn, gegndrepa af testósteróni skuli láta það um sig spyrjast, salla niður varnarlausar hænur með skotvopnum. Rjúpan virðist alltaf jafn grunlaus um að nokkuð illt geti hent hana og hefur varla rænu eða getu til að forða sér undan þeim sem vilja hana feiga. Saklausasta fórnarlamb sem fyrirfinnst.

Fuglar hafa ekki nema í seinni tíð þótt henta til manneldis í minni gömlu heimasveit og kannski víðar í sveitum og sjálfsagt er ímugustur minn á rjúpnadrápum eitthvað því tengdur.

4.11.08

Er á meðan er

Mín allra mesta og besta hjálparhella gegn viðvarandi andleysi, Hannes Finnsson, lýsti Móðuharðindunum þannig að ekki verður um bætt. Lýsingar hans eru svo hryllilegar í nákvæmni sinni að það er útilokað að lesa nema örlítið í senn. Ef Mannfækkun af hallærum væri kvikmynd þá væri hún splatter.
Um vorið 1784 dóu nautpeníngur og sauðfé af liðaveiki, brígxlum og innanmeinum, svo sum innyfli vóru annaðhvort ofsastór eður uppvisnuð og í mörgu gallið óhóflega mikið. Hestar dóu margir fullfeitir; þeir átu þá dauðu, hauga, veggi, stoðir og þil frá húsum; sauðfé át ullina hvað af öðru og dó svo.
Hann segir að svona hafi "endakleppurinn" lýst sér, þ.e. veturinn 1784-1785:

Á manneskjum var húngur og sultur með öllum þeim sjúkdómum sem þar af rísa, einkum blóðsótt, skyrbjúg og hettusótt. Svo algengt var húngrið að sá á fjölda presta og beztu bænda. Þjófnaður og ránsháttur úr hófi, svo eingi mátti vera óhultur um sitt. Þetta var landsins almennt ástand, en þarvið bættust á einstöku stöðum önnur og fleiri bágindi. Í Holta-sveit í Rángárvallasýslu, Hreppum, Biskupstúngum, Skeiðum og neðarlega í Flóa gjörðu jarðskjálftar þ. 14. og 16. Augusti í beztu heyskapartíð stóran skaða. Féllu bæir víða gjörsamliga og niðurbrotnuðu, búsgagn og matvæli spilltust. Stórrigníngar komu, svo það sem fólk neyddist til að klaungra upp af húsum var til kostnaðar, en aungrar frambúðar, hlaut þó strax um sláttinn að gjörast.

Mannskæð sótt gekk þenna vetur, sem vissulega ekki að öllu leyti orsakaðist af atvinnuleysi; var mannfellir svo stór, að í meðalmáta sókn, hvar árlega vóru vanir að burtkallast 20 manneskjur, dóu nú yfir 200, sumstaðar dóu faðir og móðir frá börnunum; fundust svo börnin nær dauða komin og sum útaf dáin, þegar einhvör af öðrum bæ kom af hendíngu að; og tilbar að fundust í einu 10 manneskjur af húngri og máttleysi, sín í hvört sinn og á ýmsum tímum, úti orðnar á veginum frá Krísuvík og Grindavík til Njarðvíkanna eður Vatnsleysu-strandar.

Niðurstaða mín er í stuttu máli sú að þrengingar íslensku þjóðarinnar nú séu ekki sambærilegar við Móðuharðindin, að minnsta kosti ekki enn sem komið er.

Brennið þið bílar

Getur verið að þetta sé í smáa letrinu?

"Ef hið yfirveðsetta ökutæki brennur til kaldra kola, er skuldari laus allra mála."

3.11.08

Aðgöngumiðinn

Áðan var frétt á RUV um skuldir þjóðarinnar sem byrjaði svona: "Hvert barn sem fæðist í dag ..."

Gjaldmiðillinn

Það er talað í háum upphæðum þessa dagana. Ég sagði fyrir stuttu við mann að þinglýsing kostaði "þrettánhundruðogfimmtíu". Hann svaraði í spurnartón: Krónur?

2.11.08

Húsfrú Eyrún


Síðasta mynd sem birtist hér á síðunni var af hundi, nú bæti ég um betur og birti mynd af sjálfri mér í hrekkjavökubúningnum.
Það rifjaðist upp fyrir mér hvenær ég var síðast með rúllur. Það þótti ekki við hæfi að fermast með slétt hár. Daginn fyrir ferminguna setti Sjöfn á Hrafnkelsstöðum rúllur í hárið á mér og ég mátti sofa með þær um nóttina. Þar með var ég komin í fullorðinna kerlinga tölu.

Sendiferðir

Ég er alltaf aðeins smeyk við að fara með hendurnar blindandi ofaní kartöflupokann minn hér útí geymslu. Engu breytir þó það séu áratugir síðan kartöflumamma varð síðast á vegi mínum.

Eitt af þvi sem maður varð að gera reglulega var að sækja kartöflur í kjallarann í gamla bænum. Þar var margt sem vakti ótta, verst var myrkrið. Kartöflurnar þurftu endilega að vera innst í kjallaranum. Það versta sem fyrir gat komið var að putti lenti á kaf í kartöflumömmu sem leyndist í kartöflupokanum, sá hryllingur gleymist aldrei.

Lyktin í kjallaranum var köld, aðeins rök og mygluð moldarlykt. Alltaf eins. Síðasta vor var ég á ferð í Frakklandi og kom þar í vínkjallara, mörg hundruð ára gamlan. Þar var nákvæmlega sama lyktin.

31.10.08

Úlfur í óskilum

Atvik sem ekki verða útlistuð nánar, urðu til þess að þessi hundur var í óskilum á heimili mínu nú í kvöld en hefur nú sameinast eiganda sínum á ný, báðum til ómældrar gleði. Það var mikil hundalykt af honum og hann gat ekki setið kyrr nema óðalsostur væri í boði. Ég gaf honum líka útrunnið kjötálegg.

Mér varð af þessu tilefni hugsað til dúettsins Hundur í óskilum, en ég hlýddi á þeirra söng og hljóðfæraslátt á Tálknafirði í sumar. Þeir voru óhemju fyndnir, nema þegar þeir tóku lagið Rabarbara Rúna sem er ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér.

Áhættumat

Lyftan á mínum vinnustað bilar svona tvisvar í viku þessa dagana. Reglulega hljómar viðvörunarbjallan sem segir að einhver sé fastur í lyftunni. Það er löngu hætt að valda uppnámi. Ósjaldan hanga uppi a4 blöð með stóru letri "lyftan er biluð". Þegar ýtt er á hnappinn berast skruðningar og skellir til eyrna á meðan lyftan er að ákveða hvort hún ætlar upp eða niður.

Lyftan er frá heimsþekktum þýskum framleiðanda, Schindler að nafni, og í henni er tilkynning um að hún hafi staðist reglubundnar prófanir Vinnueftirlits ríkisins.

Ég tek lyftuna oft á dag. Það gera allir.

30.10.08

Kaupsamningur um símtal

Ég fékk tölvupóst frá Icelandair: Má bjóða þér 500 vildarpunkta! Umsvifalaust veitti ég þeim viðtöku, en gleymdi að skoða smáa letrið sem leyndist bakvið linkinn „skoða skilmála“. Það var græðgislegt.

Skilmálarnir reyndust vera þeir að ég samþykki að það verði hringt í mig og gerð tilraun til að selja mér nýtt kreditkort frá American Express (einmitt það sem mig vantar í dag).

Með öðrum orðum – ég seldi mig – eitt símtal við mig kostar 500 punkta. Ég ræð þó ennþá hvað ég segi í símtalinu og ef það verður stutt þá er ég með svipað á mínútuna og þær hjá Rauða símatorginu. Ég finn fyrir léttri niðurlægingartilfinningu.

Ef ég fæ tölvupóst þar sem mér eru boðnir 20 000 punktar þá ætla ég að skoða skilmálana fyrst.

29.10.08

Ó Færeyjar

Eins og kennt var í barnaskóla er Slættaratindur hæsta fjall Færeyja, 882 m hátt. Númerið á Landrovernum hans pabba er einmitt x882 þannig að þetta er auðvelt að muna. Mig grunar að Slættaratindur sé fallinn út af námsskrá lýðveldisins.

Dimmalætting segir lán Færeyinga til okkar "øgilig upphædd men ein dropi í havinum". Teldupóstur með þakkarávörpum hefur streymt frá Íslendingum inn á ritstjórnina. Fram til þessa höfum við talið okkur þess umkomin að hlæja á kostnað Færeyinga, þessara sannkristnu, hómófóbísku, skerpukjötsétandi sveitamanna sem eyddu peningum sem ekki voru til í vegi og jarðgöng.

Tvisvar hef ég heimsótt Færeyjar, seinna skiptinu man ég vel eftir. Mér fannst merkilegt að vegirnir voru ekki eins og frá er greint í íslenskum tröllasögum þó vissulega væru þeir allir með bundnu slitlagi. Þeir voru mjóir, oft ein akrein og Færeyingar óku lúshægt. Með naumindum var hægt að smeygja sér í gegnum jarðgöngin sem virtust ekki samkvæmt íslenskum stöðlum. Færeyingum er ekki sýnt um flottheit á sama hátt og okkur mörlöndum. Jeppar voru fáir og húsin lítil, það átti líka við um nýju húsin. Rollur Færeyinga eru sennilega jafnmargar þeim sjálfum. Þó eiga þeir hvorki fjárhús né sláturhús. Engin fljót finnast í Færeyjum, bara lækir.

Sendið Dimmalætting þakkarbréf: redaktion@dimma.fo

Orða frjósöm móðir

Ég heyrði í gær orðið sjálfsgúglun, sem mér finnst velheppnað nýyrði. Orðið lýsir því athæfi að leita að umfjöllun um sjálfan sig með aðstoð leitarvélar.

28.10.08

Líf annarra

Ég las eitt sinn um könnun á því hvað konur sæu eftirsóknarverðast við líf Díönu prinsessu. Þetta er svo langt síðan að hún átti þá líf. Það var ekki prinsessustandið, frægðin, peningarnir, fötin eða skartgripirnir. Flestar öfunduðu Díönu af því að vera mjó. Ekki nema ein öfundaði hana af prinsinum af Wales.

27.10.08

Við stofuhita

Þær mikilvægu upplýsingar láku rétt í þessu frá túpusjónvarpinu mínu að 80% af orkunni úr matnum sem menn borða fari í að halda jöfnum hita á líkamanum. Í krafti þeirrar grunnmenntunar sem íslenska ríkið lét planta í hausinn á mér, tel ég mig geta fullyrt að meiri orka fari í að hita líkamann eftir því sem umhverfi hans er kaldara.

Hér blasir við það einfalda megrunarráð að lækka hitann í íbúðinni um nokkrar gráður. Líkaminn þarf þá að nota meiri orku til að halda á sér hita. Mikilvægt er að spilla ekki megrandi áhrifum kuldans með því að liggja undir ullarteppi í sófanum.

Mér sýnist það spennandi rannsóknarefni fyrir Lýðheilsustofnun (með myndarlegum fjárstyrk frá Orkuveitu Reykjavíkur) hvort greiður aðgangur Íslendinga að ódýrri orku til húshitunar hafi aukið á offituvanda þjóðarinnar.

2008

Skynsamlegt er að hafa meðferðis nesti þegar farið er af bæ. Fleira er nesti en smurt brauð. Úrræðagóð kona sem ég þekki hefur slíkt dálæti á köldum hafragraut að hún hellir honum í plastpoka og geymir í handtöskunni, því hún óttast ekkert meira en að verða svöng þar sem ekki er mat að fá.

26.10.08

Ég lifi í draumi

Þeir sem muna eftir kvikmyndinni Íslenski draumurinn hafa gaman af þessu. Við erum stödd í þeirri mynd.

Timburmenn

Það er afleitt að vera fátækur, en þó sýnu verra ef maður hefur áður verið ríkur. Svona svipað fúlt og að vera feitur en hafa verið mjór. Tvöföld hörmung.

25.10.08

Geislun og plokkun

Meðan góðærið geisaði skuldbatt ég mig til að gangast undir og greiða dýra fegrunaraðgerð í fimm áföngum. Um var að ræða skeggnám á á efri undirhöku og heppnaðist það vel. Færustu sérfræðingar beittu nýjustu lasertækni til að svíða burt búkonuhár sem höfðu spillt útliti mínu þannig ég taldi ekki verða við unað. Kreppan hefur nú haft þau áhrif að ég verð að hverfa aftur á vit lágtækninnar. Ég plokka, en læt ekki plokka mig.

24.10.08

Segðu mér

Geir og Ingibjörg segja að við föllumst ekki á lögskýringar Breta vegna ábyrgðar á Icesave. Ég vil vita hverju Bretarnir eru að halda fram, hverjar þeirra lögskýringar eru. Það á ekki að þurfa að vera neitt leyndarmál hvernig þeir rökstyðja sínar kröfur.

Bíbí fríkar út

Hómer ástargaukur er stressuð týpa ef ekki illa manískur. Samskipti okkar eru satt að segja frekar yfirborðsleg. Yfirleitt virðist hann áhyggjufullur, ringlaður eða æstur, eða allt þetta í senn. Stundum hugsa ég um hve fljótlegt væri að snúa hausnum á honum einn hring án þess að búkurinn fylgdi með. Þófaljónin hafa líka áætlanir um Hómer ástargauk.

23.10.08

Matador

“Farðu aftur á byrjunarreit” var vont spjald. Við erum búin að draga það og í þokkabót fengum við strax á eftir spjaldið “færðu þig aftur um tvo reiti”. Getur verið að næst komi hið hræðilega spjald “það er lagður á þig stóreignaskattur”, en það var hrein eignaupptaka sem lagði fjárhag viðkomandi endanlega í rúst.

22.10.08

Í Versölum

Það er mikil ráðgáta hvað verið er að semja um við Bretana núna. Eitt er víst, þeir sem töpuðu á Icesave eiga aðeins rétt að greiðslum úr Tryggingasjóði, svo langt sem hann nær, en þeir eiga ekki kröfu á íslenska ríkið. Það hefur enginn stigið fram með rök fyrir því að við berum einhverja "þjóðréttarlega ábyrgð" á tapinu á Icesave. Af hverju er þá verið að semja og um hvað er verið að semja?

Geir Haarde sagði í Kastljósinu að það sé okkar túlkun á málinu að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á Icesave, en að fleiri hliðar séu á málinu en sú lögfræðilega. Góð samskipti við Breta séu okkur dýrmæt. Hann tók fram að við þurfum á samvinnu við Breta að halda til að varðveita eignir bankanna sem eru í Bretlandi. Ég skil það svo að Bretar hafi hótað því að leggja þar enn fleiri steina í götu okkar, nema við lofum að borga. Geir sagði einnig að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn setji það ekki beint sem skilyrði að við borgum Bretum, en sjóðurinn vilji að þetta sé "komið á hreint". Ég geri ráð fyrir að Bretarnir séu að nýta sér þessa staðreynd. Þeir gera á okkur óraunhæfar kröfur, vitandi það að við þurfum að koma málinu á hreint til að fá fyrirgreiðslu sjóðsins. Ef þetta er ekki kúgun þá veit ég ekki hvað það er.

Núna eru Bretarnir að hlusta aftur á viðtalið við Geir og þeir heyra í manni sem er ekki alveg fráhverfur því að borga það sem hann er krafinn um. Hann segist "helst vilja" ljúka þessu án þess að skuldbindingar falli á okkur. Það er vægast sagt áhyggjuefni að það komi til álita að láta þjóðina borga eitthvað sem hún skuldar ekki.

21.10.08

Hvað segir klósettið þitt um þig?

Spyr þýðmælt kona um leið og vatnið fossar yfir harpix eða harpic ilmsteininn. Það mun ekki vera til bóta að hugleiða um of hvert álit aðrir hafa á manni. Þó ég fari ekki til fulls eftir því heilræði, þá hef ég aldrei sokkið svo djúpt að vilja vita hvað klósettið mitt hefur um mig að segja.

20.10.08

Plötulopi verður að hnykli

Amma í Gröf kenndi mér hvernig best er að vefja hnykil. Hreyfingin á öll að koma frá úlnlið þeirrar handar sem heldur um hnykilinn, í mínu tilviki er það vinstri hendin. Ekki á að hreyfa hendina sem heldur við garnið, það er ekki leitt umhverfis hnykilinn, heldur er það hann sem fer í hringi.

19.10.08

Örlæti

Ég heyrði sögu af eldri íslenskum hjónum. Þau eru dugleg að ferðast og njóta lífsins. Fyrir örfáum dögum voru þau í lestarvagni í einu nágrannalandi okkar. Í vagninn kom norsk kona á tíræðisaldri og tóku þau tal saman. Þessi hjón eru ekki mikið tungumálafólk og það átti einnig við þá norsku. Samtalið var því brotakennt en það snérist um þau miklu peningavandræði sem við Íslendingar höfum ratað í. Endaði með því að norska frúin seildist eftir veski sínu og rétti hinum bágstöddu hjónum seðil svo þau mættu kaupa sér máltíð.

Það kæmi mér ekki á óvart þó það yrðu Norðmenn sem á endanum leggðu mest af mörkum við að aðstoða okkur.

18.10.08

Ég er mixari

Þegar ég rýndi í innihaldslýsinguna á Egils Mixinu til að finna hvaða andstyggðar baneitruð litarefni gæfu því sinn neongula lit, sé ég skyndilega að ekki eru nema 24 hitaeiningar í 100 ml af þessum öndvegisdrykk, umtalsvert færri en í meðalgosdrykk. Leit að litarefni var þegar hætt og ekki meira um það að segja.

17.10.08

Varnaðarorð

Þau gefast mörg tækifærin til að vitna í Hannes Finnsson Skálholtsbiskup þessa dagana. Hann var þess fullviss að íslenska þjóðin væri óvenjufljót að fjölga sér á ný eftir hallæri. Eiginlega skil ég ekkert í því að ráðamenn þjóðarinnar hafi ekki tilvitnaðir í hann á takteinum.

Ég opnaði áðan rit hans Mannfækkun af hallærum og við mér blasti á blaðsíðu 107 umfjöllun hans um tengsl óhóflegrar hrossakjötsnautnar og hungurdauða:
Það var segin saga, að hrossakjöts-ætur vóru þeir fyrstu sem á þessum hallæris-árum í harðrétti útaf dóu. Orsökin var augljós, að af því þessi nautn var almennilega álitin óheiðvirð, þóttust þeir, er hana brúkuðu, eigi skyldugir til, vóru eigi heldur svo vandir að breytni sinni, að þeir vildu brúka sómaaðferð og sparneytni í þessari matartekju, heldur a) átu sumir en sjálfdauðu og stundum úldin hræ, er horfallin voru aldrei matarhæf, síðst eptir að þau höfðu hálfdauð með blóði og gori legið eitt og annað dægur eða máske eigi allfá á víðavángi, þó vóru dæmi til, að slík væru etin. b) Tilbúningur, sem nærri má geta, var ekki ætið vandaður. c) Og það sem mest olli bana þeirra, er lögðu sér hrossakjöt sér til munns, óhófið, því þeir, sem í hrossakjötsát lögðust, gjörðu það flestir með græðgi, álítandi sér ekki ofgott eður sparandi, þar sem almenningur kallaði óæti, og því vóru sumir, sem annars höfðu fáa menn í heimili, er á vetri lögðu í búið 20, 30 og fleiri hófdýr, seldu þeir bæði fé, kýr og fisk fyrir ótemjur, sem þá fengust með góðu verði; af því óhófi hlauzt það, að þegar hrossin féllu og fengust eigi lengur, þoldu slíkar manneskjur húngur verr en aðrar, útstóðu meiri pínu og dóu fyrr. Eg efast því um, að hrossakjöt svo brúkað hafi viðhaldið nokkurs enn síður margra lífi.

16.10.08

BSÍ

Ég spái því að framtíðin verði öðruvísi en spáð er, hún virðist hafa tilhneigingu til þess. Neðan við þessa fínu heilsíðumynd úr tímaritinu Allers familj-journal stendur: Hur en trafikstation kommer att se ut år 1950 - kanhända! Því miður get ég ekki séð hvað myndin er gömul.

15.10.08

Annarra fé

Bankarnir lágu hér í eina tíð undir ámæli fyrir að lána lítt gjaldfærum lántakendum út á ábyrgðarmenn. Það þótti siðlaust að gera út á ábyrgðina en láta sér í léttu rúmi liggja hvort lántakinn gæti greitt.

Sá sem leggur pening á bankareikning er að lána bankanum. Bretar lánuðu Icesaveútibúi Landsbankans út á ábyrgð Tryggingasjóðs, en veltu öryggi bankans minna fyrir sér. Háu vextirnir freistuðu. Nákvæmlega sambærilegt við lánveitingu banka út á ábyrgðarmann.

Icesaveútibú Landsbankans auglýsti sérstaklega upp að Tryggingasjóður okkar ábyrgðist innistæður, þetta er á heimasíðu þeirra:
The first level of protection is provided under the Icelandic Depositors’ and Investors’ Guarantee Fund (www.tryggingarsjodur.is). The maximum protection under this scheme is 100% of the first €20,887 (or the sterling equivalent) of your total deposits held with us.
Nú þegar gengið er með fádæma hörku að ábyrgðarmanninum, fyrirtæki hans lagt í rúst og hópur rukkara sendur á heimili hans, er rétt að hann staldri við og skoði vel réttarstöðu sína áður en hann borgar kröfuna upp í topp.

Álagspróf

Innistæður lögaðila, jafnt sem einstaklinga hjá mér eru fullkomlega tryggar og ég hvet viðkomandi til að halda ró sinni. Eiginfjárhlutfall var traust samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri og lánalínur standa opnar.

14.10.08

Dyggð

Mig hefur alltaf langað svo óskaplega mikið til að vera dugleg að taka lýsi á morgnana, en það er bara eins og mér sé það ómögulegt nema í nokkra daga í röð, með margra mánaða millibili. Þetta hefur oft vakið upp leiðindahugsanir sem betur hefðu verið óhugsaðar.

Nóg lausafé í Borgarnesi

Ástæða er til að gefa því gaum að á mbl.is má finna fjöldann allan af fréttafyrirsögnum sem veita notalega og langþráða öryggiskennd:

Vélarvana bátur dreginn í land
Hjálpræðisherinn stækkar við sig
Skilorðsbundið fangelsi fyrir kjaftshögg
Íslendingur í frægðarhöll bandaríska sjóhersins
Enn styttist Vestfjarðavegur
Hælisleitendur fá fjármuni
Bolvíkingar efstir á Íslandsmóti skákfélaga
Siv: Þáttur kvenlegra gilda mun aukast
Viðgerð á ljósleiðara hafin

13.10.08

Vinstra augað

Mér voru færðar þær fréttir í fyrradag að ég er örveygð. Lítil brella með myndavél var notuð til að leiða það í ljós. Kannski munu þessar upplýsingar breyta töluverðu fyrir mig.

12.10.08

Sparigrís

Ég mun á næstunni miðla fáeinum dýrmætum ábendingum um sparnað í almennu heimilishaldi.

Mikilvægt er að sneiða hjá lífrænt ræktuðum, vistvænum, fair trade matvælum. Of dýrt. Nú er það tilbúni áburðurinn, litarefnin, rotvarnarefnin og skordýraeitrið sem gildir. Ekki má gleyma erfðabreytta gúmmelaðinu.

Reyktar og saltaðar kjötvörur hafa ekki þótt smartar í útrásinni, ég spái því að nú verði breyting á. Fátt jafnast á við bjúgu með uppslubbi.

Einnig skal bent á að ódýrasta magafyllin fæst úr einföldum kolvetnum. Fáið ykkur nammi, pasta, hrísgrjón, kartöflur og hvítasykur.

Prinsippfesta

Ég hef fundið fyrir því undanfarna daga að andúð mín á hvalveiðum er einhvernveginn ekki eins megn og hún var. Tilhugsunin um olíuhreinsunarstöðina í Arnarfirði er þó óbreytt, ennþá að minnsta kosti.

11.10.08

Framtíðarspá

Hingað var borið fallegt bréf á góðum pappír. Tilkynning til 17 ára manns um að samtals áunninn ellilífeyrir við 67 ára aldur sé kr. 4.539 á ári eða kr. 378 á mánuði. Lífeyrissjóður verslunarmanna er greinilega hvergi smeykur.

Uppistand

Það var alltaf ákveðin spenna í kringum það í kirkjunni í gamla daga hvort söfnuðinum auðnaðist að standa upp á réttum tíma. Oft var það prestsfrúin sem leiddi og aðrir fylgdu á eftir. Mér finnst í minningunni eins og hún hafi stundum staðið upp með eilitlum þjósti.

10.10.08

Endurgjald

Ég las sem barn mörg ævintýri sem enduðu á því þegar allt var fallið í ljúfa löð á ný, að sá sem hafði komið illu til leiðar var slitinn í sundur af fjórum óðum hestum eða settur í tunnu með göddum að innan og velt niður brekku eða húðin á bakinu rist í sundur og salti stráð í. Þetta hét að fá makleg málagjöld. Ekki man ég eftir söguþræðinum að öðru leyti.

9.10.08

Prjónareglur

Enn einu sinni hef ég brotið mikilvæga reglu sem ég setti til að bæta líf mitt. Þú skalt ekki byrja á peysu áður en síðasta peysa hefur verið kláruð. Ein alerfiðasta reglan. Þegar ég er byrjuð á nýrri peysu langar mig miklu meira í hana en þá sem var næst á undan í röðinni.

8.10.08

Fílabrandari rætist

Í þessari frétt Times frá því í júlí er ábyrgð okkar Íslendinga á Icesave lýst á myndrænan hátt:

It is a bit like relying on a pocket handkerchief as a safety net for an elephant. Very probably, the elephant will never fall. Very probably, the elephant will not be allowed to fall.
Frétt Times virðist hafa orðið tilefni þessarar á mbl.is þar sem Halldór J. Kristjánsson bankastjóri segir að vangaveltur um öryggi sparifjár séu "af hugmyndafræðilegum toga".

Fíllinn er lentur.

Nýtilegir málshættir

Uppáhaldsmálshættirnir mínir þessa dagana:

Þeim verður að svíða sem undir míga.

Það kostar klof að ríða röftum.

Grísir gjalda, gömul svín valda.

7.10.08

Villta vestrið

Bensínið lækkar um ellefukall, það þarf ekki að taka fram að ég var nýbúin að fylla tankinn. Held þó stillingu minni eins og mælt er með.

Ég hef mikið dálæti á skiltum með texta, þetta hér gæti verið gagnlegt í fyrirtækjum þar sem synja þarf fólki um afhendingu á sínu eigin fé.

6.10.08

Leap of faith

Þessi mynd er af Eilmer frá Malmesbury, munki nokkrum sem ákvað að hefja sig til flugs. Hann gerði þau slæmu mistök að rugla saman goðsögn og veruleika og mun hafa fallið til jarðar á svipaðan hátt og steinn. Hann dó ekki, en var bæklaður fyrir lífstíð.

Raunar er þetta blaðsíða úr Allers Familj-journal sem komst í mína eigu fyrir löngu síðan í skiptum fyrir eina evru.

Kæru lesendur

Óttist eigi. Ég hef styrkst í þeirri fyrirætlan minni að láta gleðina vera áfram við völd hér á Smjerpinkli, aðeins með örlitlu dassi af örvæntingu, kúgun og geðveiki, en það gengur yfir.

5.10.08

Ágrip af sögu stimpilgjalda


Ég hef ákveðið að leggja fyrir mig í meira mæli sagnfræðirannsóknir, með sérstakri áherslu á mína persónu. Stimpilgjöld hafa komið við sögu í mínu lífi með margvíslegum hætti.

Fyrir 25 árum eða svo þinglýsti ég eitt sumar í afleysingum á sýsluskrifstofunni á Selfossi auk þess sem ég útdeildi sektum fyrir umferðarlagabrot í héraðinu, sem ekki var síður lærdómsríkt. Einn af starfsmönnunum hét Ólafur Helgi, hann var töluvert neðar í fæðukeðjunni þá en nú. Þarna lagði ég á stimpilgjöld í fyrsta sinn og límdi litfögur stimpilmerki því til staðfestingar á hin stimpilskyldu skjöl enda óhemju mikilvægt er að skjal beri það greinilega með sér að stimpilgjald hafi verið greitt.

Verðbólga hafði leitt til þess að hinar stimpilskyldu upphæðir höfðu hækkað, en þeirri hækkun hafði ekki verið nægilega fylgt eftir með prentun á stimpilmerkjum með hærra verðgildi. Stundum var því töluvert föndur að líma merkin á skjölin og varð að nýta vel hvern auðan blett. Eftir á að hyggja er langmerkilegast að mér og öðrum þótti þessi iðja bæði sjálfsögð og eðlileg.

Þegar ég hóf síðar að þinglýsa í höfuðborginni, reyndist álagning stimpilgjalda öllu tæknivæddari. Mikil maskína úr pottjárni, af breskri gerð, framleidd 1952, skilaði rauðum ferköntuðum stimplum á hina stimpilskyldu pappíra. Það var þó vandamál að upphæð stimpilgjaldanna steig hratt, en stimpilvélin réði aðeins yfir fimm stafa tölum. Stundum var óhjákvæmilegt að útsvína plöggin með ótal stimplum. Til framfara horfði að fá nýja vél sem stimplaði sex stafa tölur, en samt þurfti stundum að stimpla skjöl í bak og fyrir því upphæðirnar hækkuðu sífellt.

Þyki einhverjum stimpilgjöld vera alger fornöld þá er það einmitt rétt. Því til staðfestingar er meðfylgjandi mynd af matskeið sem ég keypti mér á eBay áður en krónan hrundi. Skeiðin er stimpluð með vangamynd Georgs III Bretakonungs, sem ríkti árið 1816 þegar hún var smíðuð í London. Neðsti stimpillinn með mynd konungsins er til marks um að honum hafi verið goldin tilskilin gjöld af silfrinu.

Að lokum skal þess getið að stimpilgjald af 84 milljarða króna láni með vöxtum hefði orðið kr. 1.260.000.000.

Spilun

Spilarinn sem er inni í höfðinu á mér er alltaf stilltur á repeat, ég vildi að það væri hægt að ýta á play. Lagið sem er spilað núna aftur og aftur er Hangin´ around með Stranglers.

4.10.08

Fortíðin kemur


Getur verið að bensín- og bananaskortur muni ríða yfir þessa þjóð? Þið munið stikna, þið munið brenna segir Bubbi á ný. Hvað verður næst, maðkað mjöl? Vísitölubrauð. Greiðið gegn tékka þessum handhafa. Var hann nokkuð svo slæmur þessi Gamli sáttmáli?

Heiðveig

"This is to certify that miss Eyrún Guðmundsdóttir of Icelandic nationality, passport no. A2083584 is a person with no behaviour endangering the peace and order or the security of the state. "

Ætli maður eigi eftir að ganga með svona upp á vasann. Vottorð af þessu tagi er til dæmis hægt að gefa út á grundvelli þessarar nýju spjaldskrár hans Sarkozy um hegðunarmunstur þegnanna.

3.10.08

Ávöxtun

Fimm punda seðillinn sem hefur flækst hér á milli borða í nokkra mánuði hefur ávaxtað sig vel. Mér fyndist það jaðra við misneytingu að selja hann á þúsund krónur.

2.10.08

Eignarhald á smjöri

Ef smjör gleymist á eldhúsbekk og smágert og úfið munstur sést á yfirborði þess, þá er það óræk sönnun þess að kattartunga hafi komið þar við. Sú regla gildir undantekningarlaust að sleiktur matur er eign þess sem sleikti.

1.10.08

Óhappatilviljun

Án þess að ég geti skýrt það til fulls þá leyndist töluvert af tannkremi í rúlluburstanum sem ég notaði þegar ég blés á mér toppinn í gærmorgun. Það yfirfærðist í hárið og varð þar að hvítum örðum við að þorna. Tannkrem virðist gefa ágæta lyftingu í fíngert hár.

30.9.08

Línuleg hugsun

Ég hef í einfeldni minni talið margumræddar lánalínur svipaðar framlengingu á víxli. Það var nefnilega þannig að maður tók 50 þúsund króna víxil til þriggja mánaða og endurnýjaði hann síðan reglulega. Þessi fáheyrði misskilningur minn hefur nú verið leiðréttur.

Lánalína mun vera tilboð lánveitanda um að veita lánafyrirgreiðslu með tilteknum kjörum á tilteknum tíma. Það virðist mikilvægt að eiga töluvert af slíkum vilyrðum í safni sínu til að geta valið það besta þegar fjár er vant.

Þetta virðist í fljótu bragði fullkomlega sambærilegt við margreyndar og sannprófaðar aðferðir við samningagerð á öldurhúsum. Tilboðum um fyrirgreiðslu er þar veitt viðtaka og síðan eru þau metin þegar nær dregur lokun, með hliðsjón af framboði og eftirspurn á markaði, samningi er landað og hann efndur in natura.

Greinilegt er að lánalínur geta verið til skamms tíma og kallast þá gjarnan lausafjárlínur, en geta einnig falið í sér skuldbindingu til lengri tíma. Langtímalína væri lýsandi orð yfir slíkt, en virðist ekki hafa náð útbreiðslu.

29.9.08

Ábending

Núna er rétti tíminn til að skandalísera. Enginn mun veita því athygli. Þeir sem verða dæmdir til refsingar næstu daga geta hrósað happi.

Aðgát skal höfð

Ég veit ekki hvað maður getur skrifað um þegar bankakerfið riðar til falls. Það virðist ekkert umfjöllunarefni nógu stórbrotið í dag.

Eitt verð ég þó að segja í tilefni af forsíðufrétt Fréttablaðsins um gríðarlega eftirspurn á sláturmörkuðum. Þeir markaðir munu vera mjög líflegir og líklegt að verð á slátri og vörum til sláturgerðar fari hækkandi í samræmi við lögmálið sígilda um samspil framboðs og eftirspurnar.

Ég bendi á að það eru ennþá jafnmargar hitaeiningar í lifrarpylsunni og blóðmörnum og hingað til hafa verið. Enginn samdráttur þar. Ekki færri en 400 hitaeiningar eru í 100 grömmum. Hundrað gömm af slátri er ekki stór biti.

28.9.08

Ég sagði það

Alveg er það óþolandi þegar manni dettur eitthvað í hug en segir það ekki og svo segir það einhver annar og öllum finnst það mjög sniðugt.

27.9.08

Skemmtiferðir

Ég sá þess getið að fólk gerir sér ferð í Laugardælakirkjugarð að gröf skákmannsins. Síður reikna ég með að gera það. Í æsku fór ég í skoðunarferðir að Laugardælum af brýnna tilefni. Þar gaf að líta fullvaxin þarfanaut í löngum röðum, þeir hristu gríðarlega hausana svo hringlaði í keðjunum og geðillskan skein úr augunum á þeim. Í minningunni eru þeir allt öðruvísi týpur en Guttormur heitinn. Þetta þótti prýðileg skemmtun fyrir ungviðið.

Nýlega keypti ég Sögu Búnaðarsambands Suðurlands eftir Pál Lýðsson. Skemmtilegasta setningin í henni, höfð eftir Hjalta Gestssyni, snertir einmitt kynbótastöðina í Laugardælum:

Þannig vekur nýjasta tilraunaverkefnið um samstillingu beiðslis hjá mjólkurkúm með aðstoð hormónalyfja mikla forvitni og eftirvæntingu því að vel getur verið, að hér sé í augsýn lausn á því vandamáli, þegar kýr fá ekki fang vegna dulbeiðslis, eða þegar þær halda ekki uppi yxnmálum.

26.9.08

Flugferðir

Flugvélum er flogið. Stundum er sagt frá því að farþegum hafi verið flogið á áfangastað. Mér finnst eins og það hljóti að vera niðurlægjandi meðferð fyrir þann sem fyrir verður og ég sé í huganum mann á flugi, setinn af einkennisklæddum starfsmanni flugfélags. Þessi maður lætur örugglega ekki fljúga sér.

25.9.08

Handrukkari í heimsklassa

Það er áhrifaríkara að tala við manneskju í eigin persónu en að senda henni bréf. Skýrustu skilaboðin eru send með milliliðalausum mannlegum samskiptum. Það er fullkomlega löglegt að fara og tala augliti til auglitis við þann sem skuldar manni pening og óska eftir greiðslu. Ég held að það sé nokkuð góð innheimtuaðferð. Ef einhver kæmi hingað frá Bílastæðasjóði þá myndi ég borga sektina um leið.

24.9.08

Samband hefur náðst við raunveruleikann

Ef rúllukaka er 310 grömm og aðeins seinni helmingurinn af henni er eftir, þá hafa verið snædd 155 grömm af köku. Sá sem heldur að það séu minna en 500 hitaeiningar er að blekkja sjálfan sig.

23.9.08

Fundið fé

Ég ákvað að líta í skottið á bifreiðinni áðan. Það var reglulega skynsamlegt. Þar fann ég ýmsa lausafjármuni sem ég hafði talið glataða. Sumt tók ég í mína vörslu en annað lét ég óhreyft til athugunar síðar. Ég mæli með því að fólk líti öðru hvoru í farangursgeymslur bifreiða sinna.

Ástæðan fyrir þessu var sú að ég rifjaði upp af litlu tilefni smá óhapp sem ég varð fyrir og tengdist nokkrum rabbarabaraleggjum sem ég uppskar snemma sumars og varpaði í skottið. Því miður átti ég ekki næst erindi þangað fyrr en um haustið.

22.9.08

Eitt samsærið enn

Kíkti á miðann á nýja bolnum áður en ég stakk honum í vélina, þar stóð aðeins "wash this when dirty". Ágætis tilbreyting í því. Ég þoli ekki þegar stendur á venjulegum bómullarflíkum að þær eigi að þvo "seperately", "with similar colors", (hvernig þvær maður röndóttan bol með "similar colors"?), "inside out", eða það sem er mest óþolandi "hand wash only" og "dry clean only".

Yfirleitt fylgir mynd af þurrkara með kross yfir. Skil ekki hvað hægt er að selja mikið af þurrkurum, það finnst varla flík sem virðist þola vistina þar. Svo er klykkt út með "dry flat" eða "stretch to shape". Hvar á maður að breiða úr öllum þessum blautu fötum? Á gólfið kannski? Ég sé kettina í anda taka krók framhjá.

Sennilega er þetta eitt allsherjar samsæri. Hér er ekki hægt að gera neitt rétt. Það er hægt að skipta öllum þessum skilaboðum út fyrir þessi: Ef flíkin skemmist í þvotti þá er það þér sjálfri að kenna.

Það eru þó til ein skilaboð af þessum toga sem ég fagna ævinlega og er ekki í minnstu vandræðum með að fara eftir, sjá mynd.


21.9.08

Hagfræði

Það er talað um skortsölur í hverjum fréttatíma, rétt eins og allir eigi að vita hvað um er talað. Ef maður veit það ekki þá er maður vitlaus.

Rannsóknir mínar hafa leitt í ljós að þetta lýsir sér svona:

Ég fæ lánaða bók á bókasafninu og sel hana á 300 kr. í þeirri von að geta keypt sömu bók í Góða hirðinum á 200 kr. áður en skiladagur kemur á bókasafninu.

Um hrikalega lengd eilífðarinnar

Ætli þetta hafi ekki verið í norsku ævintýrunum sem þeir söfnuðu Asbjørnsen og Moe. Tvær eða þrjár brúnar bækur með brúnum þykkum blaðsíðum, uppi í hillu hjá afa of ömmu.

Fyrir austan sól og vestan mána er fjall og á hundrað ára fresti kemur lítil fugl og brýnir nefið á fjallinu. Þegar fjallið er sorfið í burtu þá er liðið eitt andartak eilífðarinnar.

Sjálfsagt hefur þetta verið orðað á fegurri hátt í sögunni en ég man þetta alltaf svona. Þegar ég las þetta sem barn þá þyrmdi yfir mig.

20.9.08

Hendistefna

Ég á erfitt með að henda ílátum sem ég held að ég geti kannski einn góðan veðurdag haft not af. Tómur skókassi fellur þarna undir. Kannski er þetta til vitnis um að ég þjáist af djúpstæðum ótta við að líða skort.

19.9.08

Misminni um húsráð

Mér hljóta að hafa orðið á mistök því einn morguninn vaknaði ég með bakið límt með tyggjói við lakið á rúminu. Ég notaði terpentínu til að ná tyggjóinu úr lakinu og var óspör á hana. Nú hefur lakið verið þvegið tvívegis við 60 gráður á Celsíus, sem er ráðlagður hámarkshiti í tilviki þessa laks. Mikið af þvottaefni er nú á leið til sjávar. Hreinsun á tyggjói tókst mjög vel, ekki er arða af því sjáanleg en terpentínufnykurinn af lakinu er svo yfirgengilegur að mér liggur við öngviti. Svona lagað kemur auðvitað ekki fyrir gömul og ljót lök.

18.9.08

Mannfækkun af hallærum

Ég keypti þessa bók eftir Hannes Finnsson í Góða hirðinum. Mikið öndvegisrit og mikil öndvegisbúð. Hannes var biskup í Skálholti, fróður og virtur. Hann tók saman yfirlit yfir hallæri á Íslandi fram til 1790 og helsta niðurstaða hans var að Ísland væri þrátt fyrir allt byggilegt.

Nú á krepputímum er gott að líta í þessa bók sér til hjálpræðis. Hannes telur að Íslendingar séu fljótari en aðrir að ná sér upp eftir hallæri:
Ísland fær tíðum hallæri, en ekkert land í Norðurálfunni er svo fljótt að fjölga á ný manneskjum og bústofni sem það, og er því eigi óbyggjandi.
Hannes bendir á nauðsyn þess að koma fátæklingum nógu fljótt til hjálpar:
Það er til lítils að lækna áfallna fátækt, nema undir eins sé komið í veg fyrir þá áfallandi. Við uppsprettu skal á stemma, en eigi að ósi; svo kostar miklu minna að hjálpa fátækum fyrst, þá þeir komast á knén til falls, en reisa þá á fætur, eftir að þeir eru dottnir um koll. Þegar þeir fyrst eru komnir á vergang verða þeir úr því sjaldan til nota, en draga marga aðra með sér, og þá þarf miklu meira þeim til bjargar en áður.
Þetta skrifar maðurinn fyrir ríflega 200 árum.

Erfiðleikar í heimilishaldi

Þegar þveginn og þurrkaður þvottur hefur legið í kuðli í þvottahúsi í ákveðinn dagafjölda sem óþarfi er að tilgreina, þá finnst mér hann vera orðinn sjálfkrafa aftur skítugur. Jafnvel þó hann hafi verið í körfu.

17.9.08

Þeim verður að svíða

Þegar síðasti skóladagurinn er búinn getur verið þægilegt að henda skólatösku útí horn með öllu innihaldi. Svo sér maður eftir því þegar í ljós kemur að hausti að síðasta nestið hafði ekki verið étið.

16.9.08

Ábyrgð

Annar kötturinn minn er alveg mátulegur. Hinn er kominn nokkuð yfir kjörþyngd. Eftir nokkra umhugsun hef ég ákveðið að gera ekkert í málinu. Putti verður að axla ábyrgð á eigin lífi.

15.9.08

Á réttum Kili


Það er töluvert ferðalag frá Reykjavík og á Beinahól á Kili. Þó er það aðeins eins skós ferð samkvæmt stöðlum Ferðafélags Íslands. Ég tel að sú flokkun þarfnist endurskoðunar. Mér var skítkalt á Beinahól og hugsaði stíft til Reynistaðarbræðra. Beinin á Beinahól eru víst ekki öll jafngömul. Einhverntíman var bætt í, enda lítið varið í hólinn beinlausan. Hann er ekki stórbrotinn frá náttúrunnar hendi. Það er afskaplega karakterstyrkjandi að ganga lengi lengi á Kili í slagveðri, sérstaklega þegar beitt er upp í vindinn. Mér finnst ég vera mun öflugri einstaklingur eftir þessa ferð en áður en hún var farin.

Ferðafélagi minn Olgeir Helgi Ragnarsson frá Borgarnesi tók þessa mynd af veðurbörðum hópnum þar sem hann maular skrínukost sinn á Beinahól.

Helgardvöl

Til stóð að loka fuglinn (ástargaukinn Hómer) inni í herbergi svo kettirnir ætu hann síður á meðan við brugðum okkur af bæ. Þau grundvallarmistök voru gerð að annar kötturinn var lokaður inni í herberginu með fuglabúrinu. Kötturinn þraukaði matar- og vatnslaus ríflega sólarhring og bar sig aumlega er hann losnaði, en fuglinn var alheill og sá hvorki á honum né híbýlum hans. Kannski er fuglinn ekki í þeirri stöðugu yfirvofandi lífshættu sem ég hef talið. Ég hef reyndar heyrt sögur um að kettir hafi unnið á fuglabúrum til að ná til íbúa þeirra en kannski eru það flökkusögur.

14.9.08

Endurance




Á Aðalvídeóleigunni fékkst uppúr 1980 spóla með þessu nafni, innihélt japanskt afþreyingarefni úr sjónvarpi. Spólan var tekin til sýninga á heimili á Bergstaðastræti sem ég kom stundum á. Ég hef ekki orðið jafngóð eftir að hafa horft á þetta. Japanir að pína sjálfa sig og aðra af einlægri hjartans lyst. Þeir gangast glaðir undir óskiljanlegar píslir. Þetta ættu allir að sjá, útvíkkar reynsluheiminn töluvert. Ef þessi spóla er einhversstaðar til í dag þá er það sennilega í Laugarásvídeói.

13.9.08

Hvítárnes

Ég hætti alveg örugglega að sofa við ljós fyrir þrítugt. Nú er ég að fara af fúsum og frjálsum vilja í sérstaka draugaskoðunarferð. Svona fer manni fram í lífinu.

12.9.08

Meira um merkingar


Það bættist í heimilistækjasafnið í dag. Skanninn var vígður með þessari opnu úr markaskrá Árnessýslu frá 1979, allt í tilefni Hrunarétta í dag. Ég held að myndin stækki ef smellt er á hana.

Þarna geta áhugasamir kynnt sér hvernig markið mitt lítur út. Það er hvatt hægra og tvírifað í heilt vinstra. Númer 25 og 46 á myndinni.

Í markaskránni er þess getið að mikilvægt sé að menn eigi ekki sammerkt við einhvern sem býr nærri, vegna hættu á misdrætti. Ég held ég eigi ekki sammerkt við neinn.

Lífsleikni 101

Ég var leið yfir því í dag að hafa ekki farið (ekki komist?) í réttirnar. Ég reyndi áðan að búa til kjötsúpu á Facebook mér til huggunar, en það mistókst.

11.9.08

Merking

Ég var fyrir stuttu stödd í anddyri fjölbýlishúss, þar var hvorki að finna merktan póstkassa né merkta bjöllu.

Kannski var húsfélagið bara að setja upp nýja póstkassa og bjöllur.

Undir háfjallasól

Ég var hvít og vildi vera brún. Í ljósabúð í Suðurveri fékkst háfjallasól í líki risastórrar rauðrar peru sem var einfaldlega skrúfuð í mosagræna Luxo lampann (þó að innan á skerminum stæði max 60w). Svo átti að byrja rólega, lengja tímann smámsaman. Ég var 18 ára eða svo, vann sjö daga í viku á hótelinu. Eitt kvöldið lagðist ég örþreytt í rúmið á brókinni og fór í sólbað. Vaknaði kl. fjögur um nóttina af einhverjum ástæðum og slökkti þá á sólbaðinu.

Næstu dagar og vikur voru litrík. Ég var skaðbrunnin allan hringinn niður að hnjám. Fyrsta daginn var skærbleikt ríkjandi litur, síðan yfir í rautt, blóðrautt, pósthúsrautt, nautakjötsrautt og jafnvel fjólublátt á köflum. Þegar hámarksbruna var náð komu fram nýjir litir, indíánarautt, múrsteinsrautt, rauðbrúnt og yfir í rónabrúnan leðurlit. Svo byrjuðu hamskiptin. Dökkbrúna leðrið datt af í stórum stykkjum og undan kom í ljós kom nýr rauður litur, hann varð síðan brúnn, flagnaði aftur og og undan kom aðeins ljósari rauður litur og þannig koll af kolli. Ég var skjöldótt vikum saman og var að sjálfsögðu kölluð Rúna brúna allt þetta sumar og jafnvel lengur.

Þetta var alveg órúlega vont. Ef þetta gerðist í dag myndi ég vilja leggjast á spítala með morfín í æð. Ég fór ekki til læknis og lá bara fáeina daga undir laki heima. Mamma smurði á mig einhverju sem læknirinn sendi með rútunni. Þetta sumar gekk ég í víðum fötum og notaði nærbuxur af pabba.

Ég þótti ekki nógu frambærileg til að servera í sal svona útlítandi (það var svo hár standardinn á Hótel Flúðum) en var höfð lengi í eldhúsinu. Ég man hvað það var óþægilegt þegar ég tók fulla grind af heitu leirtaui út úr Hobart vélinni og sjóðandi gufan réðist á mig.

Ummerkin voru greinileg í mörg ár og sjást aðeins ennþá. Ég hef ekki orðið almennilega hvít aftur. Þetta var ekki í síðasta sinn sem ég notaði háfjallasólina og ekki í síðasta sinn sem ég brenndi mig í henni.

10.9.08

Rúsínufræði

Mér finnst furðulegt að tala um að plokka rúsínurnar úr til að ná í bestu bitana, en það heyrði ég í gær. Ég þekki engan sem gerir það en marga sem plokka þær úr jólakökunni til að geta borðað hana.

9.9.08

Less is a bore

Mér finnst Skotarnir flottir í köflóttu pilsunum sem þeir nota með nokkurnveginn hverju sem er þannig úr verður ein allsherjar skrautsýning. Svo guðdómlega frjálsir undan oki hins einfalda smekks.

8.9.08

Grámosinn gugginn

Það varð til þráður í huganum á milli tveggja fréttapistla sem voru áðan í útvarpinu. Fyrst var sagt frá gróðurskemmdum á Hellisheiði. Þar er mosi (hraungambri) að drepast af mengun frá virkjuninni. Á eftir var sagt frá dómi yfir mótmælendum frá Saving Iceland. Þeir fengu fjársektir fyrir að fara ekki að lögum í mótmælum sínum við Hellisheiðarvirkjun. Enginn mun sekta Orkuveituna fyrir mosaeyðinguna. Sennilega löglegt. Ég spái því að Orkuveitan komi með metnaðarfullar mótvægisaðgerðir, sái Alaskalúpínu í sárin og bjargi þannig Íslandi.

Hver mosaplanta getur verið mörg hundruð ára heyrði ég að Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur sagði. Hann er náfrændi minn og kenndi mér líffræði í Flúðaskóla þannig að gleymist ekki. Ég ber afskaplega mikla virðingu fyrir gömlum lífverum. Ekki síst þeim sem vaxa á steinum og þessvegna veitti ég þessu sérstaka athygli. Besta fréttin um mosaeyðinguna er auðvitað á vef Náttúrufræðistofnunar. Þar segir að afar líklegt að um mengun sé að ræða og að öllum líkindum brennisteinsvetni.

7.9.08

Partasalan

Það má nota mig að vild í varahluti eftir andlátið. Ég er hlynnt endurvinnslu og styð að fólk kaupi notað frekar en nýtt hvenær sem því verður við komið.

Það væri samt svekkjandi að vakna upp hinumegin og frétta að maður sé ekki gjaldgengur þar af því mikilvæg líffæri voru brottnumin.
Nei því miður, hér inni er gerð krafa um að fólk sé í heillegu standi, svona eru bara reglurnar, þetta hefur alltaf verið svona. Lastu ekki kynningarefnið? Nei það eru ekki gerðar undantekningar. Það er bara ekki hægt. Computer says no.
Ef maður kemst yfir þessar áhyggjur og ákveður að taka sjensinn á líffæragjöf, þá er upplagt að melda það til Sigurðar landlæknis eins og hann býður uppá hér.

6.9.08

Kaloríusmygl


Hvað á það að þýða að kalla sykraðan drykk "water". Varðar þetta ekki við einhver lög? Á ekki hið opinbera að vernda borgarana fyrir svona svínaríi? Þetta er ég búin að vera að svolgra í mig í tuglítravís í góðri trú og af rælni fór ég að lesa utan á. Það er ekki hægt að ætlast til að bonus pater átti sig á þessu. Heilar 37 kaloríur í 100 ml. Ég sem hélt að "Tonic Water" væri svipað og toppur eða kristall. Skaðabótakrafa hlýtur að hafa stofnast á Vífilfell hf. vegna þyngdarröskunar sem klárlega hefur af þessu leitt. Þungbærast er að ég hef mátt þola algeran skort fólks á samúð og skilningi vegna þessa áfalls. Ég get ekki drukkið þetta framar.

5.9.08

Drápssniglarnir koma

Mér er sem garðeiganda alveg sérlega uppsigað við Spánarsnigla, eins og áður hefur komið fram. Þau válegu tíðindi eru í Fréttablaðinu í dag að þeir séu orðnir útbreiddir um allt landið og miðin. Hinn vaski skordýrafræðingur Erling Ólafsson mælir með því að sniglarnir séu handsamaðir hvar sem þeir hittast fyrir og framseldir Náttúrufræðistofnun Íslands. Sé framsal umhendis, skulu þeir teknir af lífi án dóms og laga.

Ég geri ráð fyrir að sniglanna bíði herfileg örlög í höndum Erlings og félaga hans á Náttúrufræðistofnun þó vart í líkingu við það sem lýst er hér í hrollvekjandi spjallþræði, sem glöggur lesandi sendi mér um daginn og ég tel rétt að vekja athygli á. Þetta eru leiðbeiningar óbreyttra garðeigenda í Danmörku um hvernig best sé að kvelja tóruna úr Spánarsniglum. Danir hafa reyndar gefið þeim gildishlaðið heiti, dræbersnegle, á sínu gullfallega tungumáli.

Sniglarnir virðast Dönum mjög hugleiknir og fjölmörg þarlend vefsetur (snegleblogs) eru alfarið helguð baráttunni gegn þeim. Hér er eitt slíkt, þar er mikið snegleinfo, og fjallað um sneglefjendsk havedesign, sneglesikre planter, aktiv dødshjelp (með mynd) og passiv dødshjelp. Einnig er boðið upp á smellinn netleik þar sem tækifæri gefst til að drepa Spánarsnigla online.

4.9.08

Leirgerður


Gaman var að skoða nýju hverina sem spruttu upp fyrir ofan Hveragerði í jarðskjálftunum í vor. Það rýkur bókstaflega úr öllu þarna. Út um allt eru stórir blettir þar sem allur gróður er dauður, og ef lófi er lagður á jörðina þá er hún heit. Skemmtileg gönguferð.

Einn hverinn sem spratt upp er stærsti leirhver sem ég hef séð, hann hvæsir og spýtir steingrárri leðju. Hverinn heitir Leirgerður, sem mér finnst afleitt nafn. Það var haldin samkeppni og þetta nafn vann svo ekki hafa hin verið burðug. Sennilega hefur láðst að gúgla nafninu áður en það var valið, Leirgerður var nafn á óvirðulegri bók.

3.9.08

Ég merki fé

Markavörður í Árnessýslu hefur samþykkt umsókn mína um fjármark og framvegis verður fé mitt markað þannig: Hvatt hægra og tvírifað í heilt vinstra. Nafn mitt mun birtast á prenti í næstu markaskrá Árnessýslu.

Hvatt þýðir að eiginlega er eyrað látið enda í oddi. Tvírifað í heilt eru tvær samsíða lóðréttar rifur oní eyrað. Ég er fegin að markið mitt er ekki með neinu til hægri eða vinstri af því það er ekki mín sterka hlið að þekkja hægri frá vinstri og allra síst á kind.

Ef einhver finnur sauðkind með þessu marki þá á ég hana. Ég ætla í réttirnar um næstu helgi að leita.

Hollvinasamtök yfirgefin

Nú er loksins runnin út styrktaraðild mín að ónefndri líkamsræktarstöð hér í borg. Það er mikill léttir að losna undan þeirri nagandi hugsun að ég sé að svíkjast um að mæta þangað. Samt vil ég ekki senda frá mér yfirlýsingu um að ég muni aldrei oftar kaupa mér kort hjá slíku fyrirtæki.

2.9.08

Undir áhrifum

Sumar sjónvarpsauglýsingar ná til mín. Stundum hellist yfir mig óstjórnleg löngun í kók við það eitt að sjá það auglýst í sjónvarpinu, þá gæti ég gert hvað sem er til að þamba það ískalt af stút. Þessi tilfinning líður sem betur fer fljótt hjá ef henni er ekki sinnt.

Mig langar líka alltaf í hreingerningarefni sem á undraverðan hátt fjarlægja gamalgróinn og innmúraðan skít. Það veitir mér einhverja vellíðan að sjá glampandi hreina rönd birtast undan tuskunni sem danska konan beitir svo áreynslulaust. Ég vil gera eins og hún. Mig langar í Cillit Bang.

31.8.08

The turf-killer

Þúfnabaninn er alveg magnað monster. Hann er á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri í skýli sem er bara örlítið stærra en hann sjálfur þannig að mikilfengleiki hans nýtur sín ekki til fulls. Þúfnabaninn myndi hiklaust sóma sér vel sem sýningargripur á hvaða tækniminjasafni sem er. Hann er svona ruddaleg týpa og óhjákvæmilegt að segja vá þegar maður lítur hann augum.

Búvélaverksmiðjur Heinrich Lanz í Mannheim í Þýskalandi (Landbaumotor Lanz) smíðuðu þúfnabanann. Fyrirtækið var stofnað 1859 og var til í hundrað ár þar til það var yfirtekið af John Deere. Hér er vefsíða aðdáanda Lanz með ótal myndum af tækjum framleiddum hjá verksmiðjunum, þar eru líka hljóðskrár, þar sem hægt er að heyra vélarnar mala og hósta.

Lanz er liðinn undir lok, þúfnabaninn bugaður af elli og nú er umsjónarmaður vefjarins látinn og auglýst er eftir manni til að taka við starfinu. Ideal hobby for a retiree eins og þar segir. Það þýðir sennilega ekki að senda inn mynd af þúfnabananum á meðan vefstjórinn er dauður.

Aðeins þeir allra frægustu komast á frímerki, þúfnabaninn komst í þann hóp í vor. Hann var af því tilefni þýddur á ensku og heitir á því máli turf-killer. Hm.

Í Norðurárdal

Ég útvíkkaði reynsluheim minn um helgina, skaut af loftriffli og ók fjórhjóli. Meiri vitleysan annars að kalla það hjól sem ekki er hjólað á. Fjórhjól er frekar grófgert ökutæki sem lætur ekki vel að (minni) stjórn og mér fannst eins og það væri tiltölulega auðvelt að drepa sig á því. Það er góð skemmtun að hristast á fjórhjóli.

Í ljós kom að ég er nokkuð skotfim. Ég gat hitt það sem ég miðaði á, reyndar af mjög stuttu færi. Nú langar mig að skjóta af alvörubyssu, en er ekki búin að gera það upp við mig hverju ég vil beina henni að. Helst engu lifandi. Ég er í hópi þeirra sem borða kjöt en vil að aðrir fremji morðið.

29.8.08

I Kina spiser de hunde

Gátu sauðabændur markað mör sauða af því að þreifa um dindil? Voru kindur mænuskornar og brotnar úr hálslið jafnskjótt og búið var að hálskera þær eða síðar? Gaf það góðar mörvonir ef mikið snörlaði í kindinni, meðan henni blæddi út? Þekktist sú þjóðtrú, að huglausum mönnum væri hollt að drekka volgt kindablóð og éta mör með? Var koðri látinn fylgja magál á fjaðurgeltum sauðum? Hvað var gert við krókasteik (leg) og undir hvaða nafni gekk hún? Hvað hét mörstykki á kviðarholi milli magáls og blöðru (þjófstunga eða annað)? Hvernig var unnið að því að hreinsa ristil? Var sérstakur réttur gerður úr vélinda og hvernig? Hvernig voru garnir verkaðar til matar, og hvað nefndust þær soðnar (vil eða annað)? Mátti þunguð kona eta kjöt af sjálfdauðu fé? Var pestarkjöt notað til matar? Hvernig var lifur barin í mauk (með strokkloki, tréhnalli, hrárri gulrófu, steinlóði eða öðru)? Voru kindahausar rakaðir og klipptir, áður en þeir voru sviðnir? Þekktist orðtækið: "Betra er broddsviðið en brennt"? Var höfði nautgripa slegið við strjúpann um leið og það var skorið frá og þá hve oft? Hvernig var kýrjúgur matreitt? Hvernig voru hraun tekin, og hve lengi voru þau ýlduð í fjósi?
Voru hraun reykt að fjósvist lokinni? Voru lappir sviðnar, áður en þær voru settar í fjós? Mátti hver sem var borða nautsheila og hvernig var hann matreiddur? Voru nautshausar (kýr?) soðnir í heilu lagi eða granir sagaðar af? Hvað kallaðist fóstur í kálffullri kú, sem felld var (aplakálfur eða annað)? Var óborinn kálfur nokkurn tíman notaður til matar og þá hvernig matreiddur? Var óborinn kálfur fleginn með venjulegum hætti eða tekinn af honum belgur? Voru ungkálfar teknir úr karinu undir hnífinn?
Var sagt um kálfa, sem bauluðu við blóðtrog, að þeir bæðu um líf? Nægði það til lífs? Voru kálfar flegnir samdægurs og þeir voru skornir? Var um það rætt, að dauðir kálfar fitnuðu í skinninu og þá hve lengi? Hvað nefndist þefur af illa verkuðu hrossakjöti (hrælykt eða annað)?

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins óskar svara við þessum spurningum og mörgum fleiri.

28.8.08

Eldvarnapistill

Þegar ég kom heim var fasteignin full af reyk og reykskynjarinn lét ófriðlega. Ungmennið hafði ekki veitt þessu sérstaka athygli en fékk góða iðran við hreinsun á ofninum.

Ég gæti skrifað langa frásögn af öllum þeim eldsvoðum sem hér hafa næstum því orðið og af skyldurækni tek ég það fram að þeir hafa verið á mína ábyrgð. Samt er ég skelfilega eldhrædd og get varla sofnað ef ég man eftir að batterí vanti í reykskynjarann.

Orður og vatn

Það var pínulítið flott þegar flugmennirnir voru að monta sig áðan á flugvélunum og þyrlunum. Ég sá útum vinnugluggann minn þegar flugvélin með liðið lenti og þar biðu tveir slökkvibílar sem stóðu andspænis hvor öðrum og sprautuðu vatni upp í loftið úr langstærstu stútunum þannig að myndaðist vatnsbogi (sigurbogi?) sem flugvélin keyrði undir. Mér varð um og ó.

Bjarni Fritzson virðist taka örlögum sínum af jafnaðargeði. Fimmtándi maðurinn sem fékk aldrei að vera með í leiknum. Ólafur Ragnar segir algengt að orðuþegar séu í raun fulltrúar hóps. Bjarni Fritzson hef'ði verið verðugur fulltrúi allra sem ekki hafa fengið að vera með í leik sem þá langaði til að vera með í. Ég held að margir þeirra sem hafa verið hafðir útundan finni til samkennndar með Bjarna þessum. Það innsiglar hlutskipti Bjarna að hann fær auðvitað enga orðu.

Sér nú loks fyrir endann á íþróttatengdum skrifum mínum. Aðeins eitt enn, það hlýtur að verða gefið út almanak fyrir 2009 með myndum af hetjunum.

27.8.08

Bogar

Er ekki ástæða til að reisa sigurboga í tilefni þess að hetjur snúa heim úr sigurför? Hópur af stæltum strákum á opnum vagni í miðborginni, það minnir dálítið á regnboga.

Þegar ég skoðaði Títusarbogann hafði verið tyllt spotta þvert á gönguleiðina undir bogann. Ekki marséra hér í gegn sagði spottinn. Einhver vildi ekki að Títus yrði hylltur fyrir verk sitt í Jerúsalem fyrir tvöþúsund árum eða svo. Geymt en ekki gleymt.

Sigurbogi gæti annars verið mannsnafn. Ekki síður en Sigurgeir.

26.8.08

Meindýramosi

Það er margt sem ég skil ekki. Eitt af því sem ég skil minnst er einhver eilífðarinnar krossferð gegn mosa í grasflötum. Hver hefur eiginlega komið því inn hjá fólki að ekki megi vera mosi í grasinu? Er þetta sama fólkið og vill endilega hafa tré bein? Mér finnst mosi eitt það besta sem vex í garðinum, hann er mjúkur, litsterkur og það er ekkert fallegra en mosaklæddir steinar og tré. Mosi hefur róandi nærveru.

Ef það er raki og skuggi í garðinum, þá mun þar vaxa mosi, skiptir engu hvað menn djöflast með mosatætara eða mosaeyði. Ég sá um daginn mosa kallaðan vágest á vefsíðu verslunar með garðvörur. Greinilega mikil ógn við tilveru garðeigenda. Þessi síða er óborganleg. Meindýravarnir Suðurlands hafa látið mál þetta til sína taka með afgerandi hætti og ætla greinilega ekki að láta mosann leggja undir sig héraðið. Mosi er orðinn meindýr:
Mosi er helsti óvinurinn í heimagörðum.
Hægt er að leigja mosatætara ef bletturinn sé að breytast í mosateppi.
Gangi ykkur vel að berjast við mosann.
Japanir hafa heilbrigða afstöðu til mosa. Þeir rækta mosa af mikilli natni í sínum görðum. Ég heyrði í fyrra sanna sögu af japönskum manni sem tafðist mjög á leið sinni frá Reykjavík til Arnarfjarðar, hann sá svo mikið af ómótstæðilegum mosaþembum á leiðinni. Hann gat ekki keyrt framhjá þeim án þess að stoppa og klappa mosanum.

Víða má finna leiðbeiningar um hvernig á að greiða fyrir mosavexti í garðinum. Það er gert með því að búa til graut í blandaranum úr tættum mosa og fleiru, grauturinn er síðan borinn á þann flöt sem óskað er eftir að mosavaxi. Hér er mælt með blöndu af leir, vatni, fiskiáburði og tættum mosa. Önnur uppskrift inniheldur bjór, sykur og mosa. Aðrir telja súrmjólk eða jógúrt skila betri árangri. Þetta er mikil gullgerðarlist.