31.7.08

Gullkálfur

Huppa frá Kluftum er frægasti Hrunamaður fyrr og síðar. Fjalla-Eyvindur og Einar Jónsson myndhöggvari eru líka aðeins frægir.

Hún var í heiminn borin 3. nóvember 1926 og átti klárlega ættir að rekja til huldunauts. Hún mjólkaði jafnmikið og kýrnar gera í dag. Allar íslenskar kýr geta rakið ættir sínar til Huppu og enginn nautgripur hefur haft önnur eins kynbótaáhrif á stofn íslenskra mjólkurkúa.

Stundum segi ég belja þegar ég man þetta ekki: Hér er kýr, um kú, frá kú, til kýr.

Ef þær norsku koma, mun ég kalla þær beljur.

Huppu hefur verið verðskuldaður sómi sýndur, þó félag áhugamanna um íslensku kúna hafi kosið að kenna sig við Búkollu. Ýmislegt hefur verið skrifað um Huppu og Halldór Pétursson málaði af henni mynd. Huppusalur er í félagsheimili Hrunamanna (þar hangir málverkið) og forrit eitt heitir Huppa. Huppa er næstalgengasta kýrnafnið. Huppuhornið og Huppustyttan heita verðlaunagripir við hana kenndir.

Það vantar bara styttuna.

Hér er ferlega skemmtilegur lestur um sögu íslensku kýrinnar, Páll Lýðsson reit. Huppa kemur að sjálfsögðu við sögu.

Aftakaveður á Þingvöllum

Ég las í litlu kveri eftir Pál Sigurðsson um aftökustaði í Landnámi Ingólfs, að áreiðanlegar heimildir væru fyrir 72 aftökum á Þingvöllum.

30.7.08

Veðurathugunarstöðin á Flúðum

Nei, það er engin veðurathugunarstöð í gjörvöllum Hrunamannahreppi og mér finnst það ólíðandi. Veit einhver hvar þetta Hjarðarland er?

Ég hef upplýsingar um að hitinn á Flúðum í dag náði 27°C í forsælu.

Tálknafjörður



Ég heimsótti Tálknafjörð um síðustu helgi. Það var bæjarhátíð og fólk skemmti sér, heimamenn, brottfluttir og ferðamenn. Börn og gamalmenni og allt þar á milli. Kvenfélagið með kaffi og rjómavöfflur. Björgunarsveitin grillaði lambakjöt og steinbít í kvöldsól. Þessi hátíð var eins og blanda af ættarmóti og sautjánda júní. Verður ekki betra.
Tálknafjörður er fallegt pláss, veðursældin leynir sér ekki á gróðrinum og Sunnlendingurinn kunni að meta að fjöllin halda sig í hæfilegri fjarlægð. Heppnir eru þeir líka að hafa heitt vatn. Þessvegna hafa þeir átt sundlaug áratugum saman og þar ku öll sýslan að hafa lært að synda hér áður. Pollurinn var líka draumur. Mér fannst merkilegt að það er ekki hverabragð af heita vatninu þeirra.
Ég skoðaði allar göturnar í bænum, bryggjuna, gamalt fiskvinnsluhús með mörgum spennandi vélum á hlaðinu, fiskikör í stæðum, báta, gullströnd, drápskríur, hundahreinsunarkofa (aflagðan), þroskuð aðalbláber (blá og svört), kirkjuna í Stóra-Laugardal, kaupfélagið, Pollinn, Hópið, Dunhaga, sundlaugina, íþróttahúsið, álfastein, nýju kirkjuna, Villimey og allar fallegu ljósmyndirnar hennar.

29.7.08

Dýr orð

Samkvæmt dómi héraðsdóms í gær er Páli Magnússyni, Helga Seljan Jóhannssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigmari Guðmundssyni og Þórhalli Gunnarssyni gert að borga lögmanni sínum fyrir hans störf, þó þau hafi verið alfarið sýknuð af miskabótakröfu Luciu Celeste Molina Sierra og Birnis Orra Péturssonar. Málskostnaður var látinn falla niður, eins og það heitir á tungumáli dómara. Það þýðir ekki að dómarinn hafi ákveðið að málið væri ókeypis.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála í héraði skal sá sem tapar máli í öllu verulegu skal að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Í 3. mgr. sömu greinar segir: "Nú vinnur aðili mál að nokkru og tapar því að nokkru eða veruleg vafaatriði eru í máli, og má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu."

Dómarinn ákvað að hvor aðili þessa máls ætti að greiða sinn kostnað en með því er hann að segja að "veruleg vafaatriði" hafi verið í málinu.

Hér talar dómarinn:
"Ekki er dregið í efa að málið hafi haft fréttagildi og því eðlilegt að um það væri fjallað í fjölmiðlum. Hins vegar er fallist á að ekki hafi verið vandað nægilega til undirbúnings umfjöllunar um málið í upphafi og gætt hafi ónákvæmni og að sumu leyti ekki farið rétt með staðreyndir um málsmeðferð varðandi umsóknir um ríkisfang. Leiðréttingar áttu sér stað er á umfjöllunina leið og verður ekki talið að umfjöllunin að þessu leyti hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnenda."

"Af gögnum máls verður ekki ráðið að afgreiðsla umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið önnur en almennt gerist, eins og gefið var í skyn í upphaflegri umfjöllun Kastljóss um málið. Það breytir því þó ekki að réttlætanlegt tilefni var til þess að fjalla um málið sem varðaði meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar, eins og fyrr greinir. "

Það verður ekki séð af lestri niðurstöðunnar í heild sinni að dómarinn hafi velkst í miklum vafa, hann segir þó að ónákvæmni hafi gætt í fyrstu umfjöllun Kastljóssins af málinu, sem leiðrétt var á síðari stigum og að gefið hafi verið í skyn í upphaflegri umfjöllun Kastljóssins að meðferð umsóknar stefnanda hafi verið önnur en annarra umsókna um ríkisborgararétt, en það verði ekki ráðið af gögnum málsins.

Samkvæmt þessu verður ónákvæmni í upphafi fréttaflutnings af málinu til þess að hinir sýknuðu þurfa að borga málskostnað sinn. Það er dýr ónákvæmni. Krafan virðist vera sú að fréttamenn séu óskeikulir. Málinu er þó ekki lokið, í frétt RÚV er haft eftir "verjanda" (ónákvæmi hjá RÚV) parsins að dómnum verði áfrýjað.

Saltað hrossakjöt


Í þessum tveimur ferðum sem ég hef farið á Vestfirði, sunnanverða, hef ég ekki séð einn einasta hest. Um helgina var ég á Tálknafirði og hélt um stund að skýringin væri fundin. Þar fyrir utan hvert hús voru saltkjötstunnur og mér datt í hug að Tálknfirðingar hefðu saltað öll vestfirsk hross oní tunnur sínar.

Svo reyndist ekki vera. Á Tálknafirði eru menn komnir á æðra stig í flokkun sorps en að ég taldi að þekktist á Íslandi. Tálknfirðingar setja lífrænt sorp í þessar tunnur, sem sveitarfélagið sér um losun á. Úr þessu verður molta. Svona hefur þetta víst verið í áraraðir eftir því sem mínir heimildarmenn segja.

Hvenær skyldi þetta þykja mögulegt í henni Reykjavík.

Hagstofan segir að það séu tæplega 900 hross á Vestfjörðum. Sama heimild segir að þar sé ekki eitt einasta svín.

28.7.08

Góður farþegi


Ég var eini farþeginn áðan með áætlunarflugi frá Bíldudal til Reykjavíkur með flugfélaginu Örnum. Ég baðst afsökunar á því að vera eini farþeginn, en konan í afgreiðslunni sagði að það væri allt í lagi. Flugmaðurinn bar töskuna mína úti vélina. Þegar þangað var komið ávarpaði flugstjórinn mig: Góður farþegi. Horfði í augun á mér á meðan hann sagði mér hver væri áætlaður flugtími til Reykjavíkur, hvar neyðarútganga væri að finna og að vænta mætti lítilsháttar ókyrrðar við flugtak og lendingu. Svo sagði hann mér sitthvað fleira. Mér fannst ég vera dýrmætur viðskiptavinur.

Ekkert skilti, engin hætta.


Myndin er af ítarlegu viðvörunarskilti við Pollinn á Tálknafirði. Dásamlega friðsæll staður. Þarna eru þrír heitir pottar útí guðsgrænni náttúrunni, ekki mjög uggvænlegir að sjá. Tálknfirðingar töldu það þó ekki eftir sér að setja upp skilti. Enter at own risk.

Mér varð hugsað til frétta frá Vík. "Ólíðandi með öllu að ekki séu viðvörunarskilti við Reynisfjöru". Hætta - Danger - Gefahr. Þér getið drukknað í sjónum. No swimming. Kannski einhver myndi hætta við að hætta sér. Landeigandinn að hugsa um að loka svæðinu, verði hann krafinn um viðvörunarskiltið. Hann setur upp annað skilti: Aðgangur bannaður.

Það er upplifun að standa í Reynisfjöru. Brimið er hamslaust, ofbeldisfullt og ógnandi. Eftirminnilegast finnst mér hljóðið, sífelldur þungur dynur úr iðrum jarðar. Þarna þarf ekkert skilti. Skilaboðin eru skýr.

Víkmýringar fara sér ekki að voða í Reynisfjöru. Tungnamenn stinga ekki lúkunum oní Geysi í Haukadal. Auðvitað á að reisa óþörf skilti til aflestrar fyrir aðkomumenn. Landeigandinn, ferðaskrifstofan, leiðsögumaðurinn, allir geta bent á skiltið ef eitthvað fer úrskeiðis.

25.7.08

Óorð

Skrauthvörf eru skemmtileg. Það er alltaf gaman að fylgjast með fólki handleika heitar kartöflur. Stundum er nýju orðunum ætlað að sýna hve notandinn er vel upplýstur einstaklingur, þar er gott dæmi orðið geðröskun, eða jafnvel felmstursröskun, sem er aðeins fyrir lengra komna. Allskyns raskanir virðast í sókn. Svo geta orð geta fengið á sig óorð og orðið ónothæf vegna langvarandi misbeitingar, kynvillingur fékk rauða spjaldið fyrir margt löngu. Í öðrum tilvikum er verið að klæða úlfinn í sauðargæruna, þar er gott dæmi orðið varnarefni sem þýðir eitur og orðið skygging sem hér þýðir að njósna.

Merkilegt að brúðkaup hafi ekki lent í hreinsunareldinum, það vísar til kaupsamnings um kvenmann.

Lýtaaðgerðir hafa verið gerðar hjá hinu opinbera. Orðið stofnun er óttalega stofnanalegt og neikvæðar tilfinningar hellast yfir þann sem það notar. Félagsmálastofnun verður Félagsþjónustan sem verður Þjónustumiðstöð. Stofnun er þó skömminni til skárri en eftirlit, þar er stóri bróðir örugglega fastráðinn. Útlendingaeftirlit verður Útlendingastofnun. Heimilislegast er þegar nafnið endar á stofa. Þar hlýtur fólki að líða vel. Neytendastofa.

Um daginn sá ég á prenti orðið veigrunarorð. Eru það skrauthvörf yfir skrauthvörf?

Það er eftirspurn eftir nýjum og fallegum veigrunarorðum: Sífellt fleiri gæludýr glíma við kjörþyngdarröskun.

24.7.08

Að þora eða þora ekki

Ef maður étur kertavax þá hættir maður að stækka.

Ef maður lætur sig rúlla niður brekku, þá fær maður garnaflækju.

23.7.08

Hamingjan er sæt



How Soon Is Too Soon?

Not soon enough. Laboratory tests over the last few years have proven that babies who start drinking soda during that early formative period have a much higher chance of gaining acceptance and “fitting in” during those awkward pre-teen and teen years. So, do yourself a favor. Do your child a favor. Start them on a strict regimen of sodas and other sugary carbonated beverages right now, for a lifetime of guaranteed happiness.

- Promotes active lifestyle!

- Boosts personality!
- Gives body essential sugars!

The Soda Pop Board of America
1515 W. Hart Ave. * Chicago, ILL.


Notaleg hneykslunarbylgja fer um kroppinn. Gott að það er hætt að halda kókinu svona blygðunarlaust að saklausum börnunum. Þá er nú betra að fóðra þau á hollum og góðum mjólkurvörum eins og við gerum á Íslandi í dag. Skólajógúrt er ætluð börnum, eins og nafnið og umbúðirnar sýna. 11,6 g af kolvetnum í 100 g. MS tilgreinir ekki hve stór hluti kolvetnanna er viðbættur sykur. Það má sjá hjá Lýðheilsustöð, fimm myndarlegir sykurmolar í einni jógúrtdollu handa barninu. Verði ykkur að góðu.

22.7.08

Alveg hreinasatt

Ef maður gleypir tyggjó þá límast saman í manni innyflin.

Það á aldrei að lána tyggjó.

Það var vandaverk að pilla steinana úr tyggjói sem hafði dottið á hlaðinu svo hægt væri að tyggja það áfram.

Skrímsli á Íslandi

Hvernig drepur maður Spánarsnigil? Því hefur ekki verið svarað. Það er sennilega svipað því að stíga ofan á banana að ætla að trampa hann í hel. Ætli verði ekki að skjóta hann.

Spánarsnigillinn á baksíðu Moggans í dag er meira en 10 cm langur og eftir því gildur. Aumingjagæska mín er alltumfaðmandi, en nær ekki til Spánarsnigla. Þeir munu ekki kemba hærurnar í mínum garði.

21.7.08

Sókrates og óðjurtin


Horfði á þáttinn um Aþenu áðan á ríkinu. Þeir drápu Sókrates með seyði af óðjurt, sem svo er nefnd uppá íslensku. Eitrið veldur vöðvalömun.

Jurtin er af sveipjurtaætt rétt eins og hinn armi skógarkerfill sem veður uppi hérlendis, enda má sjá af myndinni af hún er nauðalík kerflinum. Einnig er hún skyld dilli, gulrótum, steinselju, fennel, koriander, kúmeni, hvönn og fleiri plöntum sem eiga það sameiginlegt að blómin mynda sveip.

20.7.08

Rússland og Gullfoss

Þegar ég rifjaði um frækaup mín frá Rússlandi fór ég að hugsa um að ég flaug eitt sinn með flugfélaginu Aeroflot. Mér er minnisstætt að gangurinn í flugvélinni dúaði eins og trégólf í gömlu húsi þegar ég gekk inn eftir honum og ég sé enn fyrir mér glansandi terlínbuxnarassinn á vel nærðum flugþjóninum. Starfssystir hans var með silungavarir, hún hafði varalitað dálítið útfyrir og gert nokkur önnur alvarleg förðunarmistök. Ég sá ekki flugmanninn. Það var fátt annað að gera en að flissa að hugsunum sínum um voveiflegan dauða í eldhafi.

Í Moskvu kunnu menn að rukka fyrir aðgang að túristagildrum. Ein lúga fyrir innfædda, önnur fyrir útlendinga með fulla vasa fjár. Ég borgaði mig meira að segja inní kirkjugarð þar í borg. Merkilegt hvað við erum feimin við svona gjaldtöku. Kannski finnst okkur slíkt vera skammarleg ógestrisni (góðu gerið þið svo vel), kannski erum við að friðþægja fyrir annars hæsta verðlag í heimi, við vorkennum túristunum meira en okkur sjálfum útaf því.

Ferðamenn, jafnvel þó þeir séu afkomendur Jóns Arasonar, eiga auðvitað að borga rúllugjald inná fjölsótta staði, enda brýnir hagsmunir allra að þeim sé viðhaldið og að skítsæmilegir kamrar fyrirfinnist. Slík mannvirki eru yfirleitt ekki til prýði, þannig að peningana er upplagt að nota til að fá Ólaf Elíasson og Rúrí til að hanna flottustu kamra í heimi við helstu fossa landsins.

19.7.08

Athyglisbrestur

Atvik varð til þess að ég tók eftir því að rúðuþurrkurnar á bílnum mínum eru ekki eins. Sú sem er bílstjóramegin er mun lengri. Nánari athugun leiddi í ljós að þetta er algengt fyrirkomulag.

Bakari var hengdur

Mikil skaðræðisplanta ein heitir Skógarkerfill. Af því voru færðar fréttir í Mogganum í fyrradag að Eyfirðingar hyggðust ráðst gegn honum með eiturefnum, áður en hann legði undir sig þinglýstar eignir bænda þar um slóðir. Skógarkerfillinn flæðir frjálst um Esjuhlíðar við Mógilsá og sést hvíta slæðan langt að þegar hann er í blóma. Góðar myndir og fróðleikur hér á vef Náttúrufræðistofnunar. Sem dæmi um yfirgang skógarkerfilsins má nefna, að þó íslenska sauðkindin og lúpínan séu bærilega fylgnar sér, hafa þær ekki roð við kerflinum.

Mikil öndvegisplanta heitir Spánarkerfill, og ég hef verið með hann í garðinum mínum um árabil. Hann sáði sér sjálfur á góðan stað og hefur innflytjandinn aðlagast vel. Hann er duglegur að sá sér en ekki eins aðgangsharður og frændi. Ég hef alltaf klippt af honum blómstönglana áður en fræin falla á haustin af því mér finnst temmilegt að hafa einn í garðinum mínum, en vil ekki hafa heilan hóp. Hann er blaðfallegur og gróskumikill og af honum er anisbragð og -lykt sem latneska nafnið, Myrrhis odorata, vísar til.

Spánarkerfillinn minn má þola athugasemdir og jafnvel eru viðhafðir grímulausir eineltistilburðir í hans garð vegna tengsla hans við hryðjuverkakerfilinn, enda eru þeir svipaðir í útliti og í daglegu tali heitir þetta allt kerfill. Um daginn sá ég að einhver hafði tekið sig til, að mér fjarstaddri, og klippt af kerflinum mínum blómstönglana, sem þó voru langt frá því að fella fræin. Stutt rannsókn leiddi í ljós að nágranninn sem þar var að verki taldi sig hafa aðhafst í réttmætri sjálfsvörn gegn yfirvofandi fræregni og hefur það mál nú verið jafnað. En kerfillinn verður ekki jafngóður fyrr en næsta sumar.

18.7.08

Ærlýsing



Það var stórviðburður í mínu lífi þegar föðurafi minn, hann stóri Páll í Dalbæ, gaf mér lamb, þá var ég sennilega sex ára. Hosa var ærin kölluð og móðurafi minn, Emil í Gröf, tók að sér að skaffa henni fæði og húsnæði.

Hosa var svartbotnótt, með hvíta bringu, hvítar hosur og hvíta blesu. Hornin voru svört og beindust fremur aftur en út til hliðanna. Hún var háfætt, mjóslegin og kvik í hreyfingum. Ég get séð andlitið á henni fyrir mér. Hosa var stygg og tortryggði allar mannskepnur. Mikið reyndi ég að vingast við hana en það var alveg árangurslaust. Hún vildi aldrei tala við mig. Þegar hún var nýborin var hún sérstaklega illskeytt. Þá fnæsti hún og stappaði niður framlöppunum þegar ég reyndi að nálgast lömbin og ég þorði ekki inní króna til hennar af ótta við að verað stönguð í hel.

Þrátt fyrir þetta var ég stolt af Hosu minni, vissi að ástæðan fyrir stórlyndi hennar var að hún var forystukind og það var gegn hennar eðli að láta kjassa sig eins og hvert annað gæludýr, þó hinar rollurnar létu sér það vel líka. Auðvitað fór hún alltaf fyrir sínum hópi. Það virtist fullkomin samstaða um það, aldrei fór nein fram úr henni. Hosa gekk alltaf með höfuðið reist og skimaði í kringum sig. Ef maður horfði á hana þá horfði hún á móti.

Frjósemina vantaði ekki, ævinlega var hún tvílemd og mjólkaði sínum lömbum afburðavel. Hæglega hefðu getað gengið undir henni þrjú lömb. Lömbin voru alltaf þrælvæn og urðu vitaskuld að kjöti á haustin. Oftast voru skrokkarnir 18-20 kg hvor. Andvirði þeirra fór á bankareikning minn við Búnaðarbankann í Hveragerði. Þegar ég var 12 ára keypti ég tekkskrifborð, íslenska framleiðslu, sem kostaði nokkurnveginn alla innistæðu þess reiknings. Það er örugglega dýrasti lausafjármunur sem ég hef á ævinni keypt.

Hosa á enga afkomendur, sem er synd, því hún var stólpagripur. Myndin er ekki af henni en hún var ekki ósvipuð þeirri til hægri.

Sem betur fer er enn til forystufé á Íslandi, svo er bændum fyrir að þakka. Þessar skepnur eru einstakar í heiminum og eru ekkert minna en þjóðargersemar sem ber að virða og varðveita. Skömm okkar verður mikil ef það misferst. Það er til þjóðarblóm, meira að segja þjóðarfjall, en vantar sárlega þjóðardýr. Það væri í góðu samræmi við opinbera sjálfsmynd Íslendinga að samsama sig forystusauðum, betra þjóðardýr væri vandfundið.

17.7.08

Skítt með kerfið

Mér finnst ekki eins og verið sé að tala til mín með auglýsingaherferð Vodafone. Ég er kerfið.

16.7.08

Jarðarferð

Það er föstudagur á hverjum degi, vikulegir sjónvarpsþættir eru sýndir daglega. Jól, páskar, jól, páskar. Áður en við er litið er maður steindauður og þá er of seint að huga að útförinni. Til fyrirmyndar er að eiga fé á bók til að greiða hana, varla dugar minna en milljón kall eftir því sem sagt er. Veitingamenn í Reykjavík hafa komið því inn í hausinn á fólki að nauðsynlegt sé að erfidrykkjur séu svipaðar veislum sem fólk heldur þegar það giftir sig í fyrsta sinn. Auðvitað er þetta vitleysa og alveg óþolandi að þessi flottræfilsháttur, sem fæstir hafa efni á, sé smámsaman að koma almennu óorði á erfidrykkjur, en þær eru mikilvægar samkomur fólks. Brýnt er að allir komi saman til erfidrykkju eftir útför, þar gefst tækifæri til að knúsa nánustu ættingja þess látna og spjalla við fólk sem ekki hittist nema í erfidrykkjum. Fólk heilsast varla í kirkjunni. Erfidrykkjan er táknræn samkoma, minnir á að tími er til að gleðjast þrátt fyrir allt. Fátt er skemmtilegra en að setjst niður með fólki, drekka kaffi og spjalla.

Ég geri hér með kunnugt að í minni erfidrykkju eiga að vera kleinur, flatkökur með hangikjöti (sjóða hangikjöt og skera niður, engin fituskert plastpökkuð þunnildi), randalínur (hvítar með sultu og brúnar með margarínfríu kremi) og rjómapönnukökur (með mikilli rabarbarasultu). Hverskyns tertur bannaðar og heitir réttir með grænum aspas og skinku eru algerlega bannaðir að viðlagðri afturgöngu og ofsóknum af minni hálfu. Kaffið skal vera rótsterkt og hægt að fá útí það. Það má alls ekki halda erfidrykkjuna á hóteli, betra að hún sé í safnaðarheimili, en best þó að hún sé í félagsheimili. Best er að ættingjar og vinir (ef einhverjum slíkum verður til að dreifa) sjái um veitingarnar en næst best að kvenfélag sjái um þær. Faglærðir veitingamenn mega hvergi koma nærri.

Sparnaðarráð í kreppunni: Jarðið ættingja yðar með minni tilkostnaði.

Fyrst ég er búin að gefa fyrirmæli um erfidrykkju þá er best að upplýsa um sálmana sem sungnir verða: Allt eins og blómstrið eina (skyldustykkið), Heyr himnasmiður (langflottastur), Ég kveiki á kertum mínum (það ætti að koma skælunum út á kirkjugestum), Blessuð sértu sveitin mín (alltaf sungið yfir sveitamönnum). Svo þarf að velja prestinn, kannski verður Matthías Pálmason aðalnúmerið?

Til að tryggja að mér verði hlýtt, hyggst ég gera erfðaskrá þar sem ég segi að ef frá þessu verður brugðið, þá eigi Kvenfélagasamband Íslands að erfa 1/3 hluta auðæfa minna. Þetta er fullkomlega löglegt að gera.

Ef vel tekst til í aðhaldinu ættu sex manns að duga til að bera kistuna, ef allt fer á versta veg, þá þarf átta. Svo ætlast ég til að allir sem mæta í útförina ómaki sig útí kirkjugarð og krossi yfir.

Nöfn með rentu II

Ólafur Dýrmundsson er formaður Dýraverndarsambands Íslands.

15.7.08

Kæfandi

Roger Moore nærir sig ekki á fois gras, það ætti enginn að gera.

Þeir sem upplifa nú skortsins glímutök og hafa ekki lengur efni á að éta fois gras, geta einfaldlega sagt að þeir afþakki hana af prinsippástæðum.

Í staðinn er óhætt að mæla með íslenskri kæfu, soðinni af kindum sem lifðu hamingjuríku lífi. Hér er uppskrift úr matreiðslubók Jóninnu Sigurðardóttur, sem gefin var út í fjórða sinn á Akureyri 1943:

10 kg kindakjöt
3 kg mör
150 g laukur
300 g salt
pipar
kryddblendingur
negull

Kjötið er skafið og þvegið, soðið í vatninu með saltinu í 3-4 klst. eða þar til það er soðið í mauk og allt vatnið gufað upp. Bezt er að láta kæfuna sjóða í opnum pottinum seinustu 2 klst. Þess verður að gæta, þegar soðið minnkar, að ekki brenni við. Þegar kæfan er soðin er hún látin kólna. Laukurinn sem er saxaður smátt, er látinn í ásamt kryddinu. Öll beinin tekin úr og kæfan hnoðuð þar til hún er köld, hvít og smágerð.

Hægt er að einfalda þessa uppskrift: Hálf rolla soðin í hálfan dag.

Sæt er lykt

Ekki áttaði ég mig á því fyrr en af því voru færðar fjölmiðlafréttir að hveralykt er vond. Hún er ekki bara vond af því hún berst frá hinni vondu Hellisheiðarvirkjun heldur þykir hún argasta fýla og jafnvel sögð minna á prump. Ekki hljómar heldur vel að anda að sér brennisteinsvetni, jafnvel þó það sé innan allra veginna og metinna viðmiðunarmeðaltalsmarka.

Í Hrunamannahreppi, þar sem ég er uppalin, er mikið af hverum, sérstaklega í nágrenni Flúða. Varla er hægt að reka niður bor án þess að upp komi heitt vatn. Reyndar er mun erfiðara að finna kalt neysluvatn og á mínu bernskuheimili rann kælt hveravatn úr kalda krananum. Það var stutt í hverinn og ósegjanlega gaman að sniglast í kringum hann, kasta í hann grjóti, hlusta eftir næstu gusu, sjóða í honum gulrætur og reyna að brenna sig ekki. Og það var gaman að anda að sér gufunni. Það var sérstaklega notalegt þegar hún fauk á mann í svölu veðri.

Mér finnst alltaf gott að finna þessa lykt á Hellisheiðinni þegar ég er á leið austur.

13.7.08

Vinsamlegast takið númer

Hún er sterk sú mannlega tilhneiging að vilja bæta það sem aflaga fer með því að setja um það reglur. Ég hef oft sett reglur á heimili mínu, bæði skriflegar og svo aðrar sem hafa átt að varðveitast í munnlegri geymd. Fremur sjaldan hafa þær náð markmiði sínu um að breyta hegðun á heimilinu, þær hafa verið brotnar, beygðar og mistúlkaðar af algeru virðingarleysi. Þó hafa þetta verið góðar reglur og mikil samstaða verið um gildistöku þeirra.

Uppáhaldsreglan mín í lögreglusamþykkt Reykjavíkur er þessi:

Þegar fjölmenni safnast saman á almannafæri við biðstöðvar almenningsvagna, miðasölur, veitingastaði, verslanir og aðra afgreiðslustaði, skal fólk að jafnaði raða sér þannig að þeir, sem fyrstir koma, fái fyrstir afgreiðslu.

Altsvo: Það er bannað að troðast fram fyrir annað fólk í Reykjavík -að jafnaði.

12.7.08

Grænt hreinol

Brot sem ég sá úr skemmtilegum sjónvarpsþætti um iðnað á Akureyri leiddi til þess að ég valdi mér akureyskan uppþvottalög í Hagkaup. Ekkert Fairy drasl. Grænt hreinol - þetta gamla góða í uppþvottinn. Brúsinn er úr mjúku plasti, rifflaður á þverveginn, þannig að uppvaskarinn nær á honum góðu gripi með sápugum lúkunum. Hann er dásamlega austantjaldslegur í útliti. Það er eitthvað notalegt og öruggt við hallærislegar umbúðir, vekur von að innihaldið sé betra. Svo hríslast um mann nostalgían. Þversagnakennt að ég keypti þetta einmitt útaf umbúðunum.

Annars er þessu lofað um innihaldið: Mildur og drjúgur uppþvottalögur. Notið aðeins nokkra dropa í uppvaskið. (Er hér verið að þéra einn lesanda, eða er verið að ávarpa hóp?) Hentugt fyrir gluggaþvott.

Þar sem ég var komin í nostalgíukast í búðinni þá keypti ég líka drullusokk. Það verður að vera einn slíkur á hverju heimili.

10.7.08

Viðskipti mín við Rússland

Það fyrsta sem ég keypti á netinu fyrir 6 árum eða svo, voru fræ sem ég pantaði af þessari síðu sem kona nokkur í Rússlandi heldur úti. Hún heitir dr. Alexandra Berkutenko. Viðskiptin byggðust á trausti, ég sendi henni tölvupóst og sagði henni hvað ég vildi fá og hún sendi mér umslag með fræjum. Þegar þau voru komin póstaði ég til hennar umsamdan dollarafjölda í reiðufé. Ég sé núna að hún er búin að taka upp evru. Frekar ótæknivætt kerfi hjá frúnni en virkar þó.

Þessi kona safnar fræjum af óteljandi tegundum villtra jurta í austasta hluta Rússlands og Síberíu og sendir þeim sem vilja. Frekar merkileg starfsemi. Hún hefur komið til Íslands og einhverjir Íslendingar hafa heimsótt hana til Rússlands.

Netinnkaup mín jukust uppfrá þessu jafnt og og þétt, með fulltingi íslensku krónunnar, en nú er öldin önnur, hér hefur póstmaður ekki hringt bjöllu mánuðum saman.

Nöfn með rentu

Nina Stork býr til börn gegn vægu gjaldi.
Sigurjón Bláfeld er sérfræðingur í loðdýrarækt.

9.7.08

Stál og hnífur

Þetta hefur mig alltaf langað til að geta:

Að stála hníf þannig að ekki festi auga á.
Að blístra ærandi hátt með því að setja tvo putta í munninn.
Að bakka með kerru.
Að opna gos- eða bjórflösku með annarri.

Einusinni langaði mig til að geta staðið á höndum, en mig dreymir ekki lengur um það.

Ávöxtun

Dráttarvextir í lýðveldinu hafa verið 26,5 af hundraði frá 1. júlí. Verst að enginn er í vanskilum við mig. Í þessari tilkynningu er tekið fram að grunnur dráttarvaxta sé 15,5% og vanefndaálag 11,0%. Næst þegar ég kaupi eitthvað dýrt á fimmþúsundkall, ætla ég að lina þjáningarnar með því að segja sjálfri mér að það kosti þrjúþúsund plús tvöþúsund.

8.7.08

Allur matur á að fara


Í gær tók ég reglulega vel til í ísskápnum. Þetta er rétt er að umorða. Ég flutti þaðan og í tunnuna matvæli sem láðst hafði að snæða, til að rýma fyrir samskonar matvælum, nýkeyptum. Mér leið eins og ég hefði syndgað gegn mannkyni og móður jörð í einni aðgerð. Koltvísýringur, hlýnun jarðar, ofvaxnir ruslahaugar og sveltandi fólk. Ég iðrast og mig langar til að bæta ráð mitt.

Sumir halda því fram að eina leiðin til að hemja sig í kjörbúðum sé að fara ævinlega þangað með innkaupalista og þá helst fyrir vikuna. Trúlega er betra að fara í verslun með lista yfir þann mat sem nýlega hefur verið hent. Nú get ég sett á þann lista pítusósu, samlokubrauð, sólblómabrauð, grænt pestó, kúrbít, lime, skyr, mjólk, léttmjólk, fjörmjólk, soyamjólk og jógúrt.

Eins getur verið gagnlegt að endurskilgreina hugtakið "verð". Taka má dæmi um skinkusneiðar seldar í bréfum. (Hvaðan kemur þetta rugl um skinkubréf? Þau eru plast.) Á skinkuplastið er prentað útsöluverð per kíló en að teknu tilliti til þess að skinkuplöstum er gjarnan hent ásamt seinni helmingnum af skinkusneiðunum, kemur í ljós að kílóverð étinnar skinku er kr. 6.000.
Bretar segjast henda einum þriðja af matnum sem þeir kaupa í tunnuna. Ég hef verið meira á amerísku línunni hingað til en þeir henda helmingnum.

7.7.08

Flagð undir fögru skinni


Mér finnst það næstum alltaf mikil ánægja og heiður þegar blóm sá sér sjálf í garðinn, ég er með fullt af þannig gestum eða hælisleitendum hjá mér, sumt eru viðurkenndar garðjurtir annað má frekar kalla illgresi. Það er engin ástæða til að vera með ofstjórn í garðræktinni, það er sjálfsagt að viðhafa þar ákveðið íbúalýðræði. Þannig verður garðvinnan þægilegust. Stjórnlyndi og forsjárhyggja á illa við í garðrækt eins og þeirri sem ég stunda.

Myndin er af miklu eftirlætisblómi hjá mér, það heitir fingurbjargarblóm og á latínu digitalis purpurea. Digitus mun þýða fingur á latínu. Þetta er frábærlega falleg tvíær jurt sem blómstrar á seinna árinu. Viðheldur sér og gott betur en það með sáningu án þess að ég þurfi mikið að skipta mér af því. Þó hún sé há í loftinu, þarf ekki að binda hana upp hér í logninu í Vogahverfi. Sem er ágætt því mér leiðist að binda prik við garðplöntur, þær sem ekki hanga uppi að eigin rammleik verða bara að liggja. Ég fékk eina eða tvær smáplöntur hjá nágrannakonu minni fyrir nokkrum árum og síðan hefur þessi planta unnið að því að leggja minn garð undir sig og ég kvarta ekki. Býflugur eru afar hrifnar af þessari plöntu, eins er um Breta, þeir kalla hana foxglove.

En enginn er algóður. Plantan er baneitruð, úr henni hefur verið unnið hjartalyfið digitalis í 200 ár eða svo. Ég man eftir að hafa sé eina breska morðgátumynd, með Barnaby eða einhverjum svipuðum starfsbróður hans, þar sem í ljós kom að kerlingarflagð eitt hafði byrlað mönnum eitur sem hún bruggaði úr fingurbjargarblómi sem óx í hennar skrúðgarði og það fór ekki framhjá hinum glögga verði réttvísinnar.

Fingurbjargarblómin mín munu í haust framleiða ókjörin öll af fræi, sem velkomið er að sníkja af mér.

6.7.08

Eyrún með svörtu eyrun


Íslenski hesturinn er þrautseig skepna og hann er merkilega léttur, að meðaltali aðeins 400 kíló að þyngd. Það þýðir að ef knapi og hnakkur eru samtals 100 kíló, og þeir eru örugglega margir þyngri, nemur það 1/4 af þyngd hestsins. Ég myndi ekki vilja hlaupa með [...] kíló á bakinu. Auðvitað segi ég ekki hve mörg kíló ég myndi ekki vilja hlaupa með.

Það er liðin tíð að hestar hétu Faxi, Skjóni, Þokki, svona hefðbundnum sveitalegum hestanöfnum. Nú heita þeir smart nöfnum: Aladín, Helmingur, Dósent, Gídeon, Tíska, Dýnus, Firra, Rólex, Losti (ekki stóðhestur), Ískristall, Tývar. Það virðist engin hestanafnanefnd starfandi. Rannsóknarefni hvort sambærileg þróun hafi orðið á hestanöfnum og mannanöfnum.

Vinsælt er að gefa hrossunum mannsnafn, myndin er af henni Eyrúnu frá Velli. Svona lit hef ég aldrei séð, ætli megi segja að hún sé svarteyrð. Mér finnst ekkert fyndið að kalla hana Eyrúnu.

5.7.08

Við freistingum gæt þín og falli þig ver

Ungbarn mér nákomið verður skírt til kristinnar trúar núna á eftir og ég fékk það verkefni að sækja skírnarkökuna í bakaríið og á að taka hana með mér austur fyrir fjall. Er kakan nú í minni vörslu. Hún er í ógegnsæjum kassa sem er límdur aftur með límbandi, ekki mjög tryggilega. Stúlkubarnið í bakaríinu, eiginlega nýskírð sjálf, áminnti mig mildilega um að ég mætti ekki kíkja í kassann og sjá nafnið. Sá sem bað mig fyrir kökuna hafði hinsvegar sagt mér að nafnið væri ekki á kökunni, það var semsagt skrök og skortir greinilega á að viðkomandi treysti minni sjálfsstjórn. Reynir nú á.

Stúlkan óskaði mér til hamingju með barnabarnið um leið og ég fór út.

4.7.08

Gegnum holt og hæðir

Þegar ég var á beinum kafla á leiðinni í vinnuna í morgun notaði ég tækifærið og speglaði mig aðeins í baksýnisspeglinum til að athuga hvort ásjónan þyldi örugglega dagsins ljós. Þá sá ég merkilega skýrt tvö auka augu í enninu á mér, nánar tiltekið í toppnum. Þarfnast nánari skoðunar.

3.7.08

Réttarríkið Ísland

Á vef Alþingis segir að þar sé að finna "Íslensk lög 1. janúar 2008". Ekki er fjölyrt um að hinir ýmsu alþjóðlegu samningar gildi hér á sama hátt og heimatilbúin lög frá Alþingi. Með öðrum orðum, sá sem fer á vef löggjafarsamkundunnar í leit að gildandi rétti á Íslandi, kemst ekki í mark. Hægt væri að tala um för í geitarhús að leita ullar en mér er of vel við geitur til að orða það svo.

Mál Kenýamannsins Paul Rames vakti athygli mína. Í þeim fréttum sem ég las um málið er gjarnan talað um "Dyflinarsamninginn" með ákveðnum greini, svona til að segja lesandanum að ef hann kannast ekki við samninginn þá sé hann vitlaus. Hvergi fylgdi linkur á þennan merka samning sem þó virðist hafa ráðið örlögum mannsins.

Ég ákvað að leita uppi þessa réttarheimild. Það gat ekki orðið stórt verkefni fyrir lögfræðinginn. Ekki reyndist "Dyflinarsamningurinn" vera á vef Útlendingastofnunar undir "lög og reglur" og leit á vef Alþingis skilaði þeirri skemmtilegu athugasemd "get ekki beygt Dyflinarsamningurinn". Ekki gekk mér að leita á vef utanríkisráðuneytisins þó þar sé glæsilegt "EES vefsetur". Ég fann loks gamlar ársskýrslur á vef Útlendingastofnunar, þar kom fram á blaðsíðu 9 í ársskýrslu 2003 að þessi samningur heitir núna "Dyflinarreglugerðin", alltaf með ákveðnum greini eins og verið sé að tala um eitthvað jafnkunnuglegt og barnalögin. Þar fannst líka númer á reglugerðinni, það er 343/2003. Eftir að hafa notað þessa nýju vitneskju á Google fann ég 16 síðna grein sem sögð var eftir Björn Bjarnason og þar í neðanmálsgrein númer 23 var að finna þær dýrmætu upplýsingar að samningurinn hafi verið birtur í c-deild Stjórnartíðinda 30. maí 2003. Útilegumaður fundinn.

Reyndar stóð einnig í sömu neðanmálsgrein að samningurinn hafi verið birtur sem fylgiskjal með frumvarpi til laga um útlendinga, þannig að hann ætti að vera á vef Alþingis, ég leitaði því betur þar. Í ljós hafði komið hjá Birni að "Dyflinar" átti að vera "Dyflinnar" með tveimur ennum og ef tvö enn eru viðhöfð á leitarvél Alþingis þá kemur upp þessi ágæta fyrirspurn Marðar Árnasonar og fróðlegt svar Björns Bjarnasonar við henni, einmitt fínt innlegg í umræðu um mál hælisleitandans. Þarna kemur fram að ekki færri en 73 hælisleitendur voru, á árunum 2003-2007, í samræmi við títtnefndan samning/reglugerð, sendir frá Íslandi til annars aðildarríkis samkomulagsins. Markmið þess er reyndar svo fallega orðað að maður kemst við: "Sameiginleg stefna varðandi hælisveitingar, þ.m.t. samevrópskt hælisveitingakerfi, er þáttur í því markmiði Evrópusambandsins að koma smám saman á fót svæði þar sem ríkir frelsi, öryggi og réttlæti, er sé opið þeim sem, sakir sérstakra aðstæðna, leita verndar innan bandalagsins á löglegan hátt."

Stórmerkilegt var að þegar samningurinn eða reglugerðin loks var fundin í C-deildinni, þá hét hann alls ekki Dyflinnarsamningurinn, heldur "auglýsing um gerð sem felur í sér breytingu á samningi sem ráð Evrópusambandsins og Ísland og Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna." Auðvitað.

2.7.08

Alltaf tvö enn

Ég komst að því nýlega að 17 ára ungmenni mér nákomið hafði aldrei heyrt orðaröðina: vömb, keppur, laki, vinstur. Þó er hann útskrifaður með sóma úr grunnskóla reknum af íslenska lýðveldinu. Hafði þó einhvern pata af því að beljurnar "ældu". Ja hérna, hverskonar menntun er þetta eiginlega í þessum skólum nú til dags. Ég setti á langa tölu um hina stórmerku meltingu jórturdýra.

Svona runur límdust fastar í hausnum á manni í barnaskóla og haggast ekki: Dýrunn, Iðunn, Ingunn, Jórunn, Ljótunn, Steinunn, Sæunn, Þórunn.

Undir sólinni

Vart finnst skelfilegri leirburður en Undir dalanna sól, nema ef vera skyldi Undir bláhimni. Sjaldan byrjar góður texti á undir.

1.7.08

Mýs og menn


Í mínu tveggja íbúða fjöleignahúsi er sambýli fjögurra tegunda spendýra, homo sapiens sapiens, felis silvetris catus, canis lupus familiaris og mus musculus. Stofnstærð síðastnefndu tegundarinnar er þó óþekkt. Sambúð þessi er ákveðið afbrigði fjölmenningarsamfélags þar sem tegundirnar hafa allar nokkuð til síns ágætis og auðga líf hverrar annarrar, með einni undantekningu þó.
Mikið öfugmæli er að tala um músarhjarta. Það þarf mikið hugrekki hjá mús til hreiðra um sig undir tröppunum í húsi þar sem búa tveir kettir. Reyndar er líf músa einn samfelldur lífsháski. Kettirnir eru þaulsætnir við holumunnann og erfiður dauði bíður þeirrar músar sem hættir sér út.
Ólíkt er öruggara að vera mannskepna hér í húsinu, svo öruggt að lafhægt er að komast í gegnum það líf án hugrekkis.

Mér tæmist arfur

Ég fékk í dag hjartnæman tölvupóst frá konu sem kvaðst vera haldin banvænum sjúkdómi sem myndi vísast draga hana til dauða á fáum vikum. Hún hafði ekki alls fyrir löngu misst elskulegan eiginmann sinn þannig þarna var skammt stórra högga á milli hjá manninum með ljáinn, enda hafði konan mjög snúið sér til Drottins allsherjar sér til styrkingar á erfiðum tímum. Erindi hennar við mig var þó á veraldlegum nótum, hún hafði kosið að arfleiða mig að umtalsverðum auðæfum sínum, nánar tiltekið 3,5 milljónum dollara. Konan kvaðst treysta mér til að nýta féð til góðra verka, þurfandi smælingjum til hjálpar, ekki síst ekkjum og munaðarleysingjum og óskaði mér margfaldrar guðsblessunar í starfi jafnt sem einkalífi. Hennar auðmjúk ósk var að ég hefði samband við lögmann hennar, einn æruverðugan Pedro Antonio í Madrid til að mál þetta mætti hafa framgang.

Það var skemmtilegt að finna hve tilfinningin af lestri þessa fallega bréfs var jákvæð, þó ég vissi svosem að markmiðið væri að ég yrði viðskila við mína fjármuni. Svona er maður auðtældur. Falleg orð hafa góð áhrif þó ósönn séu. Það mun vísindalega sannað að það hefur jákvæð áhrif á andlega líðan að færa munnvikin uppá við jafnvel þó það sé gert algerlega að tilefnislausu.