Samtölum vindur hægt fram í jólakortum. Ef ég er ávörpuð árið 2007 þá svara ég árið 2008. Ef ég ávarpa einhvern í tvö ár í röð án þess að svar berist næsta ár á eftir, þá lít ég svo á að mér hafi verið dömpað og frekari jólakortasendinga minna sé ekki óskað. Ég lít þannig á að fólk geti gert þau mistök ein jól að gleyma að senda mér jólakort, eða jafnvel að jólakortið hafi týnst í pósti, en tvö jól í röð - þá er um ásetningsbrot að ræða.
Það var alltaf mjög spennandi þegar upp úr umslagi kom jólakort og ekki var hægt að átta sig á hver hafði sent. (Þekkir þú einhvern Grím? Getur þetta verið maðurinn hennar Hrefnu?) Ég hef ákveðið að bjóða tíu ókunnum fjölskyldum, völdum með handvirkri slembiaðferð, upp á slíka skemmtun í ár. Ætli bannmerking í símaskrá taki til jólakorta?
Þegar stóð í jólakortum frá fólki í þéttbýli t.d fjölskyldan Álfheimum 27 þá vissi ég aldrei hverjir sendendur voru. Bæjarnafn gat aldrei valdið misskilningi. Ef fólk bjó í borginni fannst mér viðeigandi að það skrifaði nöfnin sín undir.
2.12.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment