2.11.08

Sendiferðir

Ég er alltaf aðeins smeyk við að fara með hendurnar blindandi ofaní kartöflupokann minn hér útí geymslu. Engu breytir þó það séu áratugir síðan kartöflumamma varð síðast á vegi mínum.

Eitt af þvi sem maður varð að gera reglulega var að sækja kartöflur í kjallarann í gamla bænum. Þar var margt sem vakti ótta, verst var myrkrið. Kartöflurnar þurftu endilega að vera innst í kjallaranum. Það versta sem fyrir gat komið var að putti lenti á kaf í kartöflumömmu sem leyndist í kartöflupokanum, sá hryllingur gleymist aldrei.

Lyktin í kjallaranum var köld, aðeins rök og mygluð moldarlykt. Alltaf eins. Síðasta vor var ég á ferð í Frakklandi og kom þar í vínkjallara, mörg hundruð ára gamlan. Þar var nákvæmlega sama lyktin.

No comments: