26.8.08

Meindýramosi

Það er margt sem ég skil ekki. Eitt af því sem ég skil minnst er einhver eilífðarinnar krossferð gegn mosa í grasflötum. Hver hefur eiginlega komið því inn hjá fólki að ekki megi vera mosi í grasinu? Er þetta sama fólkið og vill endilega hafa tré bein? Mér finnst mosi eitt það besta sem vex í garðinum, hann er mjúkur, litsterkur og það er ekkert fallegra en mosaklæddir steinar og tré. Mosi hefur róandi nærveru.

Ef það er raki og skuggi í garðinum, þá mun þar vaxa mosi, skiptir engu hvað menn djöflast með mosatætara eða mosaeyði. Ég sá um daginn mosa kallaðan vágest á vefsíðu verslunar með garðvörur. Greinilega mikil ógn við tilveru garðeigenda. Þessi síða er óborganleg. Meindýravarnir Suðurlands hafa látið mál þetta til sína taka með afgerandi hætti og ætla greinilega ekki að láta mosann leggja undir sig héraðið. Mosi er orðinn meindýr:
Mosi er helsti óvinurinn í heimagörðum.
Hægt er að leigja mosatætara ef bletturinn sé að breytast í mosateppi.
Gangi ykkur vel að berjast við mosann.
Japanir hafa heilbrigða afstöðu til mosa. Þeir rækta mosa af mikilli natni í sínum görðum. Ég heyrði í fyrra sanna sögu af japönskum manni sem tafðist mjög á leið sinni frá Reykjavík til Arnarfjarðar, hann sá svo mikið af ómótstæðilegum mosaþembum á leiðinni. Hann gat ekki keyrt framhjá þeim án þess að stoppa og klappa mosanum.

Víða má finna leiðbeiningar um hvernig á að greiða fyrir mosavexti í garðinum. Það er gert með því að búa til graut í blandaranum úr tættum mosa og fleiru, grauturinn er síðan borinn á þann flöt sem óskað er eftir að mosavaxi. Hér er mælt með blöndu af leir, vatni, fiskiáburði og tættum mosa. Önnur uppskrift inniheldur bjór, sykur og mosa. Aðrir telja súrmjólk eða jógúrt skila betri árangri. Þetta er mikil gullgerðarlist.

No comments: