30.11.08

Um útsendingu jólakorta

Alltaf finnst mér íþyngjandi þegar fólk talar mikið og lengi um að það sé búið að skrifa jólakortin í nóvember og kaupa jólagjafirnar í október.

Ég ráðgeri að halda í þá hefð að senda jólakortin af stað á síðasta auglýstum "kemst til skila fyrir jól degi" póstsins, nákvæmlega fimm mínútum fyrir lokun þann dag.

Það er mikilvægt sparnaðarráð að senda heimalöguð jólakort. Það virðist ríkja almennur skilningur á að slík jólakort þurfi ekki að vera sérlega falleg. Hægt er að ná fram enn meiri sparnaði með því að búa sjálfur til frímerki á umslögin.

Í minni gömlu heimasveit eru innanhreppsjólakort sett í skókassa á afgreiðsluborðinu í búðinni. Svo tekur fólk einfaldlega sín kort úr kassanum. Þannig komast öll jólakort í sveitarfélaginu ókeypis til skila. Allir eiga erindi í búðina og kerfið virkar fullkomlega. Fyrir utan sparnaðinn þá er miklu fljótlegra að skrifa utan á umslögin, nægilegt að skrifa bæjarnafnið. Þarna hefur pósturinn orðið af miklum tekjum í gegnum tíðina.

No comments: