30.12.08

Sniðganga

Það er útilokað búa til svo gott regluverk að ekki finnist á því glufur til misnotkunar.

Ég hef haldið því fram að sú óskrifaða regla gildi hjá Íslendingum að sá sem sendir ekki jólakort tvö ár í röð vilji ekki lengur jólakortast við mann. Sú regla leiðir til þess að óforskammaðar fjölskyldur geta leikið þann leik að senda aðeins út jólakort annað hvert ár, en engu að síður fengið send jólakort á hverju ári eins og ekkert hafi í skorist.

29.12.08

Enn af kjöti

Ég minni á að frestur til að kjósa sér (mér) hrossaket hér til vinstri rennur út jafnhratt og árið 2008. Ráðgert er að hafa sigurkjötið í matinn hér á heimilinu fljótlega í janúarmánuði 2009.

Gullfallegt

Óneitanlega er hún erfið, samkeppnisstaða þeirra sem selja flugelda, en geta ekki státað af því að nota hagnaðinn til að leita að týndu fólki. Þeir sem eru í flugeldasölu af hefðbundinni hagnaðarvon, verða að höfða til væntanlegra viðskiptavina með öðrum hætti en neyðarkallarnir.

Þessi klausa, sem myndi gera sig vel á útifundi, er í auglýsingablöðungi Gullborgar (sem selt hefur flugelda í 30 ár). Hér er ávörpuð hin niðurlægða þjóð og hún eggjuð til að sýna hvað í henni býr. Það verður best gert með ósvikinni flugeldasýningu á gamlárskvöld.
Látum ekki stela líka af okkur áramótunum. Ekki eyða gamlárskvöldi í sjónvarp eða útvarp. Skaupið verður endurtekið og látum ekki apa og svín bulla í okkur meira, hættum að vera heilalausar strengjabrúður.

25.12.08

Af kjöti

Ég lenti í því að halda fram gegn ofurefli fjöldans að bógur, nánar tiltekið grísabógur, væri framantil af skepnunni, herðarnar. Viðmælendur mínir töldu að bógurinn væri tilsvarandi lend á manni. Þegar kröftuglega er efast um það sem maður segir, fer stundum svo að maður efast að lokum sjálfur. Það gerðist þó ekki í þetta sinn. Ég minnist þess að hafa heyrt ungmenni mér nákomið kalla þetta stykki framlæri.

Af þessu tilefni rann upp fyrir mér að orðið lambalæri er ekki eins gegnsætt og ætla mætti í fyrstu. Bróðurparturinn af lambalæri er í raun rassinn á skepnunni. Lambsrass. Segja má að orðið lambalæri flokkist undir skrauthvörf.

22.12.08

Flagg-girlander og jólareglur

Tré hinna tveggja toppa hefur nú verið skreytt og lýst. Stjarnan er á hærri toppnum, enda er hann sýnu beinni. Árhringjatalning leiddi í ljós að tréð var 15 ára gamalt þegar það féll fyrir minni hendi.

Eitt mátti ekki vanta á jólatréð í ár, litla íslenska fána á bandi. Ég keypti fánalengjurnar í Litlu jólabúðinni, neðarlega á Laugaveginum. Það stendur aðeins í mér að fánarnir virðast vera innfluttir. Mér finnst samt að svona fánar ættu að vera til sölu við hvern einasta búðarkassa í lýðveldinu.

Það fylgir jólunum mikið tal um jólahefðir. Ég tel mikilvægi þeirra gróflega ofmetið og raunar held ég að fólk ætti að gera meira af því að brjótast undan þeim og gera eitthvað nýtt á jólunum, jafnvel þó það hafi aldrei verið gert áður. Það eiga ekki öll jól að vera eins.

Sömuleiðis er mér uppsigað við þá kenningu að jólin séu hátíð barnanna.

21.12.08

Jólaandi

Sem oftar náði ég í jólatréð í hlíðar Úlfarsfells, til Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Maðurinn sagði mér að því lengra sem maður gengi eftir stígnum, þeim mun fallegri yrðu trén. Við gengum lengi, lengi en samt varð fyrir valinu grenitré með tveimur topppum. Sennilega hefur aumingjagæska mín aldrei náð meiri hæðum.

18.12.08

Einkennisbúningar

Þegar ég starfaði á Hótel Flúðum á áttunda áratug síðustu aldar, voru sólgulir hnésokkar hluti af einkennisbúningi framreiðslustúlkna.

Búningurinn var stutterma kjóll úr flöskugrænu hnausþykku terlíni með gulum stórum kraga og gulum uppslögum á ermum. Kjóllinn náði niður undir hné og var renndur að framan, þannig að fljótlegt var að vippa sér í hann. Það var álitamál hvað átti að renna hátt upp. Svuntan var gul og hnýtt með slaufu að aftan. Nálægt kanti á svuntu, kraga og ermauppslögum var grænn skrautsaumur, saumaður í einni þessara saumavéla sem geta saumað allt sem hægt er að láta sér detta í hug.

Það var töluvert fyrir því haft að finna gula hnésokka sem pössuðu við kjólinn, ég geri ráð fyrir að það væri heldur auðveldara nú. Tréklossar voru vinsælasti fótabúnaðurinn.

Þessi einkennisbúningur var notaður eftir hádegið, í hádeginu vorum framreiðslustúlkur í upphlut.

Þrátt fyrir að kjóllinn væri óhemjuslitsterkur og hefði vísast þolað margra ára samfellda notkun, var honm lagt og saumaður nýr og nútímalegri kjóll á framreiðslustúlkurnar. Sá var næstum því eins, nema hann var brúnn og beige, úr þynnra efni. Þótti það mikið framfaraskref.

15.12.08

Gjafir

Er það mikið afrek að finna jólagjöf á minna en kr. 5.000? Ég myndi kíkja á síðuna ef hún héti undir2000.is. Jólagjafirnar í ár mega ekki fara upp fyrir þá tölu og eiga helst að vera þar vel undir. Það er meira fyrir því haft að gefa ódýrar jólagjafir heldur en dýrar.

Glereggið sem Ólafur Ragnar Grímsson gaf Hillary Clinton er metið á 300 dollara í skrám yfir mótteknar gjafir árið 1999. Ætli hefði ekki verið jafngott að gefa henni ullarsokka. Ég verð að játa að ég hef ákveðinn skilning á þeirri ráðstöfun að selja eggið á Ebay. Þetta er ein af þeim gjöfum sem er bara stillt upp í stofuglugganum þegar gefandinn kemur í heimsókn.

Í nefndri skrá kemur fram að Írar gáfu Clinton 15 tommu háa postulínsstyttu af kvendansara með dökkt sítt hár, klædd hvítu tjullpilsi, hún stendur á kletti og er umkringd lundum. Moldóvar gáfu þeim myndarlegt landslagsmálverk í gylltum ramma sem sýnir geitahirði með hjörð sína að haustlagi.

Ég sé fyrir mér gríðarmiklar skemmur Hvíta hússins, með hillurekkum uppúr og niðrúr, sem svigna undir gagnslausum gjöfum af þessu tagi.

14.12.08

Friedman

Ég hef komið í hús í Reykjavík þar sem býr Friedman fjölskyldan samkvæmt bjöllu. Það er algengara á Íslandi en ætla mætti í fyrstu.

12.12.08

Gosórói

Þegar ég fer myndavélarlaus austur fyrir fjall þá verð ég aðeins óróleg yfir því þegar ég er komin austur fyrir Selfoss. Það væri hreint til skammar að horfa á Heklu byrja að gjósa og hafa gleymt myndavélinni heima.

11.12.08

Léttara líf

Á einhvern undraverðan hátt hefur mér tekist að lifa heilt góðæri, almennt neyslufyllerí, dæmalausa kaupmáttaraukningu og stórfenglegan viðskiptahalla við útlönd án þess að eignast uppþvottavél. Mig langar í uppþvottavél. Þó heimilið telji aðeins tvær sálir þá held ég að slíkt tæki væri til góðs og gæti sparað ágreiningsmál. Fólk sem á uppþvottavélar virðist hafa mikið dálæti á þeim og verður tíðrætt um ágæti þeirra. Ég vil komast í þann hóp.

8.12.08

Afstæðiskenning

Þegar bensín kostar 130 en kostaði áður 132, þá er það ódýrt. Ef bensín kostar 130 en kostaði áður 128 þá er það dýrt.

Sambærilegt lögmál er í gildi um líkamsþyngd.

7.12.08

Maður segir sögu

Þeir sem eiga eftir að fara á Mr. Skallagrímsson þurfa að drífa sig. Þarna var sögð saga af mikilli íþrótt, enn ein sönnun fyrir mætti hins talaða orðs. Fyrir dómstólunum heitir þetta milliliðalaus málflutningur. Ég spái því að það verði eftirspurn eftir því að Benedikt Erlingsson segi þessa sögu, á meðan hann lifir.

Egils sögu er upplagt að lesa hér.

4.12.08

Yfirdrif

Kona utan af landi var farþegi í bifreið minni nýlega. Þar sem við ókum undir Ingólfsfjalli, framhjá litla kofanum sem stendur innan um stóru björgin, veitti hún athygli litlu ljósi sem logaði í mælaborðinu. Þetta var mjög lítið ljós, eiginlega var þetta óljós. Skilaboðin voru: o/d off. Hnappur fannst eftir stutta leit í bifreiðinni. Við að þrýsta á hann slokknaði á ljósinu, bifreiðin skipti um gír (bifreiðin hefur þá náttúru að skipta um gír óumbeðin) og snúningshraðamælirinn datt umsvifalaust niður. Að sögn farþegans var hér um að ræða svokallað "overdrive". Ég reyndi að lesa mér til um yfirdrifið á wikipedia og sá að það skiptir þónokkru máli hvort það er on eða off. Af þessu má læra að ástæða er að veita fulla athygli logandi ljósum í mælaborði.

3.12.08

Svartar fjaðrir - part two

Dökkt bremsufar hefur myndast í nærbrók Hómers ástargauks. Niðurlægjandi sönnun þess að hann át augnabrúnalitinn, lét sér ekki nægja að smyrja hálsfjaðrirnar.

2.12.08

Jólaspam

Samtölum vindur hægt fram í jólakortum. Ef ég er ávörpuð árið 2007 þá svara ég árið 2008. Ef ég ávarpa einhvern í tvö ár í röð án þess að svar berist næsta ár á eftir, þá lít ég svo á að mér hafi verið dömpað og frekari jólakortasendinga minna sé ekki óskað. Ég lít þannig á að fólk geti gert þau mistök ein jól að gleyma að senda mér jólakort, eða jafnvel að jólakortið hafi týnst í pósti, en tvö jól í röð - þá er um ásetningsbrot að ræða.

Það var alltaf mjög spennandi þegar upp úr umslagi kom jólakort og ekki var hægt að átta sig á hver hafði sent. (Þekkir þú einhvern Grím? Getur þetta verið maðurinn hennar Hrefnu?) Ég hef ákveðið að bjóða tíu ókunnum fjölskyldum, völdum með handvirkri slembiaðferð, upp á slíka skemmtun í ár. Ætli bannmerking í símaskrá taki til jólakorta?

Þegar stóð í jólakortum frá fólki í þéttbýli t.d fjölskyldan Álfheimum 27 þá vissi ég aldrei hverjir sendendur voru. Bæjarnafn gat aldrei valdið misskilningi. Ef fólk bjó í borginni fannst mér viðeigandi að það skrifaði nöfnin sín undir.