22.12.08

Flagg-girlander og jólareglur

Tré hinna tveggja toppa hefur nú verið skreytt og lýst. Stjarnan er á hærri toppnum, enda er hann sýnu beinni. Árhringjatalning leiddi í ljós að tréð var 15 ára gamalt þegar það féll fyrir minni hendi.

Eitt mátti ekki vanta á jólatréð í ár, litla íslenska fána á bandi. Ég keypti fánalengjurnar í Litlu jólabúðinni, neðarlega á Laugaveginum. Það stendur aðeins í mér að fánarnir virðast vera innfluttir. Mér finnst samt að svona fánar ættu að vera til sölu við hvern einasta búðarkassa í lýðveldinu.

Það fylgir jólunum mikið tal um jólahefðir. Ég tel mikilvægi þeirra gróflega ofmetið og raunar held ég að fólk ætti að gera meira af því að brjótast undan þeim og gera eitthvað nýtt á jólunum, jafnvel þó það hafi aldrei verið gert áður. Það eiga ekki öll jól að vera eins.

Sömuleiðis er mér uppsigað við þá kenningu að jólin séu hátíð barnanna.

3 comments:

Anonymous said...

Ég saknaði nú aðallega sauðanna þegar ég eyddi mínum fyrstu jólum á sléttum Kanada. Að ganga um með kumrandi hrút í bandi er sem sagt ákaflega jólalegt í mínum huga. En maður er svo sem farinn að venjast af þessu.
Gleðilega jólahátíð smérpinkill minn.

Anonymous said...

Systur smjerpinkils langar til að vita hvort þetta var hinsta ganga hrútsins, sbr. orðalagið "að leiða til slátrunar"?

Anonymous said...

Það fór nú eftir því hvernig þetta gekk hjá hrútnum hvort þetta urðu hans hinstu jól í bransanum.
Sumum hafði orðið það á að safna holdum og áttu í nokkrum erfiðleikum á jafnsléttu en gekk oft betur ef boðið var upp á stökkpall nokkurn eða ánni komið fyrir með afturfæturnar í grunnri holu.
Annars voru lambhrútarnir langhressastir og það voru oftast þeir sem notaðir voru til að finna þær ær sem tilkippilegar væru í það skiptið. Síðan fór það eftir ættgöfgi og vöðvagerð hver hinna fengi að spreyta sig. Hroðaleg spæling náttúrulega fyrir þá ungu þegar einhver eldri og silalegur fær dömuna sem þeir voru búnir að hafa fyrir því að þefa uppi.