19.11.08

Minning um hrylling

Ég er með aldrinum orðin mjög dugleg að horfa á ógeðslegar bíómyndir. Bregð mér hvorki við sár né bana söguhetjanna. Það var ekki alltaf svo. Þegar ég var yngri var gert grín að mér þegar ég hélt fyrir augu og eyru heilu kvikmyndirnar sem ég hafði þó borgað mig inn á fullu verði. Sérstaklega fannst mér ógeðslegt þegar var verið að pína fólk viljandi.

Þegar ég fór í fyrsta sinn á bíómynd í Flúðabíói sem var bönnuð innan 16 ára þá gekk ég út af henni. Sjálfsagt hef ég verið eitthvað yngri en 16. Ég man vel hvað var svona hræðilegt. Maður og kona voru um borð í bát, þau voru bundin við eitthvað tréverk og að þeim steðjaði mikil ógn. Lítil vélmenni sem litu út eins og dúkkur, gengu skrykkjóttum skrefum í áttina til þeirra og gerðu sig líkleg til að éta þau lifandi. Þessar mannætumorðdúkkur voru með hákarlstennur úr glampandi stáli og skelltu þeim saman ótt og títt. Ég gat ekki hugsað mér að horfa á þetta fólk étið lifandi svo þjáningafullt sem það hlaut að verða, þannig að ég ákvað að forða mér og sagðist þurfa að pissa. Ekki veit ég hvaða kvikmynd þetta var.

Flúðabíó var landsbyggðarbíó sem sýndi heimsfrægar stórmyndir í Félagsheimili Hrunamanna einu sinni í viku, á fimmtudögum, sjónvarpslausum dögum.

No comments: