18.12.08

Einkennisbúningar

Þegar ég starfaði á Hótel Flúðum á áttunda áratug síðustu aldar, voru sólgulir hnésokkar hluti af einkennisbúningi framreiðslustúlkna.

Búningurinn var stutterma kjóll úr flöskugrænu hnausþykku terlíni með gulum stórum kraga og gulum uppslögum á ermum. Kjóllinn náði niður undir hné og var renndur að framan, þannig að fljótlegt var að vippa sér í hann. Það var álitamál hvað átti að renna hátt upp. Svuntan var gul og hnýtt með slaufu að aftan. Nálægt kanti á svuntu, kraga og ermauppslögum var grænn skrautsaumur, saumaður í einni þessara saumavéla sem geta saumað allt sem hægt er að láta sér detta í hug.

Það var töluvert fyrir því haft að finna gula hnésokka sem pössuðu við kjólinn, ég geri ráð fyrir að það væri heldur auðveldara nú. Tréklossar voru vinsælasti fótabúnaðurinn.

Þessi einkennisbúningur var notaður eftir hádegið, í hádeginu vorum framreiðslustúlkur í upphlut.

Þrátt fyrir að kjóllinn væri óhemjuslitsterkur og hefði vísast þolað margra ára samfellda notkun, var honm lagt og saumaður nýr og nútímalegri kjóll á framreiðslustúlkurnar. Sá var næstum því eins, nema hann var brúnn og beige, úr þynnra efni. Þótti það mikið framfaraskref.

2 comments:

Anonymous said...

Þessi ágæti búningur hafði líka þann kost, ef ég man rétt, að ekki var þörf á herðatré. Hann stóð sjálfur.
Litla systir.

Rúna said...

Það er hárrétt munað og takk fyrir það. Það var eitthvað austantjaldslegt við þennan búning, fremur en austanfjalls.