29.10.08

Ó Færeyjar

Eins og kennt var í barnaskóla er Slættaratindur hæsta fjall Færeyja, 882 m hátt. Númerið á Landrovernum hans pabba er einmitt x882 þannig að þetta er auðvelt að muna. Mig grunar að Slættaratindur sé fallinn út af námsskrá lýðveldisins.

Dimmalætting segir lán Færeyinga til okkar "øgilig upphædd men ein dropi í havinum". Teldupóstur með þakkarávörpum hefur streymt frá Íslendingum inn á ritstjórnina. Fram til þessa höfum við talið okkur þess umkomin að hlæja á kostnað Færeyinga, þessara sannkristnu, hómófóbísku, skerpukjötsétandi sveitamanna sem eyddu peningum sem ekki voru til í vegi og jarðgöng.

Tvisvar hef ég heimsótt Færeyjar, seinna skiptinu man ég vel eftir. Mér fannst merkilegt að vegirnir voru ekki eins og frá er greint í íslenskum tröllasögum þó vissulega væru þeir allir með bundnu slitlagi. Þeir voru mjóir, oft ein akrein og Færeyingar óku lúshægt. Með naumindum var hægt að smeygja sér í gegnum jarðgöngin sem virtust ekki samkvæmt íslenskum stöðlum. Færeyingum er ekki sýnt um flottheit á sama hátt og okkur mörlöndum. Jeppar voru fáir og húsin lítil, það átti líka við um nýju húsin. Rollur Færeyinga eru sennilega jafnmargar þeim sjálfum. Þó eiga þeir hvorki fjárhús né sláturhús. Engin fljót finnast í Færeyjum, bara lækir.

Sendið Dimmalætting þakkarbréf: redaktion@dimma.fo

No comments: