5.9.08

Drápssniglarnir koma

Mér er sem garðeiganda alveg sérlega uppsigað við Spánarsnigla, eins og áður hefur komið fram. Þau válegu tíðindi eru í Fréttablaðinu í dag að þeir séu orðnir útbreiddir um allt landið og miðin. Hinn vaski skordýrafræðingur Erling Ólafsson mælir með því að sniglarnir séu handsamaðir hvar sem þeir hittast fyrir og framseldir Náttúrufræðistofnun Íslands. Sé framsal umhendis, skulu þeir teknir af lífi án dóms og laga.

Ég geri ráð fyrir að sniglanna bíði herfileg örlög í höndum Erlings og félaga hans á Náttúrufræðistofnun þó vart í líkingu við það sem lýst er hér í hrollvekjandi spjallþræði, sem glöggur lesandi sendi mér um daginn og ég tel rétt að vekja athygli á. Þetta eru leiðbeiningar óbreyttra garðeigenda í Danmörku um hvernig best sé að kvelja tóruna úr Spánarsniglum. Danir hafa reyndar gefið þeim gildishlaðið heiti, dræbersnegle, á sínu gullfallega tungumáli.

Sniglarnir virðast Dönum mjög hugleiknir og fjölmörg þarlend vefsetur (snegleblogs) eru alfarið helguð baráttunni gegn þeim. Hér er eitt slíkt, þar er mikið snegleinfo, og fjallað um sneglefjendsk havedesign, sneglesikre planter, aktiv dødshjelp (með mynd) og passiv dødshjelp. Einnig er boðið upp á smellinn netleik þar sem tækifæri gefst til að drepa Spánarsnigla online.

No comments: