20.5.09

Íðorð

Ég fékk áðan þær afleitu fréttir að bifreið mín væri haldin stimplaglamri. Bifvélavirkinn var mjög alvarlegur á svipinn þegar hann talaði um það. Þegar heim var komið ákvað ég að gúgla. Stimplaglamur skilaði aðeins tveimur niðurstöðum, þannig að þetta er varla algengt ástand.

Á öðrum staðnum lenti ég inn á áhugaverðum spjallþræði:

-Ég er að fara að taka upp gamlan 350 chevy mótor og langaði að athuga hvort menn gætu ekki bent mér á eitthvað almennilegt setup. Það sem ég get verslað hér á klakanum mun ég versla hér, en annað mun ég panta að utan. Markmiðið er að komast hátt í 300 hrossin og jafnvel eitthvað yfir.

-Ef þú ert með original vél með lélegum heddum, úrbrædda og dasaða þá myndi ég allavega skoða að kaupa þetta tilbúið að utan frekar en að gera þetta upp hérna heima þegar NÝ 330 hp vél kostar frá 2400 $ á Summit.

-Þetta veltur allt á því hvernig vélin er á sig komin ef það þarf að bora blokkina renna sveifarásinn ofl þá er það svo fjandi dýrt en samt 2400$ mótor hjá summit fer vel yfir 300þús kr hingað kominn svo það má nú eyða aðeins í þetta.Þú getur væntanlega sloppið með borðaða blokk,rendann sveifarás og nýjar ventlastýringar fyrir um 100þús kr.

-Er ekki málið að fá sér þrykkta stimpla?

-Það fer allt eftir því hvert er takmarkið?? Keppnis,steet/strip eða götubíll.

-Þú ert best settur með hypereutectic stimpla eins og t.d keith black þá geturðu verið með þéttari clearance heldur en með þrykktum. Nema þú ætlir að gasa þetta til helvítis.

-Planið er að ná 300 gæðingum úr fjósinu og eiga samt nóg inni fyrir SC/NOS. Er semsagt verra að vera með þrykkta stimpla á kraftminni vél?

-Sælir, þrykktir stimplar eru þyngri og þá er mótorinn kominn úr ballans, sem er ekki gott, settu frekar peninginn í aftermarket álhedd og góðan knastas,og þú ferð vel yfir 300 hrossin.

15.5.09

Brennuvargur

Að brenna sinu er góð skemmtun. Alltaf var ég með eldspýturnar í vasanum á vorin. Einu sinni kveikti ég í háum húsapunti, skraufþurrum rétt hjá yngra gróðurhúsinu hennar ömmu. Þar varð skyndilega heilmikið bál. Óvænt vindhviða feykti eldhafinu í áttina til mín og ég þurfti taka á öllu mínu til að forða mér á hlaupum og slapp naumlega við að verða eldi að bráð. Grasið var á hæð við mig og sömuleiðis eldhafið. Ég man vel eftir adrenalínskotinu sem fylgdi en engin var áfallahjálpin því svona löguðu sagði maður foreldrunum ekki frá.

Alltaf bað ég afa um leyfi fyrir að brenna sinu og hann veitti það með semingi. Oftast var maður að kveikja í vegköntum og skurðsruðningum. Ég var meðvituð um að það væri ábyrgðarhluti að brenna sinu, eldinum yrði að halda í skefjum og ekki mætti kveikja í hvar sem var. Ég hafði líka lesið frásögn í Öldinnni okkar af bónda sem kveikt í sinu og brenndi óvart allt land þriggja jarða nágranna sinni, og fyrirfór sér af skömm.

Ég get aldrei alveg fundið fyrir þeirri heilögu fordæmingu sem fylgir fréttaflutningi af sinubrunum.

6.5.09

Geitarhús án ullar


Ég verð að biðja alla þá netráfandi sauði sem hafa álpast hér inn á vefsetrið að undanförnu í leit að nýju uppbyggjandi lesefni, innilegrar velvirðingar á að ekkert slíkt er hér að finna. Skyndilegu brotthlaupi mínu til Ítalíu er hér um að kenna. Góðu fréttirnar eru þær að á Ítalíu fann ég minn innri ljósmyndara og verða fleiri myndir birtar hér í framtíðinni en áður hefur tíðkast.
Fyrsta myndir er hér í tilefni af megrunarlausa deginum sem er í dag.