27.9.08

Skemmtiferðir

Ég sá þess getið að fólk gerir sér ferð í Laugardælakirkjugarð að gröf skákmannsins. Síður reikna ég með að gera það. Í æsku fór ég í skoðunarferðir að Laugardælum af brýnna tilefni. Þar gaf að líta fullvaxin þarfanaut í löngum röðum, þeir hristu gríðarlega hausana svo hringlaði í keðjunum og geðillskan skein úr augunum á þeim. Í minningunni eru þeir allt öðruvísi týpur en Guttormur heitinn. Þetta þótti prýðileg skemmtun fyrir ungviðið.

Nýlega keypti ég Sögu Búnaðarsambands Suðurlands eftir Pál Lýðsson. Skemmtilegasta setningin í henni, höfð eftir Hjalta Gestssyni, snertir einmitt kynbótastöðina í Laugardælum:

Þannig vekur nýjasta tilraunaverkefnið um samstillingu beiðslis hjá mjólkurkúm með aðstoð hormónalyfja mikla forvitni og eftirvæntingu því að vel getur verið, að hér sé í augsýn lausn á því vandamáli, þegar kýr fá ekki fang vegna dulbeiðslis, eða þegar þær halda ekki uppi yxnmálum.

No comments: