Ég hef í einfeldni minni talið margumræddar lánalínur svipaðar framlengingu á víxli. Það var nefnilega þannig að maður tók 50 þúsund króna víxil til þriggja mánaða og endurnýjaði hann síðan reglulega. Þessi fáheyrði misskilningur minn hefur nú verið leiðréttur.
Lánalína mun vera tilboð lánveitanda um að veita lánafyrirgreiðslu með tilteknum kjörum á tilteknum tíma. Það virðist mikilvægt að eiga töluvert af slíkum vilyrðum í safni sínu til að geta valið það besta þegar fjár er vant.
Þetta virðist í fljótu bragði fullkomlega sambærilegt við margreyndar og sannprófaðar aðferðir við samningagerð á öldurhúsum. Tilboðum um fyrirgreiðslu er þar veitt viðtaka og síðan eru þau metin þegar nær dregur lokun, með hliðsjón af framboði og eftirspurn á markaði, samningi er landað og hann efndur in natura.
Greinilegt er að lánalínur geta verið til skamms tíma og kallast þá gjarnan lausafjárlínur, en geta einnig falið í sér skuldbindingu til lengri tíma. Langtímalína væri lýsandi orð yfir slíkt, en virðist ekki hafa náð útbreiðslu.
30.9.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment