30.9.08

Línuleg hugsun

Ég hef í einfeldni minni talið margumræddar lánalínur svipaðar framlengingu á víxli. Það var nefnilega þannig að maður tók 50 þúsund króna víxil til þriggja mánaða og endurnýjaði hann síðan reglulega. Þessi fáheyrði misskilningur minn hefur nú verið leiðréttur.

Lánalína mun vera tilboð lánveitanda um að veita lánafyrirgreiðslu með tilteknum kjörum á tilteknum tíma. Það virðist mikilvægt að eiga töluvert af slíkum vilyrðum í safni sínu til að geta valið það besta þegar fjár er vant.

Þetta virðist í fljótu bragði fullkomlega sambærilegt við margreyndar og sannprófaðar aðferðir við samningagerð á öldurhúsum. Tilboðum um fyrirgreiðslu er þar veitt viðtaka og síðan eru þau metin þegar nær dregur lokun, með hliðsjón af framboði og eftirspurn á markaði, samningi er landað og hann efndur in natura.

Greinilegt er að lánalínur geta verið til skamms tíma og kallast þá gjarnan lausafjárlínur, en geta einnig falið í sér skuldbindingu til lengri tíma. Langtímalína væri lýsandi orð yfir slíkt, en virðist ekki hafa náð útbreiðslu.

29.9.08

Ábending

Núna er rétti tíminn til að skandalísera. Enginn mun veita því athygli. Þeir sem verða dæmdir til refsingar næstu daga geta hrósað happi.

Aðgát skal höfð

Ég veit ekki hvað maður getur skrifað um þegar bankakerfið riðar til falls. Það virðist ekkert umfjöllunarefni nógu stórbrotið í dag.

Eitt verð ég þó að segja í tilefni af forsíðufrétt Fréttablaðsins um gríðarlega eftirspurn á sláturmörkuðum. Þeir markaðir munu vera mjög líflegir og líklegt að verð á slátri og vörum til sláturgerðar fari hækkandi í samræmi við lögmálið sígilda um samspil framboðs og eftirspurnar.

Ég bendi á að það eru ennþá jafnmargar hitaeiningar í lifrarpylsunni og blóðmörnum og hingað til hafa verið. Enginn samdráttur þar. Ekki færri en 400 hitaeiningar eru í 100 grömmum. Hundrað gömm af slátri er ekki stór biti.

28.9.08

Ég sagði það

Alveg er það óþolandi þegar manni dettur eitthvað í hug en segir það ekki og svo segir það einhver annar og öllum finnst það mjög sniðugt.

27.9.08

Skemmtiferðir

Ég sá þess getið að fólk gerir sér ferð í Laugardælakirkjugarð að gröf skákmannsins. Síður reikna ég með að gera það. Í æsku fór ég í skoðunarferðir að Laugardælum af brýnna tilefni. Þar gaf að líta fullvaxin þarfanaut í löngum röðum, þeir hristu gríðarlega hausana svo hringlaði í keðjunum og geðillskan skein úr augunum á þeim. Í minningunni eru þeir allt öðruvísi týpur en Guttormur heitinn. Þetta þótti prýðileg skemmtun fyrir ungviðið.

Nýlega keypti ég Sögu Búnaðarsambands Suðurlands eftir Pál Lýðsson. Skemmtilegasta setningin í henni, höfð eftir Hjalta Gestssyni, snertir einmitt kynbótastöðina í Laugardælum:

Þannig vekur nýjasta tilraunaverkefnið um samstillingu beiðslis hjá mjólkurkúm með aðstoð hormónalyfja mikla forvitni og eftirvæntingu því að vel getur verið, að hér sé í augsýn lausn á því vandamáli, þegar kýr fá ekki fang vegna dulbeiðslis, eða þegar þær halda ekki uppi yxnmálum.

26.9.08

Flugferðir

Flugvélum er flogið. Stundum er sagt frá því að farþegum hafi verið flogið á áfangastað. Mér finnst eins og það hljóti að vera niðurlægjandi meðferð fyrir þann sem fyrir verður og ég sé í huganum mann á flugi, setinn af einkennisklæddum starfsmanni flugfélags. Þessi maður lætur örugglega ekki fljúga sér.

25.9.08

Handrukkari í heimsklassa

Það er áhrifaríkara að tala við manneskju í eigin persónu en að senda henni bréf. Skýrustu skilaboðin eru send með milliliðalausum mannlegum samskiptum. Það er fullkomlega löglegt að fara og tala augliti til auglitis við þann sem skuldar manni pening og óska eftir greiðslu. Ég held að það sé nokkuð góð innheimtuaðferð. Ef einhver kæmi hingað frá Bílastæðasjóði þá myndi ég borga sektina um leið.

24.9.08

Samband hefur náðst við raunveruleikann

Ef rúllukaka er 310 grömm og aðeins seinni helmingurinn af henni er eftir, þá hafa verið snædd 155 grömm af köku. Sá sem heldur að það séu minna en 500 hitaeiningar er að blekkja sjálfan sig.

23.9.08

Fundið fé

Ég ákvað að líta í skottið á bifreiðinni áðan. Það var reglulega skynsamlegt. Þar fann ég ýmsa lausafjármuni sem ég hafði talið glataða. Sumt tók ég í mína vörslu en annað lét ég óhreyft til athugunar síðar. Ég mæli með því að fólk líti öðru hvoru í farangursgeymslur bifreiða sinna.

Ástæðan fyrir þessu var sú að ég rifjaði upp af litlu tilefni smá óhapp sem ég varð fyrir og tengdist nokkrum rabbarabaraleggjum sem ég uppskar snemma sumars og varpaði í skottið. Því miður átti ég ekki næst erindi þangað fyrr en um haustið.

22.9.08

Eitt samsærið enn

Kíkti á miðann á nýja bolnum áður en ég stakk honum í vélina, þar stóð aðeins "wash this when dirty". Ágætis tilbreyting í því. Ég þoli ekki þegar stendur á venjulegum bómullarflíkum að þær eigi að þvo "seperately", "with similar colors", (hvernig þvær maður röndóttan bol með "similar colors"?), "inside out", eða það sem er mest óþolandi "hand wash only" og "dry clean only".

Yfirleitt fylgir mynd af þurrkara með kross yfir. Skil ekki hvað hægt er að selja mikið af þurrkurum, það finnst varla flík sem virðist þola vistina þar. Svo er klykkt út með "dry flat" eða "stretch to shape". Hvar á maður að breiða úr öllum þessum blautu fötum? Á gólfið kannski? Ég sé kettina í anda taka krók framhjá.

Sennilega er þetta eitt allsherjar samsæri. Hér er ekki hægt að gera neitt rétt. Það er hægt að skipta öllum þessum skilaboðum út fyrir þessi: Ef flíkin skemmist í þvotti þá er það þér sjálfri að kenna.

Það eru þó til ein skilaboð af þessum toga sem ég fagna ævinlega og er ekki í minnstu vandræðum með að fara eftir, sjá mynd.


21.9.08

Hagfræði

Það er talað um skortsölur í hverjum fréttatíma, rétt eins og allir eigi að vita hvað um er talað. Ef maður veit það ekki þá er maður vitlaus.

Rannsóknir mínar hafa leitt í ljós að þetta lýsir sér svona:

Ég fæ lánaða bók á bókasafninu og sel hana á 300 kr. í þeirri von að geta keypt sömu bók í Góða hirðinum á 200 kr. áður en skiladagur kemur á bókasafninu.

Um hrikalega lengd eilífðarinnar

Ætli þetta hafi ekki verið í norsku ævintýrunum sem þeir söfnuðu Asbjørnsen og Moe. Tvær eða þrjár brúnar bækur með brúnum þykkum blaðsíðum, uppi í hillu hjá afa of ömmu.

Fyrir austan sól og vestan mána er fjall og á hundrað ára fresti kemur lítil fugl og brýnir nefið á fjallinu. Þegar fjallið er sorfið í burtu þá er liðið eitt andartak eilífðarinnar.

Sjálfsagt hefur þetta verið orðað á fegurri hátt í sögunni en ég man þetta alltaf svona. Þegar ég las þetta sem barn þá þyrmdi yfir mig.

20.9.08

Hendistefna

Ég á erfitt með að henda ílátum sem ég held að ég geti kannski einn góðan veðurdag haft not af. Tómur skókassi fellur þarna undir. Kannski er þetta til vitnis um að ég þjáist af djúpstæðum ótta við að líða skort.

19.9.08

Misminni um húsráð

Mér hljóta að hafa orðið á mistök því einn morguninn vaknaði ég með bakið límt með tyggjói við lakið á rúminu. Ég notaði terpentínu til að ná tyggjóinu úr lakinu og var óspör á hana. Nú hefur lakið verið þvegið tvívegis við 60 gráður á Celsíus, sem er ráðlagður hámarkshiti í tilviki þessa laks. Mikið af þvottaefni er nú á leið til sjávar. Hreinsun á tyggjói tókst mjög vel, ekki er arða af því sjáanleg en terpentínufnykurinn af lakinu er svo yfirgengilegur að mér liggur við öngviti. Svona lagað kemur auðvitað ekki fyrir gömul og ljót lök.

18.9.08

Mannfækkun af hallærum

Ég keypti þessa bók eftir Hannes Finnsson í Góða hirðinum. Mikið öndvegisrit og mikil öndvegisbúð. Hannes var biskup í Skálholti, fróður og virtur. Hann tók saman yfirlit yfir hallæri á Íslandi fram til 1790 og helsta niðurstaða hans var að Ísland væri þrátt fyrir allt byggilegt.

Nú á krepputímum er gott að líta í þessa bók sér til hjálpræðis. Hannes telur að Íslendingar séu fljótari en aðrir að ná sér upp eftir hallæri:
Ísland fær tíðum hallæri, en ekkert land í Norðurálfunni er svo fljótt að fjölga á ný manneskjum og bústofni sem það, og er því eigi óbyggjandi.
Hannes bendir á nauðsyn þess að koma fátæklingum nógu fljótt til hjálpar:
Það er til lítils að lækna áfallna fátækt, nema undir eins sé komið í veg fyrir þá áfallandi. Við uppsprettu skal á stemma, en eigi að ósi; svo kostar miklu minna að hjálpa fátækum fyrst, þá þeir komast á knén til falls, en reisa þá á fætur, eftir að þeir eru dottnir um koll. Þegar þeir fyrst eru komnir á vergang verða þeir úr því sjaldan til nota, en draga marga aðra með sér, og þá þarf miklu meira þeim til bjargar en áður.
Þetta skrifar maðurinn fyrir ríflega 200 árum.

Erfiðleikar í heimilishaldi

Þegar þveginn og þurrkaður þvottur hefur legið í kuðli í þvottahúsi í ákveðinn dagafjölda sem óþarfi er að tilgreina, þá finnst mér hann vera orðinn sjálfkrafa aftur skítugur. Jafnvel þó hann hafi verið í körfu.

17.9.08

Þeim verður að svíða

Þegar síðasti skóladagurinn er búinn getur verið þægilegt að henda skólatösku útí horn með öllu innihaldi. Svo sér maður eftir því þegar í ljós kemur að hausti að síðasta nestið hafði ekki verið étið.

16.9.08

Ábyrgð

Annar kötturinn minn er alveg mátulegur. Hinn er kominn nokkuð yfir kjörþyngd. Eftir nokkra umhugsun hef ég ákveðið að gera ekkert í málinu. Putti verður að axla ábyrgð á eigin lífi.

15.9.08

Á réttum Kili


Það er töluvert ferðalag frá Reykjavík og á Beinahól á Kili. Þó er það aðeins eins skós ferð samkvæmt stöðlum Ferðafélags Íslands. Ég tel að sú flokkun þarfnist endurskoðunar. Mér var skítkalt á Beinahól og hugsaði stíft til Reynistaðarbræðra. Beinin á Beinahól eru víst ekki öll jafngömul. Einhverntíman var bætt í, enda lítið varið í hólinn beinlausan. Hann er ekki stórbrotinn frá náttúrunnar hendi. Það er afskaplega karakterstyrkjandi að ganga lengi lengi á Kili í slagveðri, sérstaklega þegar beitt er upp í vindinn. Mér finnst ég vera mun öflugri einstaklingur eftir þessa ferð en áður en hún var farin.

Ferðafélagi minn Olgeir Helgi Ragnarsson frá Borgarnesi tók þessa mynd af veðurbörðum hópnum þar sem hann maular skrínukost sinn á Beinahól.

Helgardvöl

Til stóð að loka fuglinn (ástargaukinn Hómer) inni í herbergi svo kettirnir ætu hann síður á meðan við brugðum okkur af bæ. Þau grundvallarmistök voru gerð að annar kötturinn var lokaður inni í herberginu með fuglabúrinu. Kötturinn þraukaði matar- og vatnslaus ríflega sólarhring og bar sig aumlega er hann losnaði, en fuglinn var alheill og sá hvorki á honum né híbýlum hans. Kannski er fuglinn ekki í þeirri stöðugu yfirvofandi lífshættu sem ég hef talið. Ég hef reyndar heyrt sögur um að kettir hafi unnið á fuglabúrum til að ná til íbúa þeirra en kannski eru það flökkusögur.

14.9.08

Endurance




Á Aðalvídeóleigunni fékkst uppúr 1980 spóla með þessu nafni, innihélt japanskt afþreyingarefni úr sjónvarpi. Spólan var tekin til sýninga á heimili á Bergstaðastræti sem ég kom stundum á. Ég hef ekki orðið jafngóð eftir að hafa horft á þetta. Japanir að pína sjálfa sig og aðra af einlægri hjartans lyst. Þeir gangast glaðir undir óskiljanlegar píslir. Þetta ættu allir að sjá, útvíkkar reynsluheiminn töluvert. Ef þessi spóla er einhversstaðar til í dag þá er það sennilega í Laugarásvídeói.

13.9.08

Hvítárnes

Ég hætti alveg örugglega að sofa við ljós fyrir þrítugt. Nú er ég að fara af fúsum og frjálsum vilja í sérstaka draugaskoðunarferð. Svona fer manni fram í lífinu.

12.9.08

Meira um merkingar


Það bættist í heimilistækjasafnið í dag. Skanninn var vígður með þessari opnu úr markaskrá Árnessýslu frá 1979, allt í tilefni Hrunarétta í dag. Ég held að myndin stækki ef smellt er á hana.

Þarna geta áhugasamir kynnt sér hvernig markið mitt lítur út. Það er hvatt hægra og tvírifað í heilt vinstra. Númer 25 og 46 á myndinni.

Í markaskránni er þess getið að mikilvægt sé að menn eigi ekki sammerkt við einhvern sem býr nærri, vegna hættu á misdrætti. Ég held ég eigi ekki sammerkt við neinn.

Lífsleikni 101

Ég var leið yfir því í dag að hafa ekki farið (ekki komist?) í réttirnar. Ég reyndi áðan að búa til kjötsúpu á Facebook mér til huggunar, en það mistókst.

11.9.08

Merking

Ég var fyrir stuttu stödd í anddyri fjölbýlishúss, þar var hvorki að finna merktan póstkassa né merkta bjöllu.

Kannski var húsfélagið bara að setja upp nýja póstkassa og bjöllur.

Undir háfjallasól

Ég var hvít og vildi vera brún. Í ljósabúð í Suðurveri fékkst háfjallasól í líki risastórrar rauðrar peru sem var einfaldlega skrúfuð í mosagræna Luxo lampann (þó að innan á skerminum stæði max 60w). Svo átti að byrja rólega, lengja tímann smámsaman. Ég var 18 ára eða svo, vann sjö daga í viku á hótelinu. Eitt kvöldið lagðist ég örþreytt í rúmið á brókinni og fór í sólbað. Vaknaði kl. fjögur um nóttina af einhverjum ástæðum og slökkti þá á sólbaðinu.

Næstu dagar og vikur voru litrík. Ég var skaðbrunnin allan hringinn niður að hnjám. Fyrsta daginn var skærbleikt ríkjandi litur, síðan yfir í rautt, blóðrautt, pósthúsrautt, nautakjötsrautt og jafnvel fjólublátt á köflum. Þegar hámarksbruna var náð komu fram nýjir litir, indíánarautt, múrsteinsrautt, rauðbrúnt og yfir í rónabrúnan leðurlit. Svo byrjuðu hamskiptin. Dökkbrúna leðrið datt af í stórum stykkjum og undan kom í ljós kom nýr rauður litur, hann varð síðan brúnn, flagnaði aftur og og undan kom aðeins ljósari rauður litur og þannig koll af kolli. Ég var skjöldótt vikum saman og var að sjálfsögðu kölluð Rúna brúna allt þetta sumar og jafnvel lengur.

Þetta var alveg órúlega vont. Ef þetta gerðist í dag myndi ég vilja leggjast á spítala með morfín í æð. Ég fór ekki til læknis og lá bara fáeina daga undir laki heima. Mamma smurði á mig einhverju sem læknirinn sendi með rútunni. Þetta sumar gekk ég í víðum fötum og notaði nærbuxur af pabba.

Ég þótti ekki nógu frambærileg til að servera í sal svona útlítandi (það var svo hár standardinn á Hótel Flúðum) en var höfð lengi í eldhúsinu. Ég man hvað það var óþægilegt þegar ég tók fulla grind af heitu leirtaui út úr Hobart vélinni og sjóðandi gufan réðist á mig.

Ummerkin voru greinileg í mörg ár og sjást aðeins ennþá. Ég hef ekki orðið almennilega hvít aftur. Þetta var ekki í síðasta sinn sem ég notaði háfjallasólina og ekki í síðasta sinn sem ég brenndi mig í henni.

10.9.08

Rúsínufræði

Mér finnst furðulegt að tala um að plokka rúsínurnar úr til að ná í bestu bitana, en það heyrði ég í gær. Ég þekki engan sem gerir það en marga sem plokka þær úr jólakökunni til að geta borðað hana.

9.9.08

Less is a bore

Mér finnst Skotarnir flottir í köflóttu pilsunum sem þeir nota með nokkurnveginn hverju sem er þannig úr verður ein allsherjar skrautsýning. Svo guðdómlega frjálsir undan oki hins einfalda smekks.

8.9.08

Grámosinn gugginn

Það varð til þráður í huganum á milli tveggja fréttapistla sem voru áðan í útvarpinu. Fyrst var sagt frá gróðurskemmdum á Hellisheiði. Þar er mosi (hraungambri) að drepast af mengun frá virkjuninni. Á eftir var sagt frá dómi yfir mótmælendum frá Saving Iceland. Þeir fengu fjársektir fyrir að fara ekki að lögum í mótmælum sínum við Hellisheiðarvirkjun. Enginn mun sekta Orkuveituna fyrir mosaeyðinguna. Sennilega löglegt. Ég spái því að Orkuveitan komi með metnaðarfullar mótvægisaðgerðir, sái Alaskalúpínu í sárin og bjargi þannig Íslandi.

Hver mosaplanta getur verið mörg hundruð ára heyrði ég að Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur sagði. Hann er náfrændi minn og kenndi mér líffræði í Flúðaskóla þannig að gleymist ekki. Ég ber afskaplega mikla virðingu fyrir gömlum lífverum. Ekki síst þeim sem vaxa á steinum og þessvegna veitti ég þessu sérstaka athygli. Besta fréttin um mosaeyðinguna er auðvitað á vef Náttúrufræðistofnunar. Þar segir að afar líklegt að um mengun sé að ræða og að öllum líkindum brennisteinsvetni.

7.9.08

Partasalan

Það má nota mig að vild í varahluti eftir andlátið. Ég er hlynnt endurvinnslu og styð að fólk kaupi notað frekar en nýtt hvenær sem því verður við komið.

Það væri samt svekkjandi að vakna upp hinumegin og frétta að maður sé ekki gjaldgengur þar af því mikilvæg líffæri voru brottnumin.
Nei því miður, hér inni er gerð krafa um að fólk sé í heillegu standi, svona eru bara reglurnar, þetta hefur alltaf verið svona. Lastu ekki kynningarefnið? Nei það eru ekki gerðar undantekningar. Það er bara ekki hægt. Computer says no.
Ef maður kemst yfir þessar áhyggjur og ákveður að taka sjensinn á líffæragjöf, þá er upplagt að melda það til Sigurðar landlæknis eins og hann býður uppá hér.

6.9.08

Kaloríusmygl


Hvað á það að þýða að kalla sykraðan drykk "water". Varðar þetta ekki við einhver lög? Á ekki hið opinbera að vernda borgarana fyrir svona svínaríi? Þetta er ég búin að vera að svolgra í mig í tuglítravís í góðri trú og af rælni fór ég að lesa utan á. Það er ekki hægt að ætlast til að bonus pater átti sig á þessu. Heilar 37 kaloríur í 100 ml. Ég sem hélt að "Tonic Water" væri svipað og toppur eða kristall. Skaðabótakrafa hlýtur að hafa stofnast á Vífilfell hf. vegna þyngdarröskunar sem klárlega hefur af þessu leitt. Þungbærast er að ég hef mátt þola algeran skort fólks á samúð og skilningi vegna þessa áfalls. Ég get ekki drukkið þetta framar.

5.9.08

Drápssniglarnir koma

Mér er sem garðeiganda alveg sérlega uppsigað við Spánarsnigla, eins og áður hefur komið fram. Þau válegu tíðindi eru í Fréttablaðinu í dag að þeir séu orðnir útbreiddir um allt landið og miðin. Hinn vaski skordýrafræðingur Erling Ólafsson mælir með því að sniglarnir séu handsamaðir hvar sem þeir hittast fyrir og framseldir Náttúrufræðistofnun Íslands. Sé framsal umhendis, skulu þeir teknir af lífi án dóms og laga.

Ég geri ráð fyrir að sniglanna bíði herfileg örlög í höndum Erlings og félaga hans á Náttúrufræðistofnun þó vart í líkingu við það sem lýst er hér í hrollvekjandi spjallþræði, sem glöggur lesandi sendi mér um daginn og ég tel rétt að vekja athygli á. Þetta eru leiðbeiningar óbreyttra garðeigenda í Danmörku um hvernig best sé að kvelja tóruna úr Spánarsniglum. Danir hafa reyndar gefið þeim gildishlaðið heiti, dræbersnegle, á sínu gullfallega tungumáli.

Sniglarnir virðast Dönum mjög hugleiknir og fjölmörg þarlend vefsetur (snegleblogs) eru alfarið helguð baráttunni gegn þeim. Hér er eitt slíkt, þar er mikið snegleinfo, og fjallað um sneglefjendsk havedesign, sneglesikre planter, aktiv dødshjelp (með mynd) og passiv dødshjelp. Einnig er boðið upp á smellinn netleik þar sem tækifæri gefst til að drepa Spánarsnigla online.

4.9.08

Leirgerður


Gaman var að skoða nýju hverina sem spruttu upp fyrir ofan Hveragerði í jarðskjálftunum í vor. Það rýkur bókstaflega úr öllu þarna. Út um allt eru stórir blettir þar sem allur gróður er dauður, og ef lófi er lagður á jörðina þá er hún heit. Skemmtileg gönguferð.

Einn hverinn sem spratt upp er stærsti leirhver sem ég hef séð, hann hvæsir og spýtir steingrárri leðju. Hverinn heitir Leirgerður, sem mér finnst afleitt nafn. Það var haldin samkeppni og þetta nafn vann svo ekki hafa hin verið burðug. Sennilega hefur láðst að gúgla nafninu áður en það var valið, Leirgerður var nafn á óvirðulegri bók.

3.9.08

Ég merki fé

Markavörður í Árnessýslu hefur samþykkt umsókn mína um fjármark og framvegis verður fé mitt markað þannig: Hvatt hægra og tvírifað í heilt vinstra. Nafn mitt mun birtast á prenti í næstu markaskrá Árnessýslu.

Hvatt þýðir að eiginlega er eyrað látið enda í oddi. Tvírifað í heilt eru tvær samsíða lóðréttar rifur oní eyrað. Ég er fegin að markið mitt er ekki með neinu til hægri eða vinstri af því það er ekki mín sterka hlið að þekkja hægri frá vinstri og allra síst á kind.

Ef einhver finnur sauðkind með þessu marki þá á ég hana. Ég ætla í réttirnar um næstu helgi að leita.

Hollvinasamtök yfirgefin

Nú er loksins runnin út styrktaraðild mín að ónefndri líkamsræktarstöð hér í borg. Það er mikill léttir að losna undan þeirri nagandi hugsun að ég sé að svíkjast um að mæta þangað. Samt vil ég ekki senda frá mér yfirlýsingu um að ég muni aldrei oftar kaupa mér kort hjá slíku fyrirtæki.

2.9.08

Undir áhrifum

Sumar sjónvarpsauglýsingar ná til mín. Stundum hellist yfir mig óstjórnleg löngun í kók við það eitt að sjá það auglýst í sjónvarpinu, þá gæti ég gert hvað sem er til að þamba það ískalt af stút. Þessi tilfinning líður sem betur fer fljótt hjá ef henni er ekki sinnt.

Mig langar líka alltaf í hreingerningarefni sem á undraverðan hátt fjarlægja gamalgróinn og innmúraðan skít. Það veitir mér einhverja vellíðan að sjá glampandi hreina rönd birtast undan tuskunni sem danska konan beitir svo áreynslulaust. Ég vil gera eins og hún. Mig langar í Cillit Bang.