25.2.09

Bragð er að þá barnið finnur

Ég vinn á opinberri stofnun, þangað kom mér vitanlega ekki einn einasti dulbúinn krakki í dag til að syngja og sníkja nammi. Auðvitað var ekkert nammi til, en hvernig vissu börnin það? Getur verið að börn syngi bara í einkafyrirtækjum en sneiði hjá ríkisstofnunum?

24.2.09

Gullfoss í Hrunamannahreppi

Margt góðra gripa var til sölu í Kolaportinu á sunnudaginn var. Ég stóðst ekki þá freistingu að kaupa árbók Ferðafélags Íslands 1956 þar sem fjallað er um Árnessýslu milli Hvítár og Þjórsár. Gísli Gestsson reit. Hún kostaði 500 krónur.

Rétt er að halda því til haga að mér tókst að neita mér um ótalmargt sem mig langaði að kaupa, þar á meðal voru frosnar fiskibollur, mynd af Maríu mey með barnið og allnokkrir gullfallegir mokkabollar.

Í árbókinni segir:
Vissulega er betra að skoða Gullfoss vestan ár, en enginn þekkir þó Gullfoss, sem hefur ekki séð hann frá báðum hliðum. Landslagið neðan fossins þykir mér fegurra austan árinnar, og einnig nýtur gljúfrið sín betur úr þeirri átt.
Ég hef alltaf farið út í Tungur til að skoða Gullfoss en auðvitað á það að vera metnaðarmál fyrir Hrunamenn að skoða hann frá sinni hlið.

23.2.09

Lög og regla

Ég átti erindi á salerni á líkamsræktarstöð um daginn, ætlað konum. Þar hékk uppi listi yfir muni sem óheimilt var að varpa í salernið. Meðal annars kom fram að málmhlutum mátti ekki farga með þeim hætti, né heldur plastpokum. Ég geri ráð fyrir að listinn hafi verið útbúinn "að gefnu tilefni".

Það er varasamt að hafa lista yfir það sem er bannað of langa. Lesendur listanna gætu freistast til að beita á listana þeirri túlkun sem í lögfræði er kölluð gagnályktun. Í þessu tilviki myndi slík túlkun leiða til þess að talið væri heimilt að henda öllu í salernið sem ekki fyndist á listanum.

Hin klassíska regla „allt er bannað nema það sé sérstaklega leyft“ á hér betur við, enda er hægt að útbúa örstutta tæmandi talningu á því sem heimilt er að setja í klósett.

18.2.09

Computer says no

Ég hef mikið dálæti á íslensku tölvumáli. Stundum er reglulega gaman að fá skilaboð um villur og vandræði:
Villa: Óvæntar slóðarfæribreytur hafa komið upp og verða hunsaðar.

Engin eftirlæti hafa verið valin. Nota þarf hnappinn "Breyta eftirlætum" til að setja upp eftirlæti.

Þjóðin tjáir sig

Júróvisjónlagið í fyrra hét á íslensku Fullkomið líf.

Lagið í ár heitir í minni þýðingu Er þetta (virkilega) satt.

Is it true?
Is it over?
Did I throw it away?

17.2.09

Hrossakjötsnautn


Ég sannreyndi það um helgina, rétt eins og kom í ljós í könnuninni sem ég hef staðið fyrir hér á spássíunni, að Íslendingum finnst saltað hrossakjöt mikill öndvegismatur. Saltað hrossakjöt var á 30% afslætti í Bónus þannig að kílóið var einhversstaðar í kringum 500 kallinn. Það er því sannkallað kreppukjöt. Töluvert af fagurgulri fitu fylgir með enda er hún er ómissandi. Það er eftirtektarvert að hrossafita er alltaf mjúk. Það myndast ekki skjöldur ofan á pottinum þegar soðið kólnar,fitan er meira eins og olíulag. Hér segja vísindamennhrossafitan innihaldi töluvert minna af mettaðri fitu og meira af ein- og fjölómettuðum fitusýrum en lambafitan. Það væri þó óvarlegt af mér að lýsa því yfir hér að hrossafita væri holl fita. Ég veit þó dæmi þess að fólk hafi neytt óhemju magns af henni án þess að kenna sér meins. Þó ég hafi enga fyrirvara við að setja hrossafitu oní sjálfa mig, þá vefst fyrir mér hvar ég á að hella úr pottinum, hnausþykku fitulaginu sem flýtur þar ofan á soðinu, ég þori ekki að setja það í vaskinn né önnur niðurföll innandyra.

Af óviðráðanlegum ástæðum get ég ekki vitnað hér í Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson þó það væri viðeigandi. Þar er fjallað ítarlega um hrossakjötsát.

13.2.09

Sláturhús

Læknar á St. Jósefsspítala virðast hafa komið ár sinni vel fyrir borð og eru með afkastahvetjandi launakerfi. Aðrir starfsmenn spítalans eru það ekki.

Þetta var líka svona í sláturhúsinu í Laugarási í gamla daga. Fláningsmennirnir, unnu í akkorði og fengu greitt eftir afköstum, en þeir sem voru á eftir þeim á færibandinu, voru á tímakaupi. Ef maður setur sig í spor vinnuveitandans, þá er þetta ansi snjallt fyrirkomulag. Stundum spurðist út að morgni að fláningsmenn ætluðu sér að ná metafköstum þann daginn. Það var ekki vinsælt hjá tímavinnumönnum.

Einu sinni þáði ég læknishjálp á nefndum spítala. Ég man eftir að hafa verið beðin að skrifa undir yfirlýsingu því til staðfestingar að læknir hafi rætt við mig um fyrirhugaða læknisaðgerð, og að ég gerði mér grein fyrir mögulegri áhættu af henni. Ég hafði ekki haft tal að lækni á stofnuninni þegar þetta var, en ég þorði ekki annað en að skrifa undir af ótta við að læknisverkið lenti í uppnámi.

11.2.09

Matarkast

Stundum eru raufarnar í hellulögninni fyrir framan dyrnar að vinnunni minni fullar af hrísgrjónum. Svo hverfa þau einhvernveginn, ég veit ekki hvort það eru fyrir tilverknað starra eða húsvarðarins.

Hrísgrjón að morgni eru óræk sönnun þess hvaða embættisverk var unnið daginn áður.

9.2.09

Vorvindar glaðir

Nú er ég búin að sá til steinselju, korianders og basiliku, óvenjulega snemma. Oftast sái ég of seint, í ár gerði ég það of snemma. Ég er sannfærð um að það verður í lagi. Þetta fer allt saman vel.

7.2.09

Lækkert


Mér áskotnaðist lítið og laglegt kver í dag, úr ritröðinni Becks Husmodersbibliotek. Það heitir 21 kaffeborde - 100 lækre kageopskrifter, útgefið 1957 í Danmörku. Þar er þessi dæmalaust fallega mynd.
At samle sine venner omkring et pænt kaffebord er nemt og hyggeligt.
Þetta fer að mínu mati aðeins fram úr því að vera "pænt" og "nemt" en er vafalaust "hyggeligt" fyrir gestina.

5.2.09

Matarhola

Kona sem ég þekki átti þetta samtal fyrir nokkrum dögum þegar hún var að borga fyrir þjónustu á LSH - Landsspítala - háskólasjúkrahúsi:

"Já ég sé hér að þú vinnur á Landsspítalanum"
"Nei, ég er reyndar hætt þar"
"Þá eru þetta 11 þúsund krónur"
"Hvað hefði þetta verið er ég hefði ennþá unnið á spítalanum"?
"Þá hefðir þú fengið helmings afslátt"

2.2.09

Rúmfatalagerinn

Skyldu þeir selja hér út í Skeifu sængur með fiðri af gæsunum sem plokkaðar eru lifandi í Ungverjalandi?

Ekki er hægt að bera saman verðið á sæng fylltri gæsadúni og íslenskum æðardúni, sem fenginn er með sjálfbærri nýtingu náttúrugæða. Margt sem við kaupum á góðu verði, hefur verið dýru verði keypt fyrir aðra, jafnt menn sem málleysingja.

Það virðist vinsælt að pína gæsir í hagnaðarskyni, þeir sem hafa lyst á fois gras, treysta sér væntanlega til að horfa á þetta.

1.2.09

Frakkland - Króatía

Auðvitað er mikilvægara fyrir þjóðina að horfa á þessar ágætu þjóðir spila handboltaleik, en að horfa á blaðamannafund og heyra hvað nýji forsætisráðherrann hefur að segja.

Eitt augnablik eftir að skipt var yfir á handboltann hélt ég að "tæknin væri aðeins að stríða okkur" en svo rann hinn bitri raunveruleiki upp fyrir mér. Við svona uppákomur magnast upp efinn um að þessi ríkisrekni fjölmiðill sé peninganna virði.

Núna er staðan 18-18 í leiknum. Spennan er óbærileg. Fernandez er kominn inn á aftur hjá Frökkum.