29.8.08

I Kina spiser de hunde

Gátu sauðabændur markað mör sauða af því að þreifa um dindil? Voru kindur mænuskornar og brotnar úr hálslið jafnskjótt og búið var að hálskera þær eða síðar? Gaf það góðar mörvonir ef mikið snörlaði í kindinni, meðan henni blæddi út? Þekktist sú þjóðtrú, að huglausum mönnum væri hollt að drekka volgt kindablóð og éta mör með? Var koðri látinn fylgja magál á fjaðurgeltum sauðum? Hvað var gert við krókasteik (leg) og undir hvaða nafni gekk hún? Hvað hét mörstykki á kviðarholi milli magáls og blöðru (þjófstunga eða annað)? Hvernig var unnið að því að hreinsa ristil? Var sérstakur réttur gerður úr vélinda og hvernig? Hvernig voru garnir verkaðar til matar, og hvað nefndust þær soðnar (vil eða annað)? Mátti þunguð kona eta kjöt af sjálfdauðu fé? Var pestarkjöt notað til matar? Hvernig var lifur barin í mauk (með strokkloki, tréhnalli, hrárri gulrófu, steinlóði eða öðru)? Voru kindahausar rakaðir og klipptir, áður en þeir voru sviðnir? Þekktist orðtækið: "Betra er broddsviðið en brennt"? Var höfði nautgripa slegið við strjúpann um leið og það var skorið frá og þá hve oft? Hvernig var kýrjúgur matreitt? Hvernig voru hraun tekin, og hve lengi voru þau ýlduð í fjósi?
Voru hraun reykt að fjósvist lokinni? Voru lappir sviðnar, áður en þær voru settar í fjós? Mátti hver sem var borða nautsheila og hvernig var hann matreiddur? Voru nautshausar (kýr?) soðnir í heilu lagi eða granir sagaðar af? Hvað kallaðist fóstur í kálffullri kú, sem felld var (aplakálfur eða annað)? Var óborinn kálfur nokkurn tíman notaður til matar og þá hvernig matreiddur? Var óborinn kálfur fleginn með venjulegum hætti eða tekinn af honum belgur? Voru ungkálfar teknir úr karinu undir hnífinn?
Var sagt um kálfa, sem bauluðu við blóðtrog, að þeir bæðu um líf? Nægði það til lífs? Voru kálfar flegnir samdægurs og þeir voru skornir? Var um það rætt, að dauðir kálfar fitnuðu í skinninu og þá hve lengi? Hvað nefndist þefur af illa verkuðu hrossakjöti (hrælykt eða annað)?

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins óskar svara við þessum spurningum og mörgum fleiri.

No comments: