22.10.08

Í Versölum

Það er mikil ráðgáta hvað verið er að semja um við Bretana núna. Eitt er víst, þeir sem töpuðu á Icesave eiga aðeins rétt að greiðslum úr Tryggingasjóði, svo langt sem hann nær, en þeir eiga ekki kröfu á íslenska ríkið. Það hefur enginn stigið fram með rök fyrir því að við berum einhverja "þjóðréttarlega ábyrgð" á tapinu á Icesave. Af hverju er þá verið að semja og um hvað er verið að semja?

Geir Haarde sagði í Kastljósinu að það sé okkar túlkun á málinu að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á Icesave, en að fleiri hliðar séu á málinu en sú lögfræðilega. Góð samskipti við Breta séu okkur dýrmæt. Hann tók fram að við þurfum á samvinnu við Breta að halda til að varðveita eignir bankanna sem eru í Bretlandi. Ég skil það svo að Bretar hafi hótað því að leggja þar enn fleiri steina í götu okkar, nema við lofum að borga. Geir sagði einnig að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn setji það ekki beint sem skilyrði að við borgum Bretum, en sjóðurinn vilji að þetta sé "komið á hreint". Ég geri ráð fyrir að Bretarnir séu að nýta sér þessa staðreynd. Þeir gera á okkur óraunhæfar kröfur, vitandi það að við þurfum að koma málinu á hreint til að fá fyrirgreiðslu sjóðsins. Ef þetta er ekki kúgun þá veit ég ekki hvað það er.

Núna eru Bretarnir að hlusta aftur á viðtalið við Geir og þeir heyra í manni sem er ekki alveg fráhverfur því að borga það sem hann er krafinn um. Hann segist "helst vilja" ljúka þessu án þess að skuldbindingar falli á okkur. Það er vægast sagt áhyggjuefni að það komi til álita að láta þjóðina borga eitthvað sem hún skuldar ekki.

No comments: