22.11.09

Rúnutal

Langamma mín í beinan kvenlegg hét Guðrún. Systir hennar hét líka Guðrún. Mamma þeirra hét Guðrún. Tengdamóðir hennar hét Guðrún. Báðar ömmur hennar hétu Guðrún. Ein af af langömmum hennar hét Guðrún. Þegar maðurinn hennar eignaðist barn framhjá henni, var barnið skírt Guðrún.Langamma eignaðist tvær dætur, tók hún þá djörfu ákvörðun að láta hvoruga heita Guðrún en önnur var reyndar látin heita Eyrún og var amma mín. Ég heiti nafninu hennar og það gerir hún Eyrún frænka mín líka. Mamma heitir auðvitað Guðrún eftir ömmu sinni og dóttir hennar systur minnar heitir Guðrún eftir henni.Ef ég hefði eignast dóttur hefði hún auðvitað verið látin heita Guðrún. Ég elska þetta nafn.

Þegar presturinn spyr: "Hvað á barnið að heita", (eða "hvað heitir barnið" til að leggja rétthugsandi áherslu á að verið sé að taka barnið í söfnuðinn en ekki bara gefa því nafn), þá setja viðstaddir upp pókerandlitið, enginn vill láta skelfinguna leka af sér þegar nýjasta skrúðnefnið er sagt upphátt.

Þetta var sagan af nafnahefðinni í kvenleggnum, það eru fleiri leggir og fleiri svona sögur. Mannanafnanefnd hefur ekki þurft að funda út af nafngiftum í minni fjölskyldu.

18.10.09

Tær í kremju


Ekki gat ég stillt mig um að smella á fyrirsögnina Naomi Cambell á bikiní - myndir. Fréttin er sú að Naomi sé enn í "feyknaformi" en blaðamaður virðist ekki hafa veitt því athygli sem er mun meiri frétt.

Fóturinn á henni hefur tekið á sig mynd skófatnaðar sem miðast við að kvenfótur sé með eina langa miðtá, en tærnar styttist og minnki eftir því sem utar dregur. Konan hefur verið gagnrýnd fyrir að vera stygg í skapi og jafnvel ofbeldishneigð, en fréttir af því eru komnar í nýtt samhengi. Hún hlýtur að finna til í hverju skrefi.


4.10.09

Uppskrift

Tregða mín til að henda hlutum eða losa mig við þá til annarra eigenda á sér margar birtingarmyndir. Ég lærði það ung að mikilvægt væri öllum að eiga gott hljómplötusafn. Sérstaklega var það mikilvægt fyrir unga menn og hélst í hendur við mikilvægi þess að eiga góðar græjur. Metnaður minn í þessum efnum var lítill, sem betur fer. Allar mínar græjur hafa verið vondar og hljómplötur keypti ég stöku sinnum af tilviljun. Núna á ég ekki það sem þarf til að spila hljómplötur en ég get hvorki selt þær, gefið, hent né neitt annað. Þær bara sitja í sínum kassa í geymslunni og bíða eilífðarinnar.

Fljótlegt reyndist að framkvæma uppskrift á hljómplötusafni mínu. Ef einhver sýnir áhuga á að eignast einhverja þeirra, geri ég ráð fyrir að mér muni þykja hún enn eigulegri fyrir vikið.

Hvít jól – Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason (þetta er lítil plata), Hotter than July – Stevie Wonder, Pyramid – The Alan Parsons Project, Jack Magnet – Jakob Magnússon, In The Court of The Crimson King – King Crimson, Double Fantasy – John Lennon og Yoko Ono, Walk on The Wild Side - The best of Lou Reed – Lou Reed, Peter Tschaikowski - Die Jahreszeiten - Auswahl – Swjatoslaw Richter, Og augun opnast – Hilmar Oddsson, Eve – The Alan Parsons Project, Master of Reality – Black Sabbath, Tender Prey – Nick Cave and The Bad Seeds, Countdown to Ecstasy – Steely Dan, Bounced Checks – Tom Waits, Arien – Maria Callas, Midt om Natten – Kim Larsen, Kaya – Bob Marley and The Wailers, Never for Ever – Kate Bush, Absolutely Live – The Doors, The Best of Bette – Bette Midler, 77 – Talking Heads, 461 Ocean Bouleward – Eric Clapton, Starsound Collection – Janis Joplin, Body and Soul – Joe Jackson, Stella – Yello, Eye in The Sky – The Alan Parsons Project, The Doors –The Doors, Blind Faith – Blind Faith, Bísar í banastuði – Kamarorghestar.

Mér finnst endilega eins og ég hafi einhverntíman átt plötur með Supertramp og ELO, en sennilega eru þær týndar eða í láni.

15.8.09

Innköllun

Þegar maður ræður sig til vinnu er þess vænst að maður mæti. Veikindi eða önnur forföll þarf að tilkynna yfirmanni. Úti í hinum harða heimi leiða forföll almennt ekki til þess að varamaður vinni vinnuna, hún lendir á samstarfsmönnum eða einfaldlega bíður.

Í tilefni ágreinings innan Borgarahreyfingarinnar er því beint til þingmanns að "kalla inn varaþingmann sinn". Þingmaðurinn segist ekki ætla að gera það. Fjölmiðlar færa fréttir af því hverjir vilja að þingmaðurinn "kalli inn varaþingmann sinn" og hverjir vilja það látið ógert.

Samkvæmt 53. gr. laga um þingsköp er þetta aðeins öðruvísi hugsað:
Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.
Ef þingmaður forfallast svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti hans á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir þinginu bréfið.Þegar varamaður tekur sæti í forföllum þingmanns skal hann ekki sitja skemur en tvær vikur nema þingið hafi áður verið rofið eða því frestað.Þingmaður nýtur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.
Borgarahreyfingin virðist óvart hafa ýtt á rauða hnappinn "self destruct".

11.7.09

Staup


Áhugi minn á jarðargróðri er ekki takmarkaður við blóm, en því miður sækist mér illa að læra nöfn á mosum, sveppum, fléttum og þvílíku. Svona jurtir, ef jurtir má kalla, eru oft einstaklega listrænar í útliti og hljóta að veita hönnuðum innblástur. Þetta minnir aðeins á staup sem kona með rauðan varalit hefur drukkið úr.

Þetta fann hún Ásý frænka mín um daginn og spurningin er hvort einhver glöggur lesandi ber kennsl á gripina. Ætli þetta sé ekki svona einn og hálfur cm á hæð.

6.7.09

Tapað - fundið

Allar fréttir af fundnum fornleifum vekja áhuga minn, enda langaði mig til að verða fornleifafræðingur þegar ég var krakki. Sú hugmynd var ekki alveg úr tengslum við líf mitt, því afi minn safnaði gömlum munum og ég var og er afskaplega stolt af safninu hans sem ennþá er hægt að skoða í Gröf.

Núna sá ég á frétt um að fyrrverandi tilvonandi kollegar mínir hafi fundið næstum þúsund ára gamlan snældusnúð í jörðu í Reykjavík. "Véborg á mig" segja rúnirnar á honum. Enginn kvenmaður heitir Véborg á Íslandi, né finnst nafnið á skrá Mannanafnanefndar yfir leyfð stúlkunöfn. Engin Véborg finnst í Íslendingabók.

Wikipedia segir af einni Véborgu. Hún var ein þriggja skjaldmeyja sem fóru fyrir liði 300 slíkra í her Haraldar hilditannar í gríðarlegum bardaga við Brávelli í Svíþjóð í kringum árið 750 eftir því sem sagt er. Því er logið að 200 000 manns hafi tekið þátt í bardaganum. Véborg féll í orrustunni, fyrir Þorkeli hinum þrjóska og er frá því greint að orðaskak hafi fylgt vopnaskaki þeirra.

Véborg þessi hefur því tæpast átt snúðinn sem er frá 10. eða 11. öld, en eigandi hans gæti alveg hafa verið látinn heita eftir þessari frægu kvenhetju. Það er svo ráðgáta afhverju notkun á þessu prýðilega nafni hefur lagst af, fundur snúðsins verður vonandi til þess að nýjar Véborgir vaxi úr grasi. Ekki veitir okkur af kjaftforum skjaldmeyjum.

5.7.09

Myndarlegir


Ég hef veitt því athygli að allar fréttir á mbl.is af starfsemi lögreglunnar eru myndskreyttar með einni og sömu myndinni. Það er mynd af húddi á lögreglubíl. Fín mynd en ég óska eftir tilbreytingu. Þessa mynd tók ég á17. júní og hún væri oft alveg upplögð.

Í boði Landsvirkjunar


Um daginn naut ég gestrisni Landsvirkjunar og fékk að skoða Kárahnjúkavirkjun með leiðsögn starfsmanna fyrirtækisins. Sama hvað manni kann að finnast um framkvæmdina, þá má dást að mikilfengleika mannvirkisins, handverkinu, verksvitinu og því sem menn geta áorkað ef nógu margir leggja saman.

Eitt mikið áhyggjuefni er fok. Hér má sjá viðleitni til að hindra það. Ég geri ráð fyrir að þetta sé einhverskonar tilraun því aðeins var eitt svona tæki að störfum. Þetta tæki minnir mig á þegar rófugarðarnir voru vökvaðir í gamla daga. Bunan sveif í svipuðum boga.

Annars eru myndir úr þessari frægðarför hér.

20.5.09

Íðorð

Ég fékk áðan þær afleitu fréttir að bifreið mín væri haldin stimplaglamri. Bifvélavirkinn var mjög alvarlegur á svipinn þegar hann talaði um það. Þegar heim var komið ákvað ég að gúgla. Stimplaglamur skilaði aðeins tveimur niðurstöðum, þannig að þetta er varla algengt ástand.

Á öðrum staðnum lenti ég inn á áhugaverðum spjallþræði:

-Ég er að fara að taka upp gamlan 350 chevy mótor og langaði að athuga hvort menn gætu ekki bent mér á eitthvað almennilegt setup. Það sem ég get verslað hér á klakanum mun ég versla hér, en annað mun ég panta að utan. Markmiðið er að komast hátt í 300 hrossin og jafnvel eitthvað yfir.

-Ef þú ert með original vél með lélegum heddum, úrbrædda og dasaða þá myndi ég allavega skoða að kaupa þetta tilbúið að utan frekar en að gera þetta upp hérna heima þegar NÝ 330 hp vél kostar frá 2400 $ á Summit.

-Þetta veltur allt á því hvernig vélin er á sig komin ef það þarf að bora blokkina renna sveifarásinn ofl þá er það svo fjandi dýrt en samt 2400$ mótor hjá summit fer vel yfir 300þús kr hingað kominn svo það má nú eyða aðeins í þetta.Þú getur væntanlega sloppið með borðaða blokk,rendann sveifarás og nýjar ventlastýringar fyrir um 100þús kr.

-Er ekki málið að fá sér þrykkta stimpla?

-Það fer allt eftir því hvert er takmarkið?? Keppnis,steet/strip eða götubíll.

-Þú ert best settur með hypereutectic stimpla eins og t.d keith black þá geturðu verið með þéttari clearance heldur en með þrykktum. Nema þú ætlir að gasa þetta til helvítis.

-Planið er að ná 300 gæðingum úr fjósinu og eiga samt nóg inni fyrir SC/NOS. Er semsagt verra að vera með þrykkta stimpla á kraftminni vél?

-Sælir, þrykktir stimplar eru þyngri og þá er mótorinn kominn úr ballans, sem er ekki gott, settu frekar peninginn í aftermarket álhedd og góðan knastas,og þú ferð vel yfir 300 hrossin.

15.5.09

Brennuvargur

Að brenna sinu er góð skemmtun. Alltaf var ég með eldspýturnar í vasanum á vorin. Einu sinni kveikti ég í háum húsapunti, skraufþurrum rétt hjá yngra gróðurhúsinu hennar ömmu. Þar varð skyndilega heilmikið bál. Óvænt vindhviða feykti eldhafinu í áttina til mín og ég þurfti taka á öllu mínu til að forða mér á hlaupum og slapp naumlega við að verða eldi að bráð. Grasið var á hæð við mig og sömuleiðis eldhafið. Ég man vel eftir adrenalínskotinu sem fylgdi en engin var áfallahjálpin því svona löguðu sagði maður foreldrunum ekki frá.

Alltaf bað ég afa um leyfi fyrir að brenna sinu og hann veitti það með semingi. Oftast var maður að kveikja í vegköntum og skurðsruðningum. Ég var meðvituð um að það væri ábyrgðarhluti að brenna sinu, eldinum yrði að halda í skefjum og ekki mætti kveikja í hvar sem var. Ég hafði líka lesið frásögn í Öldinnni okkar af bónda sem kveikt í sinu og brenndi óvart allt land þriggja jarða nágranna sinni, og fyrirfór sér af skömm.

Ég get aldrei alveg fundið fyrir þeirri heilögu fordæmingu sem fylgir fréttaflutningi af sinubrunum.

6.5.09

Geitarhús án ullar


Ég verð að biðja alla þá netráfandi sauði sem hafa álpast hér inn á vefsetrið að undanförnu í leit að nýju uppbyggjandi lesefni, innilegrar velvirðingar á að ekkert slíkt er hér að finna. Skyndilegu brotthlaupi mínu til Ítalíu er hér um að kenna. Góðu fréttirnar eru þær að á Ítalíu fann ég minn innri ljósmyndara og verða fleiri myndir birtar hér í framtíðinni en áður hefur tíðkast.
Fyrsta myndir er hér í tilefni af megrunarlausa deginum sem er í dag.

21.4.09

Evruland

Smjerpinkill dvelst nu a Italiu og gefur sig litt ad bloggskrifum. Regnhlifin hefur komid ser vel. Hundradogsjotiusinnumtaflan er mikid notud.

14.4.09

Tilboð

Vegna mikilla umsvifa minna á verðbréfamarkaði á árinu 2007, get ég ekki komið fyrir mig tildrögum þess að ég á 10 króna hlut að nafnverði í glæfrafélaginu Exista hf.

Í dag barst mér A4 umslag þykkt af pappír frá lögmannsstofunni Logos, þar var bréf stílað á mig persónulega, margra síðna upplýsingabæklingur á fallegum pappír auk eyðublaðs sem mér gefst kostur á að fylla út í viðurvist tveggja votta, þar sem ég fellst á yfirtökutilboð í hlut minn í félaginu. Eyðublaðið útfyllt get ég sent Logosi í sérstöku svarsendingarumslagi sem einnig fylgdi.

Kaupverðið krónur núll verður lagt á reikning minn við fyrsta tækifæri.

12.4.09

Ég og dýrið


Ég fann dautt nagdýr í eldhúsinu mínu í gær. Ekki veit ég hvort þetta er mús eða rottuungi, en hallast þó að verri kostinum. Þessi atburður örvaði hjartsláttinn aðeins eins og skiljanlegt er. Maður verður paranoid og fer að líta í kringum sig eftir fleiri óboðnum gestum. Við þá athugun kom í ljós að kettirnir sitja nú þaulsetum í þvottahúsinu þar sem er pípa í vegg skammt frá gólfi og töluvert holrúm í kring. Tilraun var gerð með að loka kettina inni og setja lítinn ostbita í holumunnann. Hann hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þar með hefur það verið staðfest. Það er íbúi í holunni. Þar sem mesta hátíð kristinna manna stendur nú sem hæst eru meindýraeyðar Reykjavíkurborgar í fríi með fjölskyldum sínum, ég verð því að búa með dýrinu enn um sinn.

31.3.09

Hýdrófíl


Það henti í góðærinu að stúlkur keyptu sér þessar þykku þungu glerkrúsir með gullnu lokunum, sem eru í einum ilmandi kassa og öðrum glampandi kassa þar utanyfir. Innihaldið lítil 50 grömm af rakakremi, dagkremi eða næturkremi.

Til að lýsa innihaldinu nánar er óhjákvæmilegt að grípa til engilsaxnesku. Kremin eru "decelerating, replumping, prodigious, anti-aging, resculpting, rebalancing, restorative, super-restorative, repairing, multi-active, firming, extra-firming, advanced extra-firming, contouring, correcting, age-defying, pore minimizing, thightening". Íslenskan, hin frjósama orðamóðir, stendur á gati, orðlaus.

Kreppan hefur frelsað okkur undan þessu neyslubulli, enda er algengt kílóverð í kringum eitthundraðþúsund. Nú er það Gamla apótekið sem hefur það sem þarf, á rétta verðinu. Rakakremið Hýdrófíl frá þeim er selt í 100 gramma ósmekklegri túpu og kostar í kringum sjöhundruð krónur. Alveg stórgott og ég mæli eindregið með því.

28.3.09

Hampur

Ef marka má fréttir er hampur aðallega ræktaður með leynd í lokuðum rýmum á Íslandi. Það er þó hægt að rækta jurtina utandyra ef marka á bókina Garðagróður, aðra útgáfu frá 1968, eftir þá Ingólf Davíðsson og Ingimar Óskarsson. Þar er þessi mynd og tegundarlýsing:
Hampur (C. sativa L.). 1 - 2 m há einær jurt með stór 5 - 9 fingruð blöð. Smáblöðin mjó og sagtennt. Blómin smá, grænleit. Úr stöngultrefjunum er unninn hampur, sem hafður er í kaðla, snæri, striga o. s. frv. Jurtin er einnig ræktuð til skrauts, vegna þess hve blaðfalleg og vöxtuleg hún er. Þarf skjól. Gott er að binda hana við prik til stuðnings. Þrífst vel. Fjölgað með sáningu.
Rétt að taka fram að það eru til mismunandi afbrigði af jurtinni. Sá hampur sem ræktaður er til iðnaðar inniheldur ekki vímuefnið svo neinu nemi. Hampur er ein fyrsta jurtin sem mannkynið tók í sína þjónustu, fyrir meira en tíuþúsund árum. Ræktun hennar hefur minnkað frá því mest var en núna er verið að horfa á að ræktun hennar er umhverfisvæn, það þarf lítið af skordýraeitri, illgresiseyði eða slíku. Plantan vex hratt og er ákaflega afurðamikil. Hægt er að nota hana á furðulega fjölbreyttan hátt, í byggingarefni, heilsufæði, föt, pappír, plastefni, og auðvitað reipi. Pappír unninn úr hampi þarf ekki að bleikja með klóri eins og þann sem gerður er út trjám.

Framtakssamir Íslendingar hafa reynt að rækta jurtina hér, gaman væri að vita hvort það hafi lukkast.

Hinir víðsýnu Bandaríkjamenn banna ræktun hamps til iðnaðarnota, án leyfa frá Fíkniefnaeftirlitinu. Verið er að reyna að breyta því.

23.3.09

Þegar vonin ein er eftir

Það vekur upp blendnar tilfinningar og margar spurningar að lesa minnisblað Seðlabankans dagsett 12. febrúar 2008 í tilefni að fundaröð starfsmanna hans í London í febrúar 2008 með bankamönnum þar í borg. Afdráttarlausar viðvaranir.

Davíð segir á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember 2008:
Þegar heim var komið var óskað eftir fundi með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, fleiri ráðherrum og embættismönnum, og fékkst sá fundur. Þar var lesin upp í heild skýrsla um ferðina sem þá var til í handriti.
Þar á hann við þetta minnisblað. Var virkilega látið duga að LESA UPP textann fyrir stjórnendur landsins? Var ekki tilefni til afhenda þeim eintak? Hversvegna kemur ekki fram hvaða fólk sat umrædda fundi í London? Það vekur raunar athygli að ekki ein einasta mannvera er nafngreind í skjalinu. Er þetta virkilega eina skriflega gagnið sem varð til í þessari Londonferð?

Nú segir Björgvin G. að hann hafi aldrei heyrt af þessu minnisblaði. Honum hefur ekki verið boðið á upplesturinn. Geir Haarde segir að það hafi ekki verið einfalt að bregðast við.

Geir Haarde brást þó við, hélt til dæmis ræðu á Viðskiptaþingi 13. febrúar 2008 (þá hefði upplesturinn átt að vera nokkuð ferskur í minni). Hann fullyrti þá að Moody´s telji fjárhagsstöðu bankanna góða. (Merkilegt í ljósi þess að fulltrúar þess fyrirtækis lýsa miklum áhyggjum af íslenskum bönkum á fundum með seðlabankafólki í þessum sama febrúarmánuði). Og Geir segir við okkur:
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir fjármálaeftirlitsins, Moody´s, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar stað­reynda­villur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum.
Minnisblað Seðlabankans endar á skáldlegan hátt:
Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.

21.3.09

Mannaþefur


Oft er fullyrt að engin lykt sé betri en sú af ungbörnum og er þar átt við nýþvegin ungbörn. Þetta er ekki í öllum tilvikum rétt. Ekki sjaldan hittir maður smáfólk sem angar langar leiðir af mýkingarefnum en lyktin af þeim er stæk. Óskiljanlegt er að vilja setja bláa, gula eða bleika ilmefnadrullu í síðasta skolvatnið, ég get ekki séð að þvotturinn komi hreinn úr vélinni eftir slíka meðferð. Ég þekki konu sem er í stökustu vandræðum með að knúsa barnabörnin af því ilmefnaáran í kringum þau er svo mikil að hún helst ekki við og leggst í mígreni eftir eiturefnaárásina. Mín kenning er sú að tölfræðilegra sé algengara að smábörn angi af mýkingarefnum en fullorðið fólk þar sem það noti frekar á sig ilmvötn og rakspíra en slíkt þykir víst ekki enn við hæfi að úða á smádýrin. Hvernig er hægt að segja foreldri að óþefur sé af barninu?

18.3.09

Lenor

Mýkingarefni eru illþefjandi óþarfi sem þó selst grimmt. Samt væri örugglega mun meiri markaður fyrir auðmýkingarefni.

16.3.09

Vort daglega brauð



Brauð fyrst.

Þessari reglu var fylgt eftir á mínu bernskuheimili. Hún felur í sér að þegar bæði kökur og brauð eru á kaffiborði, á maður að fá sér brauð áður en maður fær sér köku. Nægilegt var að fá sér eina brauðsneið. Brauðin voru þessi: Franskbrauð, heilhveitibrauð, normalbrauð og maltbrauð. Ég get ekki gleymt því hvað mér þótti heilhveitibrauðið andstyggilega vont á bragðið, en því var mikið haldið á lofti hve hollt það væri. Þetta heilhveitibrauð sem þá var bakað var alveg óskylt þeim brauðum sem fást í bakaríum nútildags. Það var sívalt, ekki bakað í formi, dökkbrúnt, hart og seigt undir tönn, eins og það væri úr hefilspónum. Aveg sérstakt óbragð af því sem ég hef ekki fundið af öðru matarkyns. Normalbrauðið fannst mér gott, það var ákaflega háreist og skorpan svo hörð að næstum var útilokað að vinna á henni. Franskbrauðið var best, með smjöri og rabarabarasultu.

Þetta voru svokölluð vísitölubrauð. Bakarar áttu alltaf að hafa þessi brauð á boðstólum á tilteknu verði.


15.3.09

Fjórðungi til nafns

Þegar ég í fyrsta skipti á ævinni eignaðist peninga voru þeir afhentir Búnaðarbankanum til varðveislu og ávöxtunar. Það var andvirði tveggja dilka. Ég var tryggur viðskiptavinur bankans og datt aldrei í hug að beina viðskiptum mínum annað. Einn góðan veðurdag seldi ríkið Búnaðarbankann. Hann hefur gengið undir nokkrum nöfnum síðan, Kaupþing Búnaðarbanki, KB banki og Kaupþing og kannski einhverjum öðrum. Um daginn heyrði ég hann kallaðan Kriminal Banken.

Ég er víst í viðskiptum við Nýja Kaupþing í dag og verð að viðurkenna að ég finn ekki fyrir minnstu tryggð í garð þess fyrirtækis. Merkilegt að enginn skuli hafa hringt og boðið mér að skipta um banka. Það eru kannski engir aðrir bankar.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er í bígerð að finna nýtt nafn á Nýja Kaupþing. Glitnir er búinn að breyta sér í Íslandsbanka. Lárus Welding er orðinn Snorrason á ný.

Fyrri nafnbreytingar bankans upplifði ég sem markaðstrikk, en nafnbreyting núna er af sama toga og þegar glæpamenn breyta um nafn þegar þeir hyggjast hefja nýtt líf. Ég spái því að viðskiptabanki minn muni verða vatni ausinn og nefndur Búnaðarbankinn. Auglýsingaherferð mun fylgja í kjölfarið.

Það er ofureinfalt að breyta um nafn; eitt eyðublað hjá þjóðskránni.





14.3.09

Leitin að eldinum

Eva Joly segir í norsku viðtali sem spilað var í fréttunum áðan að sérstaki saksóknarinn fái ekki upplýsingar hjá fjármálaeftirlitinu vegna bankaleyndar. Ekki í fyrsta sinn sem erlendir fjölmiðlar færa okkur mikilvægar fréttir í tengslum við bankahrunið. Sérstaki saksóknarinn hefur sennilega sagt Evu Joly þetta í viðræðum sem þau áttu í ferð hennar hingað til lands. Mér er spurn afhverju hann upplýsir ekki um þetta opinberlega af eigin frumkvæði. Þetta kemur okkur öllum við. Allir (eða flestir a.m.k.) vilja að hann nái árangri í sínu starfi og að hann fái öll tæki og úrræði til að svo megi verða.

Það er greinilegt að hér er komið tilefni þess að dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi í fyrradag frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan saksóknara, þar sem tiltekið er að hann eigi að geta fengið allar upplýsingar sem hann óskar frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins og fleiri aðilum sem upp eru taldir. Ég les á milli línanna að þessar stofnanir hafi ekki sýnt sérstaka saksóknaranum á spilin sín.

Mér finnst augljóst að það verði að sameina þá aðila sem eiga að rannsaka refsiverða háttsemi í tengslum vegna bankahrunsins og mynda sterka heild þar sem allir leggja saman. Það er flestum óskiljanlegt að búið hafi verið til sérstakt embætti, örembætti, til að rannsaka þessi mál, í stað þess að stórefla efnahagsbrotadeildina.


9.3.09

Painkiller

Ég hlustaði á Matthías landlækni segja í fréttunum að öll lyf væru hættuleg og þessvegna væru þau lyfseðilsskyld. Hann bætti því reyndar við að þau ólyfseðilsskyldu væru líka hættuleg. Ég get sagt eina sögu af því.

Það er búið að banna manni að kaupa Parkódín af því til er fólk sem misnotar það lyf. Einu sinni sem oftar var mér illt í bakinu og þá ákvað ég að kaupa Panodil. Mátti reyna það, byrjar hvortveggja á pé. Mér hafa alltaf líka alltaf þótt umbúðirnar utan um það frekar laglegar. Ekki var Panodilið mikilvirkt svo ég tók alltaf tvær í senn og lét ekki líða langt á milli. Ég sá á umbúðunum að það mætti taka 1-2 stykki, 1 til 4 sinnum á dag, þ.e. mest 8 stykki á dag og hugsaði með mér að auðvitað mætti taka aðeins meira en segði þar, það væri aldrei sagt frá því hvað væri raunverulegt hámark. Svona svipað og þegar stendur á matarumbúðum að eitthvað sé best fyrir tiltekinn dag, þá er yfirleitt allt í lagi að borða það nokkrum dögum seinna.

Þegar ég fór til læknis og nefndi þetta, þá sagði hann, og var alveg rólegur á meðan, að það væri hægt að deyja af minnir mig 12 stykkjum af Panodil á dag. Bara si svona. Ég spurði hvort hann væri að meina svona endanlegan dauða í eitt skipti fyrir öll og já, hann var einmitt að meina það. Mér brá aðeins við að hafa lent svona við dauðans dyr án þess að hafa vitað af því en get a.m.k staðfest að þessi skammtur eða jafnvel dálítið stærri, er ekki í öllum tilvikum banvænn.

Það hafa nú verið settar hauskúpur á varning af minna tilefni verð ég að segja.

7.3.09

Þúsund þorskar

Forsíðan á þessu aukablaði sem fylgdi Mogganum í gær vakti athygli mína. Ég hef verið viðstödd fáeinar fermingarathafnir í kirkjum hér í borg og þær hafa verið töluvert frábrugðnar þeirri fallegu og persónulegu athöfn sem sýnd er á myndinni.

Yfirleitt er verið að ferma nokkra tugi fermingarbarna í senn og til þess að athöfnin taki ekki marga klukkutíma er verða hlutirnir að ganga smurt. Flokkar fermingarbarna ganga viðstöðulaust og án tafa fyrir prestinn sem segir hraðmæltur mjög "viltuleitastviðaðfremstamegni aðhafajesúkrist aðleiðtogalífsþíns" og um leið og jáið kemur útúr barninu þá kemur bunan um að vera "trúralltildauða".

Það myndi ekki þýða að bjóða upp á svona skírnir eða giftingar svo mikið er víst.

6.3.09

Prinsessan sem átti 365 kjóla

Það er gott til þess að vita að kreppan hefur ekki bitið alla jafnilla og að gamla Ísland lifir ennþá, sumir halda sínu striki, blessunarlega ósnortnir af þeirri bylgju endurskoðunar á lífsgildum sem hefur dunið yfir okkur.

Hvað segir það um Bretaveldi að þar skuli ekki finnast einn einasti brúðarkjóll samboðinn íslenskri snót sem er að fara gifta sig og það í annað sinn? Í anda gamla Íslands lætur hún ekki bugast og ráðgerir ferð til Rómaborgar til að leita að kjólnum eftir að Bretland hefur verið fínkembt, en sér sig um hönd á síðustu stundu og fer í staðinn til Flórída í kjólaleit, enda vill hún fá stóran og mikinn kjól. Hann hlýtur að vera til á Flórída.

Eftir því sem hér segir, ætlar Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur að gifta konuna þrátt fyrir að hún sé þegar í hjónabandi, en hún og maður hennar giftu sig í Hollandi. Það er samkvæmt hjúskaparlögum óheimilt að vígja mann sem er í hjúskap. Það á ekki síður við þó "hjónaefnin" séu gift hvort öðru. Slíka athöfn má með góðum vilja kalla blessunarathöfn en hjónavígsla er það ekki. Við skulum vona að frétt Vísis sé röng um þetta atriði og ekki verði framkvæmd "aukagifting" í Dómkirkjunni.

Það er ekker einsdæmi að konur vilji gifta sig í stórum kjólum. Hér er glæsilegt dæmi.

4.3.09

Ofurkraftur

Ég finn fyrir því að líkamsræktin sem ég er nýbyrjuð að stunda ýtir undir mikilmennskubrjálæði. Alveg blygðunarlaust stíg ég á brettið og geng þar á hraða 5,3, þó mér til hvorrar handar hlaupi íturvaxin ofurmenni og –kvendi á hraðanum 12,5.

Um daginn þegar ég ýtti á takkann á bíllyklinum, slokknaði umsvifalaust á öllum ljósastaurunum á bílastæðinu fyrir utan ræktina.

25.2.09

Bragð er að þá barnið finnur

Ég vinn á opinberri stofnun, þangað kom mér vitanlega ekki einn einasti dulbúinn krakki í dag til að syngja og sníkja nammi. Auðvitað var ekkert nammi til, en hvernig vissu börnin það? Getur verið að börn syngi bara í einkafyrirtækjum en sneiði hjá ríkisstofnunum?

24.2.09

Gullfoss í Hrunamannahreppi

Margt góðra gripa var til sölu í Kolaportinu á sunnudaginn var. Ég stóðst ekki þá freistingu að kaupa árbók Ferðafélags Íslands 1956 þar sem fjallað er um Árnessýslu milli Hvítár og Þjórsár. Gísli Gestsson reit. Hún kostaði 500 krónur.

Rétt er að halda því til haga að mér tókst að neita mér um ótalmargt sem mig langaði að kaupa, þar á meðal voru frosnar fiskibollur, mynd af Maríu mey með barnið og allnokkrir gullfallegir mokkabollar.

Í árbókinni segir:
Vissulega er betra að skoða Gullfoss vestan ár, en enginn þekkir þó Gullfoss, sem hefur ekki séð hann frá báðum hliðum. Landslagið neðan fossins þykir mér fegurra austan árinnar, og einnig nýtur gljúfrið sín betur úr þeirri átt.
Ég hef alltaf farið út í Tungur til að skoða Gullfoss en auðvitað á það að vera metnaðarmál fyrir Hrunamenn að skoða hann frá sinni hlið.

23.2.09

Lög og regla

Ég átti erindi á salerni á líkamsræktarstöð um daginn, ætlað konum. Þar hékk uppi listi yfir muni sem óheimilt var að varpa í salernið. Meðal annars kom fram að málmhlutum mátti ekki farga með þeim hætti, né heldur plastpokum. Ég geri ráð fyrir að listinn hafi verið útbúinn "að gefnu tilefni".

Það er varasamt að hafa lista yfir það sem er bannað of langa. Lesendur listanna gætu freistast til að beita á listana þeirri túlkun sem í lögfræði er kölluð gagnályktun. Í þessu tilviki myndi slík túlkun leiða til þess að talið væri heimilt að henda öllu í salernið sem ekki fyndist á listanum.

Hin klassíska regla „allt er bannað nema það sé sérstaklega leyft“ á hér betur við, enda er hægt að útbúa örstutta tæmandi talningu á því sem heimilt er að setja í klósett.

18.2.09

Computer says no

Ég hef mikið dálæti á íslensku tölvumáli. Stundum er reglulega gaman að fá skilaboð um villur og vandræði:
Villa: Óvæntar slóðarfæribreytur hafa komið upp og verða hunsaðar.

Engin eftirlæti hafa verið valin. Nota þarf hnappinn "Breyta eftirlætum" til að setja upp eftirlæti.

Þjóðin tjáir sig

Júróvisjónlagið í fyrra hét á íslensku Fullkomið líf.

Lagið í ár heitir í minni þýðingu Er þetta (virkilega) satt.

Is it true?
Is it over?
Did I throw it away?

17.2.09

Hrossakjötsnautn


Ég sannreyndi það um helgina, rétt eins og kom í ljós í könnuninni sem ég hef staðið fyrir hér á spássíunni, að Íslendingum finnst saltað hrossakjöt mikill öndvegismatur. Saltað hrossakjöt var á 30% afslætti í Bónus þannig að kílóið var einhversstaðar í kringum 500 kallinn. Það er því sannkallað kreppukjöt. Töluvert af fagurgulri fitu fylgir með enda er hún er ómissandi. Það er eftirtektarvert að hrossafita er alltaf mjúk. Það myndast ekki skjöldur ofan á pottinum þegar soðið kólnar,fitan er meira eins og olíulag. Hér segja vísindamennhrossafitan innihaldi töluvert minna af mettaðri fitu og meira af ein- og fjölómettuðum fitusýrum en lambafitan. Það væri þó óvarlegt af mér að lýsa því yfir hér að hrossafita væri holl fita. Ég veit þó dæmi þess að fólk hafi neytt óhemju magns af henni án þess að kenna sér meins. Þó ég hafi enga fyrirvara við að setja hrossafitu oní sjálfa mig, þá vefst fyrir mér hvar ég á að hella úr pottinum, hnausþykku fitulaginu sem flýtur þar ofan á soðinu, ég þori ekki að setja það í vaskinn né önnur niðurföll innandyra.

Af óviðráðanlegum ástæðum get ég ekki vitnað hér í Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson þó það væri viðeigandi. Þar er fjallað ítarlega um hrossakjötsát.

13.2.09

Sláturhús

Læknar á St. Jósefsspítala virðast hafa komið ár sinni vel fyrir borð og eru með afkastahvetjandi launakerfi. Aðrir starfsmenn spítalans eru það ekki.

Þetta var líka svona í sláturhúsinu í Laugarási í gamla daga. Fláningsmennirnir, unnu í akkorði og fengu greitt eftir afköstum, en þeir sem voru á eftir þeim á færibandinu, voru á tímakaupi. Ef maður setur sig í spor vinnuveitandans, þá er þetta ansi snjallt fyrirkomulag. Stundum spurðist út að morgni að fláningsmenn ætluðu sér að ná metafköstum þann daginn. Það var ekki vinsælt hjá tímavinnumönnum.

Einu sinni þáði ég læknishjálp á nefndum spítala. Ég man eftir að hafa verið beðin að skrifa undir yfirlýsingu því til staðfestingar að læknir hafi rætt við mig um fyrirhugaða læknisaðgerð, og að ég gerði mér grein fyrir mögulegri áhættu af henni. Ég hafði ekki haft tal að lækni á stofnuninni þegar þetta var, en ég þorði ekki annað en að skrifa undir af ótta við að læknisverkið lenti í uppnámi.

11.2.09

Matarkast

Stundum eru raufarnar í hellulögninni fyrir framan dyrnar að vinnunni minni fullar af hrísgrjónum. Svo hverfa þau einhvernveginn, ég veit ekki hvort það eru fyrir tilverknað starra eða húsvarðarins.

Hrísgrjón að morgni eru óræk sönnun þess hvaða embættisverk var unnið daginn áður.

9.2.09

Vorvindar glaðir

Nú er ég búin að sá til steinselju, korianders og basiliku, óvenjulega snemma. Oftast sái ég of seint, í ár gerði ég það of snemma. Ég er sannfærð um að það verður í lagi. Þetta fer allt saman vel.

7.2.09

Lækkert


Mér áskotnaðist lítið og laglegt kver í dag, úr ritröðinni Becks Husmodersbibliotek. Það heitir 21 kaffeborde - 100 lækre kageopskrifter, útgefið 1957 í Danmörku. Þar er þessi dæmalaust fallega mynd.
At samle sine venner omkring et pænt kaffebord er nemt og hyggeligt.
Þetta fer að mínu mati aðeins fram úr því að vera "pænt" og "nemt" en er vafalaust "hyggeligt" fyrir gestina.

5.2.09

Matarhola

Kona sem ég þekki átti þetta samtal fyrir nokkrum dögum þegar hún var að borga fyrir þjónustu á LSH - Landsspítala - háskólasjúkrahúsi:

"Já ég sé hér að þú vinnur á Landsspítalanum"
"Nei, ég er reyndar hætt þar"
"Þá eru þetta 11 þúsund krónur"
"Hvað hefði þetta verið er ég hefði ennþá unnið á spítalanum"?
"Þá hefðir þú fengið helmings afslátt"

2.2.09

Rúmfatalagerinn

Skyldu þeir selja hér út í Skeifu sængur með fiðri af gæsunum sem plokkaðar eru lifandi í Ungverjalandi?

Ekki er hægt að bera saman verðið á sæng fylltri gæsadúni og íslenskum æðardúni, sem fenginn er með sjálfbærri nýtingu náttúrugæða. Margt sem við kaupum á góðu verði, hefur verið dýru verði keypt fyrir aðra, jafnt menn sem málleysingja.

Það virðist vinsælt að pína gæsir í hagnaðarskyni, þeir sem hafa lyst á fois gras, treysta sér væntanlega til að horfa á þetta.

1.2.09

Frakkland - Króatía

Auðvitað er mikilvægara fyrir þjóðina að horfa á þessar ágætu þjóðir spila handboltaleik, en að horfa á blaðamannafund og heyra hvað nýji forsætisráðherrann hefur að segja.

Eitt augnablik eftir að skipt var yfir á handboltann hélt ég að "tæknin væri aðeins að stríða okkur" en svo rann hinn bitri raunveruleiki upp fyrir mér. Við svona uppákomur magnast upp efinn um að þessi ríkisrekni fjölmiðill sé peninganna virði.

Núna er staðan 18-18 í leiknum. Spennan er óbærileg. Fernandez er kominn inn á aftur hjá Frökkum.

27.1.09

Tími öskupokanna mun koma

Það er mikið áhugamál mitt að endurvekja hinn séríslenska, skemmtilega og ódýra sið, að hengja öskupoka á fólk á öskudegi. Vér fullorðnir getum ekki með fullri reisn sníkt nammi í búðum á öskudaginn, reyndar geri ég ekki ráð fyrir að kaupmönnum verði útbært ókeypis nammi núna í kreppunni. Öskudagurinn á líka að vera til skemmtunar fyrir fullorðna, óþarfi að leyfa börnunum að sitja einum að hátíðinni. Það geta allir skemmt sér við að hengja öskupoka á vini, samstarfsmenn og ekki síst ókunnuga. Virðulegur maður eða kona með öskupoka á bakinu vekur alltaf upp bros í munnviki.

Öskupokar geta einnig fengið rómantískt hlutverk. Þegar afi minn, Emil Ásgeirsson, var ungur maður á bændaskólanum á Hvanneyri, fann hann fagurlega bróderaðan öskupoka hangandi á bakinu á sér. Í honum leyndist bréfmiði með vísu:

Afbrýðisemin ergir mig
engan má það gruna.
Allar stúlkur elska þig
Emil minn frá Hruna.

Það hefur ekki verið upplýst enn þann dag í dag hver var þarna að verki. Engar stúlkur gengu í bændaskóla þá en einhverjar hafa verið þar við störf geri ég ráð fyrir. Hann átti reyndar kærustu þarna, dóttur skólastjórans.

Til að auka veg öskupokanna hefur mér dottið ýmislegt í hug. Á meðan góðærið geisaði datt mér í hug það þjóðráð að panta nokkur þúsund stykki frá Kínaveldi, en þar mun vera hægt að fá framleiddar gegn vægu gjaldi ýmsar nauðsynjavörur fyrir okkur vesturlandabúa. Núna hafa aðstæður breyst þannig að óskynsamlegt virðist að eyða dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar með þessum hætti. Ekki er um annað að ræða en að sauma öskupoka upp á gamla mátann og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Það kemur sér núna vel að hafa aldrei getað fengið sig til að henda efnisbút. Ég fullyrði að hér á heimilinu leynist hráefni í þúsundir öskupoka, þó auðvitað muni ég ekki geta saumað úr því öllu.

Leiðbeiningar um gerð öskupoka er að sjálfsögðu að finna á hinu undursamlega interneti.

23.1.09

Berjum niður verðið

Alltof oft hef ég fundið þá gremjutilfinningu sem fylgir því að sjá eitthvað boðið til sölu á miklu lægra verði en var rétt áður borgað fyrir sama hlutinn. Mér finnst það sjaldnar vera á hinn veginn.

Nýlega gerði ég mér ferð í Bónus gagngert til að kaupa rúðuvökva á bílinn. Taldi að þar hlyti hann að vera ódýrastur. Konan á eftir mér í röðinni mundi allt í einu eftir því að hana vantaði rúðuvökva þegar hún sá mig með brúsann. Meðan ég beið í röðinni hugsaði ég um hvað ég væri vitlaus að gera mér sérstaka ferð í Bónus útaf svona smáræði, sennilega til að spara hundraðkall.

Brúsi með 2,5 l kostaði eitthvað í kringum 330 kall. Í Húsasmiðjunni, hinumegin við götuna, sá ég skömmu síðar jafnstóran brúsa boðinn til sölu á krónur 1.399. Um leið og hneykslunarbylgja fór um mig alla varð ég svo glöð yfir að hafa farið í Bónus.

Til að allrar sanngirni sé gætt þá skal tekið fram að Húsasmiðjuvökvinn var með sítrónuilmi en Bónusvökvinn var með hefðbundinni rúðuvökvalykt.

14.1.09

Öskudagur og títuprjónar

Í gær áskotnaðist mér box af gömlum títuprjónum sem eru þeirrar náttúru að hægt er að beygja þá án þess að þeir brotni. Nýframleiddir títuprjónar brotna ef reynt er að beygja þá. Þegar ég var 10 ára voru títuprjónar sem bognuðu þegar orðnir vandfundnir, það var helst í rykföllnum blikkdósum hjá ömmu.

Ég tel það ótvírætt að notkun öskupoka á Íslandi hafi fjarað út vegna óæskilegra breytinga á títuprjónum, eins og hér er haldið fram. Nauðsynlegt er að beygja títuprjón til að búa til öskupoka. Það er mikill skaði þegar tapast séríslenskir siðir eins og öskupokasiðurinn.

Legg ég nú til að allir sem saumnál geta valdið taki nú til við að sauma öskupoka til að nota á næsta öskudegi. Það er reglulega góð skemmtun að hengja þá á grunlausa. Líklega er hægt að nota pínulitlar gular nælur í staðinn fyrir títuprjóna.

Á öskudeginum komu sumir kennararnir í skólann í ullarpeysum. Aðrir komu í jökkum úr mjög þéttofnum efnum sem vonlaust var að stinga í gegnum.

4.1.09

Árið 2008

Verstu kaup ársins voru Hómer ástargaukur.
Mesta skömm ársins var þegar ég þurfti að fara þrjár ferðir eftir vegabréfi sonarins og missti stjórn á mér í afgreiðslu opinberrar stofnunar.
Vanræksla ársins var að þvo bílinn bara einu sinni.
Aumingjaskapur ársins var að fara ekki í löngu tímabært dómsmál við nágrannann útaf sitkagreninu sem gnæfir yfir lóðina mína.
Veikindi ársins voru þursabit.
Mesti viðbjóður ársins var franski kálfshausinn.
Dónaskap ársins í minn garð sýndi kassastelpan sendi sms um leið og hún skannaði nýlenduvörurnar sem ég var að kaupa.
Klaufalegast á árinu var þegar týnda yfirhöfnin mín reyndist hanga á snaga í fatahenginu.
Hræddust var ég á árinu sem leiðbeinandi í æfingaakstri.
Mesta leti ársins er að taka bilaða lyftu upp á 3. hæð.
Vonbrigði ársins voru að Reykjavíkurborg skyldi láta Vöku taka bifreið sonarins, þó hún stæði um stundarsakir númerslaus á hlaðinu.
Niðurlæging ársins var að fá ekki svar við margítrekuðu kvörtunarbréfi til Reykjavíkurborgar vegna ofangreinds atviks.
Hræðilegasta hljóð ársins heyrðist þegar maður skrapaði rúðugler með málmsköfu, hvar ég sat fyrir innan við fimmta mann.
Blóm ársins voru túlipanarnir sem blómstruðu fagurlega síðasta vor, þó ég hafi fengið versta þursabit ævinnar við að grafa þá niður.