Ég opnaði áðan rit hans Mannfækkun af hallærum og við mér blasti á blaðsíðu 107 umfjöllun hans um tengsl óhóflegrar hrossakjötsnautnar og hungurdauða:
Það var segin saga, að hrossakjöts-ætur vóru þeir fyrstu sem á þessum hallæris-árum í harðrétti útaf dóu. Orsökin var augljós, að af því þessi nautn var almennilega álitin óheiðvirð, þóttust þeir, er hana brúkuðu, eigi skyldugir til, vóru eigi heldur svo vandir að breytni sinni, að þeir vildu brúka sómaaðferð og sparneytni í þessari matartekju, heldur a) átu sumir en sjálfdauðu og stundum úldin hræ, er horfallin voru aldrei matarhæf, síðst eptir að þau höfðu hálfdauð með blóði og gori legið eitt og annað dægur eða máske eigi allfá á víðavángi, þó vóru dæmi til, að slík væru etin. b) Tilbúningur, sem nærri má geta, var ekki ætið vandaður. c) Og það sem mest olli bana þeirra, er lögðu sér hrossakjöt sér til munns, óhófið, því þeir, sem í hrossakjötsát lögðust, gjörðu það flestir með græðgi, álítandi sér ekki ofgott eður sparandi, þar sem almenningur kallaði óæti, og því vóru sumir, sem annars höfðu fáa menn í heimili, er á vetri lögðu í búið 20, 30 og fleiri hófdýr, seldu þeir bæði fé, kýr og fisk fyrir ótemjur, sem þá fengust með góðu verði; af því óhófi hlauzt það, að þegar hrossin féllu og fengust eigi lengur, þoldu slíkar manneskjur húngur verr en aðrar, útstóðu meiri pínu og dóu fyrr. Eg efast því um, að hrossakjöt svo brúkað hafi viðhaldið nokkurs enn síður margra lífi.
2 comments:
Þetta á auðvitað vel við í ljósi veislunnar á Hótel Varmahlíð í kvöld.
Kveðjur frá gömlum svepp.
Já, ég sé það núna. Þeir ætla aldeilis að úða í sig hrossakjötinu. http://www.hestafrettir.is/Frettir/5098/
Post a Comment