27.10.08

Við stofuhita

Þær mikilvægu upplýsingar láku rétt í þessu frá túpusjónvarpinu mínu að 80% af orkunni úr matnum sem menn borða fari í að halda jöfnum hita á líkamanum. Í krafti þeirrar grunnmenntunar sem íslenska ríkið lét planta í hausinn á mér, tel ég mig geta fullyrt að meiri orka fari í að hita líkamann eftir því sem umhverfi hans er kaldara.

Hér blasir við það einfalda megrunarráð að lækka hitann í íbúðinni um nokkrar gráður. Líkaminn þarf þá að nota meiri orku til að halda á sér hita. Mikilvægt er að spilla ekki megrandi áhrifum kuldans með því að liggja undir ullarteppi í sófanum.

Mér sýnist það spennandi rannsóknarefni fyrir Lýðheilsustofnun (með myndarlegum fjárstyrk frá Orkuveitu Reykjavíkur) hvort greiður aðgangur Íslendinga að ódýrri orku til húshitunar hafi aukið á offituvanda þjóðarinnar.

No comments: