8.11.08

Nýr lífsstíll

Ég er ekki búin að aðlagast til fulls nýjum krepptum lífsstíl. Hingað til hef ég keypt í þar til gerðum sérverslunum hágæða fóður handa heimilisköttunum, hæfandi þeirra aldri, holdafari og lífsstíl. Öll lífsnauðsynleg vítamín og steinefni til að tryggja feldheilsu, greiða framvindu meltingar og starfsemi nýrna. Fóðrið er ekki búið til úr beljuheilum og rollujúgrum, þaðan af síður finnst í því kjúklingaskítur og má af því ráða þvílík gæðavara þarna er á ferðinni. Ég keypti 15 kg poka nýverið fyrir krónur 11 þúsund íslenskar og skrifa þetta mér til hjálpræðis gegn því áfalli. Pokinn kostaði hvorki meira en minna en tvöfalt meira en sá síðasti sem ég keypti. Það þurfa allir að færa fórnir í kreppunni og nú er komið að Putta og Fúsa að leggja sitt að mörkum, þeir munu í framtíðinni þurfa að éta andstyggðarinnar Whiskas tros úr Bónusi.

Hágæða fóðrið er einnig þeirrar náttúru að sá sem það étur, skítur skít sem ekki lyktar eins skítlega og annars væri. Það hefur aukið á mín lífsgæði, því þó að þessar losanir fari oftast fram í blómabeðum, þá kemur einstöku sinnum fyrir að innandyra er lagður mótmælaskítur, helst þegar gleymst hefur að fóðra.

Einu sinni las ég um það að lyfjum með samskonar verkun væri útbýtt á japönskum elliheimilum.

No comments: