Ég hef ákveðið að leggja fyrir mig í meira mæli sagnfræðirannsóknir, með sérstakri áherslu á mína persónu. Stimpilgjöld hafa komið við sögu í mínu lífi með margvíslegum hætti.
Fyrir 25 árum eða svo þinglýsti ég eitt sumar í afleysingum á sýsluskrifstofunni á Selfossi auk þess sem ég útdeildi sektum fyrir umferðarlagabrot í héraðinu, sem ekki var síður lærdómsríkt. Einn af starfsmönnunum hét Ólafur Helgi, hann var töluvert neðar í fæðukeðjunni þá en nú. Þarna lagði ég á stimpilgjöld í fyrsta sinn og límdi litfögur stimpilmerki því til staðfestingar á hin stimpilskyldu skjöl enda óhemju mikilvægt er að skjal beri það greinilega með sér að stimpilgjald hafi verið greitt.
Verðbólga hafði leitt til þess að hinar stimpilskyldu upphæðir höfðu hækkað, en þeirri hækkun hafði ekki verið nægilega fylgt eftir með prentun á stimpilmerkjum með hærra verðgildi. Stundum var því töluvert föndur að líma merkin á skjölin og varð að nýta vel hvern auðan blett. Eftir á að hyggja er langmerkilegast að mér og öðrum þótti þessi iðja bæði sjálfsögð og eðlileg.
Þegar ég hóf síðar að þinglýsa í höfuðborginni, reyndist álagning stimpilgjalda öllu tæknivæddari. Mikil maskína úr pottjárni, af breskri gerð, framleidd 1952, skilaði rauðum ferköntuðum stimplum á hina stimpilskyldu pappíra. Það var þó vandamál að upphæð stimpilgjaldanna steig hratt, en stimpilvélin réði aðeins yfir fimm stafa tölum. Stundum var óhjákvæmilegt að útsvína plöggin með ótal stimplum. Til framfara horfði að fá nýja vél sem stimplaði sex stafa tölur, en samt þurfti stundum að stimpla skjöl í bak og fyrir því upphæðirnar hækkuðu sífellt.
Þyki einhverjum stimpilgjöld vera alger fornöld þá er það einmitt rétt. Því til staðfestingar er meðfylgjandi mynd af matskeið sem ég keypti mér á eBay áður en krónan hrundi. Skeiðin er stimpluð með vangamynd Georgs III Bretakonungs, sem ríkti árið 1816 þegar hún var smíðuð í London. Neðsti stimpillinn með mynd konungsins er til marks um að honum hafi verið goldin tilskilin gjöld af silfrinu.
Að lokum skal þess getið að stimpilgjald af 84 milljarða króna láni með vöxtum hefði orðið kr. 1.260.000.000.
No comments:
Post a Comment