15.12.08

Gjafir

Er það mikið afrek að finna jólagjöf á minna en kr. 5.000? Ég myndi kíkja á síðuna ef hún héti undir2000.is. Jólagjafirnar í ár mega ekki fara upp fyrir þá tölu og eiga helst að vera þar vel undir. Það er meira fyrir því haft að gefa ódýrar jólagjafir heldur en dýrar.

Glereggið sem Ólafur Ragnar Grímsson gaf Hillary Clinton er metið á 300 dollara í skrám yfir mótteknar gjafir árið 1999. Ætli hefði ekki verið jafngott að gefa henni ullarsokka. Ég verð að játa að ég hef ákveðinn skilning á þeirri ráðstöfun að selja eggið á Ebay. Þetta er ein af þeim gjöfum sem er bara stillt upp í stofuglugganum þegar gefandinn kemur í heimsókn.

Í nefndri skrá kemur fram að Írar gáfu Clinton 15 tommu háa postulínsstyttu af kvendansara með dökkt sítt hár, klædd hvítu tjullpilsi, hún stendur á kletti og er umkringd lundum. Moldóvar gáfu þeim myndarlegt landslagsmálverk í gylltum ramma sem sýnir geitahirði með hjörð sína að haustlagi.

Ég sé fyrir mér gríðarmiklar skemmur Hvíta hússins, með hillurekkum uppúr og niðrúr, sem svigna undir gagnslausum gjöfum af þessu tagi.

No comments: