11.9.08

Undir háfjallasól

Ég var hvít og vildi vera brún. Í ljósabúð í Suðurveri fékkst háfjallasól í líki risastórrar rauðrar peru sem var einfaldlega skrúfuð í mosagræna Luxo lampann (þó að innan á skerminum stæði max 60w). Svo átti að byrja rólega, lengja tímann smámsaman. Ég var 18 ára eða svo, vann sjö daga í viku á hótelinu. Eitt kvöldið lagðist ég örþreytt í rúmið á brókinni og fór í sólbað. Vaknaði kl. fjögur um nóttina af einhverjum ástæðum og slökkti þá á sólbaðinu.

Næstu dagar og vikur voru litrík. Ég var skaðbrunnin allan hringinn niður að hnjám. Fyrsta daginn var skærbleikt ríkjandi litur, síðan yfir í rautt, blóðrautt, pósthúsrautt, nautakjötsrautt og jafnvel fjólublátt á köflum. Þegar hámarksbruna var náð komu fram nýjir litir, indíánarautt, múrsteinsrautt, rauðbrúnt og yfir í rónabrúnan leðurlit. Svo byrjuðu hamskiptin. Dökkbrúna leðrið datt af í stórum stykkjum og undan kom í ljós kom nýr rauður litur, hann varð síðan brúnn, flagnaði aftur og og undan kom aðeins ljósari rauður litur og þannig koll af kolli. Ég var skjöldótt vikum saman og var að sjálfsögðu kölluð Rúna brúna allt þetta sumar og jafnvel lengur.

Þetta var alveg órúlega vont. Ef þetta gerðist í dag myndi ég vilja leggjast á spítala með morfín í æð. Ég fór ekki til læknis og lá bara fáeina daga undir laki heima. Mamma smurði á mig einhverju sem læknirinn sendi með rútunni. Þetta sumar gekk ég í víðum fötum og notaði nærbuxur af pabba.

Ég þótti ekki nógu frambærileg til að servera í sal svona útlítandi (það var svo hár standardinn á Hótel Flúðum) en var höfð lengi í eldhúsinu. Ég man hvað það var óþægilegt þegar ég tók fulla grind af heitu leirtaui út úr Hobart vélinni og sjóðandi gufan réðist á mig.

Ummerkin voru greinileg í mörg ár og sjást aðeins ennþá. Ég hef ekki orðið almennilega hvít aftur. Þetta var ekki í síðasta sinn sem ég notaði háfjallasólina og ekki í síðasta sinn sem ég brenndi mig í henni.

No comments: