24.8.08

Rannsóknarferðir

Ég sá Surtsey gjósa í Þjóðmenningarhúsinu, gekk á grasi innandyra, sá þvottavélar utandyra, talaði við mann sem ég hef ekki hitt í 15 ár og svo fór ég í bókabúð Braga og keypti ekkert, en það var erfitt. Ég sá ljómsveit headbanga á húsþaki og full þvergata af marglitum regnhlífum horfði á. Það var par inni í Tourist Information Center að kyssast ákaflega og mér fannst að þau hlytu að vera útlendingar. Ég leit í nokkrar búðir sem selja notuð föt, það er sama lyktin í þeim öllum. Lítið notuð gæruúlpa var til sölu í Rauða Krossinum.

Til samanburðar heimsótti ég landbúnaðarsýninguna í dag. Þar hitti ég ýmis húsdýr og líka töluvert af fólki sem ég þekki. Það var boðið upp á meira að borða á landbúnaðarsýningunni en á menningarnótt. Nautið sem var grillað heilt á teini eins og í bíómynd eftir Hrafn Gunnlaugsson, var síðan framreitt á tannstönglum í hæfilegum munnbitum. Fulltrúi Landsvirkjunar gerðist svo djarfur að afhenda mér áróðursbækling. Ég lét glaðbeitta konu kjafta inn á mig áskrift að Húsfreyjunni og tók þátt í getraun Sambands sunnlenskra kvenna um hve margir ánamaðkar væru á einum fermetra í grónu túni. Ég sagði 250. Býflugnalæknirinn Egill var þarna og ég keypti íslenskt hunang.

Sérstaka athygli mína vakti stóðhesturinn Goði, hann var kynntur sem sá hestur sem hefur hlotið hæstu einkunn fyrir sköpulag. Hann er þá væntanlega fallegasti hestur á Íslandi. Alveg var hann gullfallegur. Hárafarið var einstakt, hann virtist flauelsklæddur. Hann er fínlegur, grannur og delikat. Eins og glæsilegt módel með anorexíu.

1 comment:

Anonymous said...

Það gleður mitt kvenfélagskonuhjarta að þú gerðist áskrifandi að Húsfreyjunni.
Sjáumst. Kristjana