19.8.08

Hyggindi sem í hag koma

Í fossagöngu helgarinnar lærði ég að það þarf ekki að rúlla upp svefnpokum, það á einfaldlega að steintroða þeim í utanyfirpokann. Það er ægilega leiðinlegt að rúlla þétt upp svefnpoka af því það er eiginlega ekki hægt, nælonið er svo sleipt. Oft hef ég kviðið því og frestað lengi að rúlla upp svefnpoka. Óskiljanlegt að enginn hafi sagt mér þetta fyrr. Ekki man ég betur en að svefnpokinn hafi verið upprúllaður þegar ég keypti hann. Hvað á maður að halda.

Ég tók ekki með mér allt sem þurfti í ferðina en ég tók hinsvegar með vasahníf og eitt blátt baggaband sem hafði verið lengi í skottinu á bílnum. Veit ekki alveg hvað rak mig til þess. Kannski einhver óljós hugmynd um að manneskja í óbyggðum sé betur sett með snæri í vasanum en án þess.

Nú er sænskur litasálfræðingur í sjónvarpinu að segja mér að ég hafi margra milljón ára gamlan apaheila sem örvast við að sjá (blóð)rautt og finnur til öryggis þar sem er (gras)grænt. Það var sennilega þessi apaheili sem sem ákvað að taka baggabandið með í fjallaferðina. Og mun setja það aftur í skottið á bílnum.

No comments: