Ég hafði kviðið því nokkuð að fara og bera upp kvörtun í verslun en vissi að það yrði ekki umflúið. Sturtuklefi á að endast lengur en fjögur ár. Hann hreinlega brast undan fótum mér botninn í þeim annars ágæta klefa. Vandræðalegur tjónsatburður. Einhvernveginn hafði ég séð fyrir mér að í búðinni fullri af fólki yrði allt sem ég segði um þetta mál dregið í efa og að starfsmaður sem lægi of hátt rómur myndi spyrja mig ósmekklegra spurninga um líkamsþyngd og sturtuhegðun. En áhyggjur mínar reyndust óþarfar, eins og stundum áður. Í Vatnsvirkjanum hittust fyrir prúðir menn sem sýndu vandamáli mínu mikinn skilning og báðu ekki um annað en myndir af hinum brostna botni, sem verða sendar útí heim, framleiðandanum til rannsóknar á því hvað aflaga fór í framleiðsluferlinu. Það er allt útlit fyrir að hér verði ekki botnlaust lengi enn.
Annað mál og verra, er að ég hefði getað svarið að ekki væru meira en tvö ár síðan ég keypti helvítið, en þau eru semsagt fjögur. Þetta getur bara endað á einn veg. Eins gott ég er búin að velja sálmana.
9.8.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment