2.8.08
Blómabreiða
Sigurskúfurinn ber nafn sitt vel, hann er í blóma þessa dagana og dregur hvergi af sér. Hann flaggar sínum ytri glæsileika eins og filmstjarna, laus við alla uppgerðarhógværð. Myndirnar eru teknar við Keldur.
Sigurskúfurinn breiðir úr sér með rótarskotum og getur myndað þétta fláka þar sem ekkert annað kemst að. Núna eru þessar breiður skærbleikar af blómum og geta ekki farið framhjá neinum. Á ensku heitir hann Fireweed sem vísar til þess að hann kemur gjarnan fyrstur upp þar sem logi hefur farið um akur.
Mikilvægt er að standast þá freistingu að flytja sigurskúf í skrúðgarðinn sinn. Það er felur í sér algert framsal fullveldis þess sama skrúðgarðs.
Hann er ætur. Blöðin má hafa í salat, það er aðeins stamt bragð af þeim, ekki slæmt. Unga stöngla ku mega snæða eins og aspas (mun ódýrara) og jarðstönglarnir eru líka ætir. Meira um mögulegar nytjar af honum, hér. Upplagt í kreppunni að úða í sig sigurskúf.
Ég sá sigurskúf ekki fyrr en ég flutti til Reykjavíkur, hann vex ekki mér vitanlega í Hrunamannahreppi.
Sigurskúfur gæti verið prýðilegt nafn á páfagauk.
Labels:
Flóra Íslands,
Garðrækt,
Hrunamannahreppur,
Jurt,
Matur
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment