Minn gamli framfærsluhreppur er í fréttum. Þar hafa hirðusamir Kínverjar náð sér í burtkastað grænfóður með og án leyfis og nú er frá því sagt að rottur gætu hafa fengið sér bita. Óhjákvæmilega sprettur upp mynd í huganum af bústinni rottu að narta í kálblað með Miðfell í baksýn.
Það er afleitt fyrir grænmetisbændur að orðið rotta komi fyrir í frétt um þá. Það er eiginlega verra en að fýsísk rotta gangi um garð. Ég sá síðast rottu í Hrunamannahreppi fyrir tæplega 40 árum, sú hafði af ókunnum ástæðum misst höfuðið og var jarðsett með viðhöfn í heimagrafreit.
Grænmetisúrkast á það sameiginlegt með öðru grænmeti að vera alveg fullkomlega ætt þangað til það úldnar. Á haugum bænda lenda til dæmis gúrkur sem enda í mjóum oddi, kengbognar gúrkur, of stórar gúrkur, of litlir tómatar, vanskapaðir tómatar, tvífættar gulrætur, trénaðar rófur, maðksmognir kínakálhausar, sprungnir hvítkálshausar og gisið brokkólí, allt nýtt og ferskt.
20.8.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment