12.8.08

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Leit stendur yfir að tiltekinni sögu sem ég finn ekki en ég veit hún er þarna. Kerfi Jóns er örlítið óreiðukennt.

Ég ákvað að byrja á því að taka áhættu, leita óskipulega og treysta því að mín oftsinnissannaða hundaheppni myndi leiða mig á réttu blaðsíðuna, en það gerðist ekki. Lengi hélt ég þó í vonina. Seint og um síðir neyddist ég til að afskrifa þann tíma sem í þetta hafði farið og hóf leit með öruggari aðferð, tilbrigði við bandprjónsaðferðina. Nú fletti ég blaðsíðum ritsafnsins, einni í senn, í áframhaldandi töluröð. Það sem ég taldi að yrði spretthlaup, reyndist langhlaup. (Þessi setning er hér í tilefni af Ólympíuleikunum).

Aðferðin er seinleg en fjarri því að vera leiðinleg því þjóðsögurnar eru svo makalaust skemmtilegar að það er of gott til að vera satt. Í gær hló ég upphátt að sögu sem er svo dónaleg að hún fæst ekki birt á Smjerpinkli. Hvernig skyldu þær hafa verið sögurnar sem Jón ákvað að væru ekki birtingarhæfar? Kistillinn hans þyrfti að finnast.

No comments: