5.8.08

Eyrún gerir kaup

Ég fór í verslun á föstudaginn. Hafði í huganum tekið ákvörðun um að eðlilegt verslunarferli í þessu tilviki væri að fara í minnst þrjár sambærilegar sérverslanir áður en kaup yrðu gerð. Var búin að ákveða hvaða verslanir skyldi farið í og hafði rannsakað vefsetur þeirra. Ég gerði mér far um að velja verslanir í mínu póstnúmeri, enda versla ég í heimabyggð og kaupi beint af bónda þegar því verður við komið.

Margt fer á annan veg en ætlað er. Aðeins tuttugu mínútum eftir að ég steig inn í fyrstu verslunina var ég búin að greiða að fullu ógnardýran lausafjármun. Þar hittist fyrir verslunarmaður sem svo sannarlega var glæsilegur fulltrúi sinnar stéttar og hafi einhver átt skilið að fá frí í gær þá var það hann. Þarna fór fram munnlegur málflutningur, milliliðalaus sönnunarfærsla, enn ein staðfestingin á mætti hins talaða orðs. Ég kom engum vörnum við og sópaði umsvifalaust öllum fyrri ráðagerðum mínum útaf borðinu.

Þegar ég gekk út var ég ánægð yfir því að þurfa ekki að fara hinar búðirnar. En ég var líka hugsi. Hefði það sama gerst ef ég hefði álpast fyrst í hinar búðirnar sem ég ætlaði í? Hvað myndi gerast ef ég hitti Gunnar í Krossinum? Er ég ístöðulaus sveimhugi, ófær um að segja nei? Getur það verið að ég hafi stjórnast af þörf fyrir að þóknast bláókunnugum manninum? Það hefði verið skynsamlegt að segjast ætla að athuga málið aðeins nánar og hann hefði örugglega tekið því af fagmennsku. Verð ég að fara í ákveðniþjálfunarbúðir fyrir konur?

Þannig helltust yfir mig efasemdir um mína persónulegu kosti. Það er alltaf óþægilegt þegar það gerist. Ég reyndi að malda í móinn og benti sjálfri mér á að þarna hafi birst hve ég geti verið snögg að taka réttar ákvarðanir þegar þær blasa við. Málið var að fullu upplýst. Ég var allsekki ístöðulaus, þvert á móti reglulega afgerandi og nú gat ég afpantað þjálfunarbúðirnar. Ég hugsaði um mikilvægi þess að búa yfir sveigjanleika og geta vikið frá upphaflegu plani þegar það á við.

Þetta var ást við fyrstu sýn og mikið væri nú leiðinlegt ef maður rækist á hana og segðist þurfa að skoða víðar.

No comments: