16.7.08

Jarðarferð

Það er föstudagur á hverjum degi, vikulegir sjónvarpsþættir eru sýndir daglega. Jól, páskar, jól, páskar. Áður en við er litið er maður steindauður og þá er of seint að huga að útförinni. Til fyrirmyndar er að eiga fé á bók til að greiða hana, varla dugar minna en milljón kall eftir því sem sagt er. Veitingamenn í Reykjavík hafa komið því inn í hausinn á fólki að nauðsynlegt sé að erfidrykkjur séu svipaðar veislum sem fólk heldur þegar það giftir sig í fyrsta sinn. Auðvitað er þetta vitleysa og alveg óþolandi að þessi flottræfilsháttur, sem fæstir hafa efni á, sé smámsaman að koma almennu óorði á erfidrykkjur, en þær eru mikilvægar samkomur fólks. Brýnt er að allir komi saman til erfidrykkju eftir útför, þar gefst tækifæri til að knúsa nánustu ættingja þess látna og spjalla við fólk sem ekki hittist nema í erfidrykkjum. Fólk heilsast varla í kirkjunni. Erfidrykkjan er táknræn samkoma, minnir á að tími er til að gleðjast þrátt fyrir allt. Fátt er skemmtilegra en að setjst niður með fólki, drekka kaffi og spjalla.

Ég geri hér með kunnugt að í minni erfidrykkju eiga að vera kleinur, flatkökur með hangikjöti (sjóða hangikjöt og skera niður, engin fituskert plastpökkuð þunnildi), randalínur (hvítar með sultu og brúnar með margarínfríu kremi) og rjómapönnukökur (með mikilli rabarbarasultu). Hverskyns tertur bannaðar og heitir réttir með grænum aspas og skinku eru algerlega bannaðir að viðlagðri afturgöngu og ofsóknum af minni hálfu. Kaffið skal vera rótsterkt og hægt að fá útí það. Það má alls ekki halda erfidrykkjuna á hóteli, betra að hún sé í safnaðarheimili, en best þó að hún sé í félagsheimili. Best er að ættingjar og vinir (ef einhverjum slíkum verður til að dreifa) sjái um veitingarnar en næst best að kvenfélag sjái um þær. Faglærðir veitingamenn mega hvergi koma nærri.

Sparnaðarráð í kreppunni: Jarðið ættingja yðar með minni tilkostnaði.

Fyrst ég er búin að gefa fyrirmæli um erfidrykkju þá er best að upplýsa um sálmana sem sungnir verða: Allt eins og blómstrið eina (skyldustykkið), Heyr himnasmiður (langflottastur), Ég kveiki á kertum mínum (það ætti að koma skælunum út á kirkjugestum), Blessuð sértu sveitin mín (alltaf sungið yfir sveitamönnum). Svo þarf að velja prestinn, kannski verður Matthías Pálmason aðalnúmerið?

Til að tryggja að mér verði hlýtt, hyggst ég gera erfðaskrá þar sem ég segi að ef frá þessu verður brugðið, þá eigi Kvenfélagasamband Íslands að erfa 1/3 hluta auðæfa minna. Þetta er fullkomlega löglegt að gera.

Ef vel tekst til í aðhaldinu ættu sex manns að duga til að bera kistuna, ef allt fer á versta veg, þá þarf átta. Svo ætlast ég til að allir sem mæta í útförina ómaki sig útí kirkjugarð og krossi yfir.

No comments: