31.8.08

The turf-killer

Þúfnabaninn er alveg magnað monster. Hann er á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri í skýli sem er bara örlítið stærra en hann sjálfur þannig að mikilfengleiki hans nýtur sín ekki til fulls. Þúfnabaninn myndi hiklaust sóma sér vel sem sýningargripur á hvaða tækniminjasafni sem er. Hann er svona ruddaleg týpa og óhjákvæmilegt að segja vá þegar maður lítur hann augum.

Búvélaverksmiðjur Heinrich Lanz í Mannheim í Þýskalandi (Landbaumotor Lanz) smíðuðu þúfnabanann. Fyrirtækið var stofnað 1859 og var til í hundrað ár þar til það var yfirtekið af John Deere. Hér er vefsíða aðdáanda Lanz með ótal myndum af tækjum framleiddum hjá verksmiðjunum, þar eru líka hljóðskrár, þar sem hægt er að heyra vélarnar mala og hósta.

Lanz er liðinn undir lok, þúfnabaninn bugaður af elli og nú er umsjónarmaður vefjarins látinn og auglýst er eftir manni til að taka við starfinu. Ideal hobby for a retiree eins og þar segir. Það þýðir sennilega ekki að senda inn mynd af þúfnabananum á meðan vefstjórinn er dauður.

Aðeins þeir allra frægustu komast á frímerki, þúfnabaninn komst í þann hóp í vor. Hann var af því tilefni þýddur á ensku og heitir á því máli turf-killer. Hm.

Í Norðurárdal

Ég útvíkkaði reynsluheim minn um helgina, skaut af loftriffli og ók fjórhjóli. Meiri vitleysan annars að kalla það hjól sem ekki er hjólað á. Fjórhjól er frekar grófgert ökutæki sem lætur ekki vel að (minni) stjórn og mér fannst eins og það væri tiltölulega auðvelt að drepa sig á því. Það er góð skemmtun að hristast á fjórhjóli.

Í ljós kom að ég er nokkuð skotfim. Ég gat hitt það sem ég miðaði á, reyndar af mjög stuttu færi. Nú langar mig að skjóta af alvörubyssu, en er ekki búin að gera það upp við mig hverju ég vil beina henni að. Helst engu lifandi. Ég er í hópi þeirra sem borða kjöt en vil að aðrir fremji morðið.

29.8.08

I Kina spiser de hunde

Gátu sauðabændur markað mör sauða af því að þreifa um dindil? Voru kindur mænuskornar og brotnar úr hálslið jafnskjótt og búið var að hálskera þær eða síðar? Gaf það góðar mörvonir ef mikið snörlaði í kindinni, meðan henni blæddi út? Þekktist sú þjóðtrú, að huglausum mönnum væri hollt að drekka volgt kindablóð og éta mör með? Var koðri látinn fylgja magál á fjaðurgeltum sauðum? Hvað var gert við krókasteik (leg) og undir hvaða nafni gekk hún? Hvað hét mörstykki á kviðarholi milli magáls og blöðru (þjófstunga eða annað)? Hvernig var unnið að því að hreinsa ristil? Var sérstakur réttur gerður úr vélinda og hvernig? Hvernig voru garnir verkaðar til matar, og hvað nefndust þær soðnar (vil eða annað)? Mátti þunguð kona eta kjöt af sjálfdauðu fé? Var pestarkjöt notað til matar? Hvernig var lifur barin í mauk (með strokkloki, tréhnalli, hrárri gulrófu, steinlóði eða öðru)? Voru kindahausar rakaðir og klipptir, áður en þeir voru sviðnir? Þekktist orðtækið: "Betra er broddsviðið en brennt"? Var höfði nautgripa slegið við strjúpann um leið og það var skorið frá og þá hve oft? Hvernig var kýrjúgur matreitt? Hvernig voru hraun tekin, og hve lengi voru þau ýlduð í fjósi?
Voru hraun reykt að fjósvist lokinni? Voru lappir sviðnar, áður en þær voru settar í fjós? Mátti hver sem var borða nautsheila og hvernig var hann matreiddur? Voru nautshausar (kýr?) soðnir í heilu lagi eða granir sagaðar af? Hvað kallaðist fóstur í kálffullri kú, sem felld var (aplakálfur eða annað)? Var óborinn kálfur nokkurn tíman notaður til matar og þá hvernig matreiddur? Var óborinn kálfur fleginn með venjulegum hætti eða tekinn af honum belgur? Voru ungkálfar teknir úr karinu undir hnífinn?
Var sagt um kálfa, sem bauluðu við blóðtrog, að þeir bæðu um líf? Nægði það til lífs? Voru kálfar flegnir samdægurs og þeir voru skornir? Var um það rætt, að dauðir kálfar fitnuðu í skinninu og þá hve lengi? Hvað nefndist þefur af illa verkuðu hrossakjöti (hrælykt eða annað)?

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins óskar svara við þessum spurningum og mörgum fleiri.

28.8.08

Eldvarnapistill

Þegar ég kom heim var fasteignin full af reyk og reykskynjarinn lét ófriðlega. Ungmennið hafði ekki veitt þessu sérstaka athygli en fékk góða iðran við hreinsun á ofninum.

Ég gæti skrifað langa frásögn af öllum þeim eldsvoðum sem hér hafa næstum því orðið og af skyldurækni tek ég það fram að þeir hafa verið á mína ábyrgð. Samt er ég skelfilega eldhrædd og get varla sofnað ef ég man eftir að batterí vanti í reykskynjarann.

Orður og vatn

Það var pínulítið flott þegar flugmennirnir voru að monta sig áðan á flugvélunum og þyrlunum. Ég sá útum vinnugluggann minn þegar flugvélin með liðið lenti og þar biðu tveir slökkvibílar sem stóðu andspænis hvor öðrum og sprautuðu vatni upp í loftið úr langstærstu stútunum þannig að myndaðist vatnsbogi (sigurbogi?) sem flugvélin keyrði undir. Mér varð um og ó.

Bjarni Fritzson virðist taka örlögum sínum af jafnaðargeði. Fimmtándi maðurinn sem fékk aldrei að vera með í leiknum. Ólafur Ragnar segir algengt að orðuþegar séu í raun fulltrúar hóps. Bjarni Fritzson hef'ði verið verðugur fulltrúi allra sem ekki hafa fengið að vera með í leik sem þá langaði til að vera með í. Ég held að margir þeirra sem hafa verið hafðir útundan finni til samkennndar með Bjarna þessum. Það innsiglar hlutskipti Bjarna að hann fær auðvitað enga orðu.

Sér nú loks fyrir endann á íþróttatengdum skrifum mínum. Aðeins eitt enn, það hlýtur að verða gefið út almanak fyrir 2009 með myndum af hetjunum.

27.8.08

Bogar

Er ekki ástæða til að reisa sigurboga í tilefni þess að hetjur snúa heim úr sigurför? Hópur af stæltum strákum á opnum vagni í miðborginni, það minnir dálítið á regnboga.

Þegar ég skoðaði Títusarbogann hafði verið tyllt spotta þvert á gönguleiðina undir bogann. Ekki marséra hér í gegn sagði spottinn. Einhver vildi ekki að Títus yrði hylltur fyrir verk sitt í Jerúsalem fyrir tvöþúsund árum eða svo. Geymt en ekki gleymt.

Sigurbogi gæti annars verið mannsnafn. Ekki síður en Sigurgeir.

26.8.08

Meindýramosi

Það er margt sem ég skil ekki. Eitt af því sem ég skil minnst er einhver eilífðarinnar krossferð gegn mosa í grasflötum. Hver hefur eiginlega komið því inn hjá fólki að ekki megi vera mosi í grasinu? Er þetta sama fólkið og vill endilega hafa tré bein? Mér finnst mosi eitt það besta sem vex í garðinum, hann er mjúkur, litsterkur og það er ekkert fallegra en mosaklæddir steinar og tré. Mosi hefur róandi nærveru.

Ef það er raki og skuggi í garðinum, þá mun þar vaxa mosi, skiptir engu hvað menn djöflast með mosatætara eða mosaeyði. Ég sá um daginn mosa kallaðan vágest á vefsíðu verslunar með garðvörur. Greinilega mikil ógn við tilveru garðeigenda. Þessi síða er óborganleg. Meindýravarnir Suðurlands hafa látið mál þetta til sína taka með afgerandi hætti og ætla greinilega ekki að láta mosann leggja undir sig héraðið. Mosi er orðinn meindýr:
Mosi er helsti óvinurinn í heimagörðum.
Hægt er að leigja mosatætara ef bletturinn sé að breytast í mosateppi.
Gangi ykkur vel að berjast við mosann.
Japanir hafa heilbrigða afstöðu til mosa. Þeir rækta mosa af mikilli natni í sínum görðum. Ég heyrði í fyrra sanna sögu af japönskum manni sem tafðist mjög á leið sinni frá Reykjavík til Arnarfjarðar, hann sá svo mikið af ómótstæðilegum mosaþembum á leiðinni. Hann gat ekki keyrt framhjá þeim án þess að stoppa og klappa mosanum.

Víða má finna leiðbeiningar um hvernig á að greiða fyrir mosavexti í garðinum. Það er gert með því að búa til graut í blandaranum úr tættum mosa og fleiru, grauturinn er síðan borinn á þann flöt sem óskað er eftir að mosavaxi. Hér er mælt með blöndu af leir, vatni, fiskiáburði og tættum mosa. Önnur uppskrift inniheldur bjór, sykur og mosa. Aðrir telja súrmjólk eða jógúrt skila betri árangri. Þetta er mikil gullgerðarlist.

24.8.08

Gull og silfur

Gullverðlaun á Ólympíuleikum eru gullhúðaðir silfurpeningar. Aðeins 6 grömm af gulli, restin silfur, algert svindl. Okkar menn fengu silfurpeninga, gegnheila.

Rannsóknarferðir

Ég sá Surtsey gjósa í Þjóðmenningarhúsinu, gekk á grasi innandyra, sá þvottavélar utandyra, talaði við mann sem ég hef ekki hitt í 15 ár og svo fór ég í bókabúð Braga og keypti ekkert, en það var erfitt. Ég sá ljómsveit headbanga á húsþaki og full þvergata af marglitum regnhlífum horfði á. Það var par inni í Tourist Information Center að kyssast ákaflega og mér fannst að þau hlytu að vera útlendingar. Ég leit í nokkrar búðir sem selja notuð föt, það er sama lyktin í þeim öllum. Lítið notuð gæruúlpa var til sölu í Rauða Krossinum.

Til samanburðar heimsótti ég landbúnaðarsýninguna í dag. Þar hitti ég ýmis húsdýr og líka töluvert af fólki sem ég þekki. Það var boðið upp á meira að borða á landbúnaðarsýningunni en á menningarnótt. Nautið sem var grillað heilt á teini eins og í bíómynd eftir Hrafn Gunnlaugsson, var síðan framreitt á tannstönglum í hæfilegum munnbitum. Fulltrúi Landsvirkjunar gerðist svo djarfur að afhenda mér áróðursbækling. Ég lét glaðbeitta konu kjafta inn á mig áskrift að Húsfreyjunni og tók þátt í getraun Sambands sunnlenskra kvenna um hve margir ánamaðkar væru á einum fermetra í grónu túni. Ég sagði 250. Býflugnalæknirinn Egill var þarna og ég keypti íslenskt hunang.

Sérstaka athygli mína vakti stóðhesturinn Goði, hann var kynntur sem sá hestur sem hefur hlotið hæstu einkunn fyrir sköpulag. Hann er þá væntanlega fallegasti hestur á Íslandi. Alveg var hann gullfallegur. Hárafarið var einstakt, hann virtist flauelsklæddur. Hann er fínlegur, grannur og delikat. Eins og glæsilegt módel með anorexíu.

Ekill

Einkabarnið fékk bílpróf síðdegis í gær. Það hefur haft áhrif á líf okkar. Innan við sólarhring síðar hefur hann mátt aka móður sinni alls þrjár ferðir milli staða undir áhrifum.

Díana prinsessa sagði um syni sína að þeir væru "the heir and the spare". Ég sagði mínum að hann yrði að aka gætilega því ég ætti ekkert varabarn. Hann sagði að ég gæti sjálf farið varlega, ekki ætti hann varamóður.

Núna standa yfir viðræður um hvað "við" eigum að gera við bílinn "okkar".

23.8.08

Toppstýfing undir áhrifum

Það er afleit hugmynd að klippa sig með eldhússkærunum. Það voru sennilega þessir tveir bjórar í maganum sem urðu þess valdandi að hugmyndin komst til framkvæmda.

Á sjúkrahúsinum

Jákup hevði brotið beinið og lá á sjúkrahúsinum. Annan dagin kom eitt umboð frá arbeiðsplássinum við einum korti, har tað stóð:"Vit ynskja tær góðan betring við atkvøðunum 5 móti 4!"

Stundum er ég í skapi til að skemmta mér á kostnað færeyskrar tungu, ekki er það stórmannlegt.

22.8.08

Silfurpeningar

Ég finn fyrir óróleika í hjartanu þegar sá möguleiki er ræddur að við vinnum gullverðlaun í handbolta. Það er fyrir utan þægindahringinn hjá mér, of mikil velgengni. Er ég hrædd við velgengni? Nú þarf ég að skoða hug minn.

Það er silfurpeningur á spotta um hálsinn á mér flesta daga.

21.8.08

Waste management

Það verður spennandi að fylgjast með einkavæðingu sorphirðunnar í Reykjavík. Friður hefur ríkt um sorphirðu hér i borg, sorp er einfaldlega hirt reglulega og klögumál verið fátíð. Í þessum málaflokki hefur ríkt hin margrómaða festa. Margt getur farið úrskeiðis þegar reynt er að laga það sem ekki er bilað.

bíb bíb bíb

Ólafur Stefánsson er andlegur leiðtogi minn. Alveg er hann hrikalega *bíb* og ég verð alveg *bíb* af því að sjá hann. Hann er örugglega góður í fleiru en handbolta.

20.8.08

Gernýtni

Minn gamli framfærsluhreppur er í fréttum. Þar hafa hirðusamir Kínverjar náð sér í burtkastað grænfóður með og án leyfis og nú er frá því sagt að rottur gætu hafa fengið sér bita. Óhjákvæmilega sprettur upp mynd í huganum af bústinni rottu að narta í kálblað með Miðfell í baksýn.

Það er afleitt fyrir grænmetisbændur að orðið rotta komi fyrir í frétt um þá. Það er eiginlega verra en að fýsísk rotta gangi um garð. Ég sá síðast rottu í Hrunamannahreppi fyrir tæplega 40 árum, sú hafði af ókunnum ástæðum misst höfuðið og var jarðsett með viðhöfn í heimagrafreit.

Grænmetisúrkast á það sameiginlegt með öðru grænmeti að vera alveg fullkomlega ætt þangað til það úldnar. Á haugum bænda lenda til dæmis gúrkur sem enda í mjóum oddi, kengbognar gúrkur, of stórar gúrkur, of litlir tómatar, vanskapaðir tómatar, tvífættar gulrætur, trénaðar rófur, maðksmognir kínakálhausar, sprungnir hvítkálshausar og gisið brokkólí, allt nýtt og ferskt.

Lilja 4ever

Minnið bregst ekki þegar mistök mín eru annars vegar. Ég man það glöggt að hafa fyrir einhverjum tugum ára skrifað í ritgerð að allir vildu Lilju kveðið hafa. Það var ekki rétt með farið. Öll skáld vildu Lilju kveðið hafa. Það var Sigurborg Hilmarsdóttir sem leiðrétti þetta frekar en Kristján Eiríksson. Þegar ég sé þessa villu (aftan á Fréttablaðinu í gær) grípur mig óstjórnleg löngun til að leiðrétta hana.

Sirkus

Það féllu árlega sömu orðin yfir sirkus Billys Smart á gamlársdag: Mikið hlýtur að vera búið að berja þessar vesalings skepnur. Af einhverjum ástæðum mundi ég eftir þessu akkúrat þegar ég horfði á keppni í fimleikum á Ólympíuleikunum.

19.8.08

Hyggindi sem í hag koma

Í fossagöngu helgarinnar lærði ég að það þarf ekki að rúlla upp svefnpokum, það á einfaldlega að steintroða þeim í utanyfirpokann. Það er ægilega leiðinlegt að rúlla þétt upp svefnpoka af því það er eiginlega ekki hægt, nælonið er svo sleipt. Oft hef ég kviðið því og frestað lengi að rúlla upp svefnpoka. Óskiljanlegt að enginn hafi sagt mér þetta fyrr. Ekki man ég betur en að svefnpokinn hafi verið upprúllaður þegar ég keypti hann. Hvað á maður að halda.

Ég tók ekki með mér allt sem þurfti í ferðina en ég tók hinsvegar með vasahníf og eitt blátt baggaband sem hafði verið lengi í skottinu á bílnum. Veit ekki alveg hvað rak mig til þess. Kannski einhver óljós hugmynd um að manneskja í óbyggðum sé betur sett með snæri í vasanum en án þess.

Nú er sænskur litasálfræðingur í sjónvarpinu að segja mér að ég hafi margra milljón ára gamlan apaheila sem örvast við að sjá (blóð)rautt og finnur til öryggis þar sem er (gras)grænt. Það var sennilega þessi apaheili sem sem ákvað að taka baggabandið með í fjallaferðina. Og mun setja það aftur í skottið á bílnum.

Kæra dagbók

Það er alveg til í dæminu að fólk ljúgi að dagbókinni sinni. Sumir eru í þeirri aðstöðu að geta séð fyrir að dagbókin verði einn góðan veðurdag víðlesin og eftirsótt. Þeir eru ekki að skrifa dagbókina eingöngu fyrir sjálfan sig. Hún er skrifuð með lesendur í huga.

Langamma mín ein skrifaði alla sína tíð í litlar dagbókarkompur. Hennar stíll var afar knappur og engin leyndarmál upplýst. Daginn sem önnur dóttir hennar gifti sig skrifaði hún: Emil og Rúna giftu sig í góðu veðri.

18.8.08

Bræðslumark súkkulaðis

Í dag varð á vegi mínum súkkulaðimoli (í vöfðu bréfi en ekki límdu) sem ég ákvað að taka í mína vörslu. Honum stakk ég í buxnavasann. Það var slæm ráðstöfun. Verra var þó að stinga hendinni í þann sama vasa síðar um daginn.

Það var samt jákvætt að ég gleymdi því að ég ætti til súkkulaði í mjög skammri seilingarfjarlægð.

Er hann dáinn

Stundum lýstur niður í höfuðið hugsun um mögulegt andlát þess tónlistarmanns sem verið er að spila í morgunútvarpinu (ætli hann sé dáinn) og þá hlusta ég vel eftir afkynningunni. Oft eru engin ótíðindi. Í morgun heyrði ég lag með Dubliners í tilefni af því að stofnandi hljómsveitarinnar er allur.

15.8.08

Fossaganga

Ég skrifa þetta vel nærð til líkama og sálar, nýkomin úr fossagöngu á Gnúpverjaafrétti. Í dag hef ég aðallega neytt krækiberja, bláberja og vatns úr gnúpverskum fjallalækjum. Þá hef ég skoðað fleiri gnúpverska fossa en ég hélt að væri mögulegt. Dynkur í Þjórsá er sérstaklega margslunginn foss.

Það var talað mikið og illa um svívirðilegar ráðagerðir Landsvirkjunar í þessari ferð og það var reglulega viðeigandi.


Strandblak karla

Ég veitti því athygli, þegar ég horfði á strandblak karla, að þeir voru ekki berir að ofan eins og eðlilegt mætti teljast þegar hliðsjón er höfð af klæðnaði kvenkeppenda. Það er alltaf verið að svindla á kvenfólki. Ef leitað er að myndum af strandblaki á Gúgúl, þá gerist þetta. Það munu gilda sérstakar reglur í þessari íþrótt til að tryggja að keppendur mæti ekki of dúðaðir til leiks.

Annars er strandblak íþrótt sem liggur vel við höggi, það er dálítið auðvelt að tala um hana og iðkendur hennar af lítilsvirðingu og hroka af því maður getur gengið útfrá því að flesti taki undir með manni. Þetta er auðvitað rangt og ósiðlegt og segir mest um mann sjálfan. Ég ætla að bæta ráð mitt og mun framvegis líta svo á að útsendingar frá strandblaki séu í raun sérstakt próf í auðmýkt og umburðarlyndi. Á morgun er Íslandsmótið í strandblaki.

Annar spádómur minn er að keppni í íslenskri glímu, sérstaklega í kvennaflokki, eigi eftir að verða ein vinsælasta sjónvarpsíþrótt veraldar. Framsækin hönnun á nýjum keppnisbúningum mun leggja grunn að þeirri sigurgöngu.

14.8.08

Hómer og lúnu lífverðirnir

Geðorðin tíu hanga á ísskápnum mínum og ég leitast við að fremsta megni að hafa þau að leiðarljósi. Ég óttast að hafa breytt gegn sjötta geðorðinu með því að taka ástargaukinn Hómer inná heimili mitt. Þú skalt ekki flækja líf þitt að óþörfu.

Þófaljónin bíða eftir að ég geri mistök.

Gáta

Ræktarlausa fríðir fold. 4, 5, 6, 7.
Faðmar ýmist við eða hold. 7, 11, 12, 13, 14.
Verður í hættu vart til liðs. 3, 8, 7, 15, 9.
Verk er náttúru eða smiðs. 1, 2, 3.
Kominn er mörgum feðrum frá. 8, 9, 10, 15, 16.
Flæði kennt við auðargná. 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11, 12, 13, 14, 15, 16.

Stafirnir í lausnarorðinu eru númeraðir 1 - 16, hin orðin eru búin til úr því.

Þessa gátu samdi Brynjólfur Jónsson fræðimaður frá Minna-Núpi snemma á 20. öld. Leiftur hf. gaf út árið 1976 lítið kver með svona gátum eftir Kjartan Helgason prest í Hruna, Brynjólf og fleiri. Ingimar H. Jóhannesson fv. skólastjóri tók þær saman. Ingimar og afi minn, Emil Ásgeirsson í Gröf voru miklir vinir, Kjartan Helgason ól afa upp.

Gamlar talgátur heitir kverið. Gáturnar eru þungar finnst mér og margar með lókal tilvísunum sem erfitt er að átta sig á.

13.8.08

Hringekið í Kópavogi

Ég átti leið útí Kópavog í gær (erindið var að ná í ástargaukinn Hómer) og leið mín lá um hið fyrrum umdeilda, en nú umsamda hringtorg á Nýbýlavegi við blokkina Lund 1. Ákvað að aka einn aukahring á torginu til að rannsaka þetta mál sjálfstætt í stað þess að láta fjölmiðla mata mig á upplýsingum, meira og minna lituðum af hagsmunum eigenda fjölmiðlanna og örugglega úr smiðju spunakarla.

Þar sem ég keyrði þann hluta torgsins sem næstur er blokkinni við Lund gat ég ekki betur séð en það væri reglulega snyrtilegt inni hjá fólkinu á næstneðstu hæðinni. Það voru gerviblóm á borðinu á svölunum hjá þeim.

Það verður fróðlegt fyrir skattgreiðendur í Kópavogi að fylgjast með tilfærslu hringtorgsins um sex metra til vesturs.

Söngur og fegurð

Kínverjar eru geysimargir. Nú hefði maður haldið að hægt væri að finna þar eina stelpu sem gæti sungið og væri jafnframt með beinar tennur.

12.8.08

Hómer og góðu hjarðmeyjarnar

Það er víðar hægt að kaupa notaða hluti en í Góða hirðinum. Eitt af því sem fram fer á Barnalandi er kaup, sala og skipti á notuðum varningi og ég fullyrði að þar er stærsti markaður landsins með slíkt. Fjöldi auglýsinganna er hreint ótrúlegur, ekki færri en 1500 sem hafa verið hreyfðar síðasta sólarhringinn.

Á Barnalandi keypti ég í dag notaðan ástargauk, Hómer að nafni. Hann er sannkallaður draumagaukur, ræðinn, myndarlegur og snyrtilegur. Ég borgaði 17 þúsund fyrir gauk, búr og plastpoka með búslóð hans, það er í kringum 1/3 af smásöluverði. Nú verð ég verð að passa að kettirnir éti ekki Hómer ástargauk.

Vöruúrval á Barnalandi er meira en í Hirðinum. Hægt er að kaupa þar allt nema mjólk og brauð. Hamstrastelpur, iPhone, latínubækur, gervigæsir, gervineglur, fiðla, Ranger Rover, hakkavél, túbusjónvörp og ferlega krúttlegir kettlingar (kassavanir).

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Leit stendur yfir að tiltekinni sögu sem ég finn ekki en ég veit hún er þarna. Kerfi Jóns er örlítið óreiðukennt.

Ég ákvað að byrja á því að taka áhættu, leita óskipulega og treysta því að mín oftsinnissannaða hundaheppni myndi leiða mig á réttu blaðsíðuna, en það gerðist ekki. Lengi hélt ég þó í vonina. Seint og um síðir neyddist ég til að afskrifa þann tíma sem í þetta hafði farið og hóf leit með öruggari aðferð, tilbrigði við bandprjónsaðferðina. Nú fletti ég blaðsíðum ritsafnsins, einni í senn, í áframhaldandi töluröð. Það sem ég taldi að yrði spretthlaup, reyndist langhlaup. (Þessi setning er hér í tilefni af Ólympíuleikunum).

Aðferðin er seinleg en fjarri því að vera leiðinleg því þjóðsögurnar eru svo makalaust skemmtilegar að það er of gott til að vera satt. Í gær hló ég upphátt að sögu sem er svo dónaleg að hún fæst ekki birt á Smjerpinkli. Hvernig skyldu þær hafa verið sögurnar sem Jón ákvað að væru ekki birtingarhæfar? Kistillinn hans þyrfti að finnast.

11.8.08

Spádómur

Í tilefni af Ólympíuleikunum hyggst ég fjalla í meira mæli um íþróttir en fram til þessa. Þeir sem telja meinbugi á þeirri ráðagerð tjái sig nú eða aldrei að eilífu. Ég heyrði að Íslendingar hefðu unnið handboltaleik og það er fagnaðarefni. Betri var þó íþróttafréttin um heimsmeistaramótið í íslenskri glímu. Það mót hefur óverðskuldað fallið í skuggann af Ólympíuleikunum. Erfitt er að spá og sérstaklega um framtíðina en ég spái því að heimsmeistaramótið í íslenskri glímu sé aðeins upphafið á glæsilegri atburðarás sem muni lykta með því að keppt verði í íslenskri glímu á Ólympíuleikum, þeim fjórðu héðan frá talið.

10.8.08

Sjónvarpið ávarpað

Voðalega er þetta fólk mikið að þvælast útum allar jarðir, varla komið heim eftir verslunarmannahelgina, þetta tollir aldrei heima hjá sér, það mætti halda að bensínið kostaði ennþá hundraðogtíkall, tuttuguþúsund manns að keyra langar leiðir til að sníkja fría fiskisúpu, má ég þá biðja um kjötsúpu, eitthvað hefði nú verið ódýrara að skella sér í fiskisúpu á Holtinu og sennilega hefði maður getað sest niður á meðan maður slafraði henni í sig.

9.8.08

Botninn er suður í Borgarfirði

Ég hafði kviðið því nokkuð að fara og bera upp kvörtun í verslun en vissi að það yrði ekki umflúið. Sturtuklefi á að endast lengur en fjögur ár. Hann hreinlega brast undan fótum mér botninn í þeim annars ágæta klefa. Vandræðalegur tjónsatburður. Einhvernveginn hafði ég séð fyrir mér að í búðinni fullri af fólki yrði allt sem ég segði um þetta mál dregið í efa og að starfsmaður sem lægi of hátt rómur myndi spyrja mig ósmekklegra spurninga um líkamsþyngd og sturtuhegðun. En áhyggjur mínar reyndust óþarfar, eins og stundum áður. Í Vatnsvirkjanum hittust fyrir prúðir menn sem sýndu vandamáli mínu mikinn skilning og báðu ekki um annað en myndir af hinum brostna botni, sem verða sendar útí heim, framleiðandanum til rannsóknar á því hvað aflaga fór í framleiðsluferlinu. Það er allt útlit fyrir að hér verði ekki botnlaust lengi enn.

Annað mál og verra, er að ég hefði getað svarið að ekki væru meira en tvö ár síðan ég keypti helvítið, en þau eru semsagt fjögur. Þetta getur bara endað á einn veg. Eins gott ég er búin að velja sálmana.

8.8.08

Það er kreppa


Því hefur verið haldið fram í mín eyru að þessi skófatnaður sanni að ég hafi vanrækt lögbundna framfærsluskyldu mína gagnvart eiganda hans.

Það minnir mig á góða sögu og mjög gamla, af Konráð á Grund sem kom eitt sinn í heimsókn að Gröf. Svo vildi til að tiltekt í forstofu fór fram einmitt á meðan hann staldraði við og var skóm gestsins hent í ruslið og það umsvifalaust brennt.

Veðhlaupahestur

Ég er antisportisti en mig langar til að horfa á Ólympíuleikana (sérstaklega hlakka ég til að horfa á Usain Bolt hlaupa 100 og 200 m). Fyrst þarf ég þó að gagnrýna harðlega mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda. Ég þyrfti að finna grúppu á Facebook eða undirskriftalista á netinu eða bara netfang kínverska forsetans þannig að ég geti sent honum nokkur vel valin orð. Ef þetta bregst verð ég bara að mótmæla í einrúmi fyrir framan sjónvarpið.

7.8.08

Áhrif á umhverfi

Það verður þungbært fyrir marga að þurfa nú, í samræmi við nýfallinn úrskurð umhverfisráðherra, að meta umhverfisáhrif heildstætt. Skal engan undra að úrskurður hennar hafi valdið fjaðrafoki í þjóðfélaginu.

Eftir úrskurð umhverfisráðherra er mér nauðugur einn kostur að meta heildstætt umhverfisáhrif af öllum aukakílóunum, í stað eldri aðferðar sem fólst í því að horfa aðeins á afmarkaðan fjölda þeirra í senn. Sú aðferð hefur til þessa reynst mér prýðilega og forðað óþarfa upphlaupum. Niðurstaðan af þessu nýja umhverfismati er uggvænleg. Óvíst er þó hvort hið heildstæða umhverfismat muni hafa einhver áhrif á ákvarðanir sem framundan eru.

Lekur svartur gúmmíhanski

Ef til stendur að þvo upp og grunur leikur á að gúmmíhanski leki, þá er einfalt að athuga það með því að fara í hann og stinga síðan lúkunni undir heitu bununa. Ekki get ég mælt með þeirri aðferð.

Legsteinaefni


Það er mannanna verk að afhjúpa þessar súlur. Ósnortið land er dýrmætt en þessi sjón var óneitanlega stórbrotin.

Líkamsræktin

Mér er illt í únliðnum
Ég þarf að elda
Ég er syfjuð
Það þarf að laga til
Buxurnar eru krumpaðar
Aukabuxurnar eru skítugar
Mér er illt í hælnum
Ég er búin að hreyfa mig nóg í dag
Ég er nýbúin að borða
Ég er með hausverk
Það er leiðindaveður
Mig langar að horfa á fréttirnar
Ég gæti fengið í bakið
Ég er með skítugt hár
Það þarf að þvo upp
Ég er nýkomin heim
Ég held ég sé að fá kvef
Það er ekkert hreint handklæði
Best að ég lagi til í geymslunni
Það er betra að fara eftir kvöldmat
Ég þarf frekar að hvíla mig

6.8.08

Hústaka

Vinnusöm kónguló er akkúrat núna að ljúka við að spinna vef við útiljósið mitt. Ólíkt höfumst við að. Hún á örugglega eftir að veiða vel, fiðrildin og flugurnar sækja í ljósið. Vonandi geng ég ekki í vefinn, okkar beggja vegna. Til að forða því verð ég að ganga nákvæmlega miðjar tröppurnar.

Fegurðarblettur


Þessi spræna rennur sem leið liggur undir þjóðveg eitt, rétt austan við Hveragerði. Þar hefur engjamunablóm lagt undir sig lækjarbakkann. Ef augun flökta af veginum á réttu augnabliki, sést þessi óvænti himinblámi þjóta hjá. Ég hélt fyrst þetta væri gleym-mér-ei. Merkilegt hve summan af ótalmörgum smáblómum getur orðið stór.
Þetta er lygin mynd. Ógeðslegt plastdraslið í læknum sést ekki á henni.

5.8.08

Eyrún gerir kaup

Ég fór í verslun á föstudaginn. Hafði í huganum tekið ákvörðun um að eðlilegt verslunarferli í þessu tilviki væri að fara í minnst þrjár sambærilegar sérverslanir áður en kaup yrðu gerð. Var búin að ákveða hvaða verslanir skyldi farið í og hafði rannsakað vefsetur þeirra. Ég gerði mér far um að velja verslanir í mínu póstnúmeri, enda versla ég í heimabyggð og kaupi beint af bónda þegar því verður við komið.

Margt fer á annan veg en ætlað er. Aðeins tuttugu mínútum eftir að ég steig inn í fyrstu verslunina var ég búin að greiða að fullu ógnardýran lausafjármun. Þar hittist fyrir verslunarmaður sem svo sannarlega var glæsilegur fulltrúi sinnar stéttar og hafi einhver átt skilið að fá frí í gær þá var það hann. Þarna fór fram munnlegur málflutningur, milliliðalaus sönnunarfærsla, enn ein staðfestingin á mætti hins talaða orðs. Ég kom engum vörnum við og sópaði umsvifalaust öllum fyrri ráðagerðum mínum útaf borðinu.

Þegar ég gekk út var ég ánægð yfir því að þurfa ekki að fara hinar búðirnar. En ég var líka hugsi. Hefði það sama gerst ef ég hefði álpast fyrst í hinar búðirnar sem ég ætlaði í? Hvað myndi gerast ef ég hitti Gunnar í Krossinum? Er ég ístöðulaus sveimhugi, ófær um að segja nei? Getur það verið að ég hafi stjórnast af þörf fyrir að þóknast bláókunnugum manninum? Það hefði verið skynsamlegt að segjast ætla að athuga málið aðeins nánar og hann hefði örugglega tekið því af fagmennsku. Verð ég að fara í ákveðniþjálfunarbúðir fyrir konur?

Þannig helltust yfir mig efasemdir um mína persónulegu kosti. Það er alltaf óþægilegt þegar það gerist. Ég reyndi að malda í móinn og benti sjálfri mér á að þarna hafi birst hve ég geti verið snögg að taka réttar ákvarðanir þegar þær blasa við. Málið var að fullu upplýst. Ég var allsekki ístöðulaus, þvert á móti reglulega afgerandi og nú gat ég afpantað þjálfunarbúðirnar. Ég hugsaði um mikilvægi þess að búa yfir sveigjanleika og geta vikið frá upphaflegu plani þegar það á við.

Þetta var ást við fyrstu sýn og mikið væri nú leiðinlegt ef maður rækist á hana og segðist þurfa að skoða víðar.

Verslunarmannahelgin búin

Umferðin um verslunarmannahelgina gekk almennt vel að sögn talsmanns Umferðarstofu, þó slasaðist Morgan Freeman nokkuð er bifreið hans hafnaði utan vegar. Beita þurfti klippum til að ná honum úr bílnum, sem er gjörónýtur. Að sögn lækna eru meiðsli hans ekki eins alvarleg og í fyrstu var talið.

4.8.08

Lifandi forngripur

Ég sá um helgina mynd af sjálfri mér frá 1963 í smekkbuxum úti í sólskini. Í baksýn er hlaðinn grjótveggur sem tilheyrði húsinu sem ég átti heima í. Mér fannst ég vera eins og Gísli á Uppsölum.

Kannski verð ég pöntuð í grunnskóla til að segja börnum frá veröld sem var. Verst hvað ég er orðin gleymin.

2.8.08

Vanþakklæti heimsins

Af mikilli óeigingirni, ósérhlífni, virðingu fyrir takmörkuðum auðlindum jarðarinnar og fjölmörgum öðrum virðingarverðum hvötum, lét ég þess getið á http://www.samferða.net/ að pláss væri fyrir tvo farþega á Flúðir. Enginn hefur gefið sig fram.

Blómabreiða





Sigurskúfurinn ber nafn sitt vel, hann er í blóma þessa dagana og dregur hvergi af sér. Hann flaggar sínum ytri glæsileika eins og filmstjarna, laus við alla uppgerðarhógværð. Myndirnar eru teknar við Keldur.

Sigurskúfurinn breiðir úr sér með rótarskotum og getur myndað þétta fláka þar sem ekkert annað kemst að. Núna eru þessar breiður skærbleikar af blómum og geta ekki farið framhjá neinum. Á ensku heitir hann Fireweed sem vísar til þess að hann kemur gjarnan fyrstur upp þar sem logi hefur farið um akur.

Mikilvægt er að standast þá freistingu að flytja sigurskúf í skrúðgarðinn sinn. Það er felur í sér algert framsal fullveldis þess sama skrúðgarðs.

Hann er ætur. Blöðin má hafa í salat, það er aðeins stamt bragð af þeim, ekki slæmt. Unga stöngla ku mega snæða eins og aspas (mun ódýrara) og jarðstönglarnir eru líka ætir. Meira um mögulegar nytjar af honum, hér. Upplagt í kreppunni að úða í sig sigurskúf.

Ég sá sigurskúf ekki fyrr en ég flutti til Reykjavíkur, hann vex ekki mér vitanlega í Hrunamannahreppi.

Sigurskúfur gæti verið prýðilegt nafn á páfagauk.

1.8.08

Á puttanum

Stundum tek ég upp puttaferðalanga. Það er skemmtilegt. Oft eru þeir með puttann á lofti uppi við Rauðavatn, sjást líka gjarnan fyrir utan Hveragerði og Selfoss. Síðast tók ég upp sjómann úr norðlensku plássi, hann var á leið á Eyrarbakka að heimsækja þar kvenmann sem hann hafði nýlega barnað.

Nú er ég búin að skrá á http://www.samferda.net/ að ég geti tekið tvo farþega á Flúðir á morgun.

Heilræði: Þegar puttaferðalangur er tekinn upp, skal frekar hugsa um The Hitchhiker's Guide to the Galaxy en síður The Hitcher.

Fúlipyttur

Vísindamenn hafa komist að því að Tjörnin er full af drullu. Jahérna.

Þeir vilja rækta upp í henni plöntu sem heitir síkjamari til að halda henni tærri og bæta vistkerfið. Vonandi er það hægt. Síkjamari er algeng vatnaplanta sem vex í miklum mæli í Rauðavatni og hér er fróðleikur um það. Plantan er rauðleit og kannski er þar kominn uppruni nafnsins Rauðavatn.

Ég ætla ekki að vera nálægt þegar þeir dæla upp þessu hálfs metra mengunardrullulagi sem ku vera á botni Reykjavíkurtjarnar.

Og hvar á svo að tæma haugsuguna ég bara spyr?