15.5.09

Brennuvargur

Að brenna sinu er góð skemmtun. Alltaf var ég með eldspýturnar í vasanum á vorin. Einu sinni kveikti ég í háum húsapunti, skraufþurrum rétt hjá yngra gróðurhúsinu hennar ömmu. Þar varð skyndilega heilmikið bál. Óvænt vindhviða feykti eldhafinu í áttina til mín og ég þurfti taka á öllu mínu til að forða mér á hlaupum og slapp naumlega við að verða eldi að bráð. Grasið var á hæð við mig og sömuleiðis eldhafið. Ég man vel eftir adrenalínskotinu sem fylgdi en engin var áfallahjálpin því svona löguðu sagði maður foreldrunum ekki frá.

Alltaf bað ég afa um leyfi fyrir að brenna sinu og hann veitti það með semingi. Oftast var maður að kveikja í vegköntum og skurðsruðningum. Ég var meðvituð um að það væri ábyrgðarhluti að brenna sinu, eldinum yrði að halda í skefjum og ekki mætti kveikja í hvar sem var. Ég hafði líka lesið frásögn í Öldinnni okkar af bónda sem kveikt í sinu og brenndi óvart allt land þriggja jarða nágranna sinni, og fyrirfór sér af skömm.

Ég get aldrei alveg fundið fyrir þeirri heilögu fordæmingu sem fylgir fréttaflutningi af sinubrunum.

1 comment:

Gamli sveppur said...

Grunur leikur á að börn hafi varið óvarlega með eld ... mjög klassískt og á oft við. Margir varðveita barnið í sjálfum sér lengi, alveg þangað til það lendir í því að forðast eldinn.