28.3.09

Hampur

Ef marka má fréttir er hampur aðallega ræktaður með leynd í lokuðum rýmum á Íslandi. Það er þó hægt að rækta jurtina utandyra ef marka á bókina Garðagróður, aðra útgáfu frá 1968, eftir þá Ingólf Davíðsson og Ingimar Óskarsson. Þar er þessi mynd og tegundarlýsing:
Hampur (C. sativa L.). 1 - 2 m há einær jurt með stór 5 - 9 fingruð blöð. Smáblöðin mjó og sagtennt. Blómin smá, grænleit. Úr stöngultrefjunum er unninn hampur, sem hafður er í kaðla, snæri, striga o. s. frv. Jurtin er einnig ræktuð til skrauts, vegna þess hve blaðfalleg og vöxtuleg hún er. Þarf skjól. Gott er að binda hana við prik til stuðnings. Þrífst vel. Fjölgað með sáningu.
Rétt að taka fram að það eru til mismunandi afbrigði af jurtinni. Sá hampur sem ræktaður er til iðnaðar inniheldur ekki vímuefnið svo neinu nemi. Hampur er ein fyrsta jurtin sem mannkynið tók í sína þjónustu, fyrir meira en tíuþúsund árum. Ræktun hennar hefur minnkað frá því mest var en núna er verið að horfa á að ræktun hennar er umhverfisvæn, það þarf lítið af skordýraeitri, illgresiseyði eða slíku. Plantan vex hratt og er ákaflega afurðamikil. Hægt er að nota hana á furðulega fjölbreyttan hátt, í byggingarefni, heilsufæði, föt, pappír, plastefni, og auðvitað reipi. Pappír unninn úr hampi þarf ekki að bleikja með klóri eins og þann sem gerður er út trjám.

Framtakssamir Íslendingar hafa reynt að rækta jurtina hér, gaman væri að vita hvort það hafi lukkast.

Hinir víðsýnu Bandaríkjamenn banna ræktun hamps til iðnaðarnota, án leyfa frá Fíkniefnaeftirlitinu. Verið er að reyna að breyta því.

No comments: