Brauð fyrst.
Þessari reglu var fylgt eftir á mínu bernskuheimili. Hún felur í sér að þegar bæði kökur og brauð eru á kaffiborði, á maður að fá sér brauð áður en maður fær sér köku. Nægilegt var að fá sér eina brauðsneið. Brauðin voru þessi: Franskbrauð, heilhveitibrauð, normalbrauð og maltbrauð. Ég get ekki gleymt því hvað mér þótti heilhveitibrauðið andstyggilega vont á bragðið, en því var mikið haldið á lofti hve hollt það væri. Þetta heilhveitibrauð sem þá var bakað var alveg óskylt þeim brauðum sem fást í bakaríum nútildags. Það var sívalt, ekki bakað í formi, dökkbrúnt, hart og seigt undir tönn, eins og það væri úr hefilspónum. Aveg sérstakt óbragð af því sem ég hef ekki fundið af öðru matarkyns. Normalbrauðið fannst mér gott, það var ákaflega háreist og skorpan svo hörð að næstum var útilokað að vinna á henni. Franskbrauðið var best, með smjöri og rabarabarasultu.
Þetta voru svokölluð vísitölubrauð. Bakarar áttu alltaf að hafa þessi brauð á boðstólum á tilteknu verði.
No comments:
Post a Comment