17.2.09

Hrossakjötsnautn


Ég sannreyndi það um helgina, rétt eins og kom í ljós í könnuninni sem ég hef staðið fyrir hér á spássíunni, að Íslendingum finnst saltað hrossakjöt mikill öndvegismatur. Saltað hrossakjöt var á 30% afslætti í Bónus þannig að kílóið var einhversstaðar í kringum 500 kallinn. Það er því sannkallað kreppukjöt. Töluvert af fagurgulri fitu fylgir með enda er hún er ómissandi. Það er eftirtektarvert að hrossafita er alltaf mjúk. Það myndast ekki skjöldur ofan á pottinum þegar soðið kólnar,fitan er meira eins og olíulag. Hér segja vísindamennhrossafitan innihaldi töluvert minna af mettaðri fitu og meira af ein- og fjölómettuðum fitusýrum en lambafitan. Það væri þó óvarlegt af mér að lýsa því yfir hér að hrossafita væri holl fita. Ég veit þó dæmi þess að fólk hafi neytt óhemju magns af henni án þess að kenna sér meins. Þó ég hafi enga fyrirvara við að setja hrossafitu oní sjálfa mig, þá vefst fyrir mér hvar ég á að hella úr pottinum, hnausþykku fitulaginu sem flýtur þar ofan á soðinu, ég þori ekki að setja það í vaskinn né önnur niðurföll innandyra.

Af óviðráðanlegum ástæðum get ég ekki vitnað hér í Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson þó það væri viðeigandi. Þar er fjallað ítarlega um hrossakjötsát.

No comments: