14.3.09

Leitin að eldinum

Eva Joly segir í norsku viðtali sem spilað var í fréttunum áðan að sérstaki saksóknarinn fái ekki upplýsingar hjá fjármálaeftirlitinu vegna bankaleyndar. Ekki í fyrsta sinn sem erlendir fjölmiðlar færa okkur mikilvægar fréttir í tengslum við bankahrunið. Sérstaki saksóknarinn hefur sennilega sagt Evu Joly þetta í viðræðum sem þau áttu í ferð hennar hingað til lands. Mér er spurn afhverju hann upplýsir ekki um þetta opinberlega af eigin frumkvæði. Þetta kemur okkur öllum við. Allir (eða flestir a.m.k.) vilja að hann nái árangri í sínu starfi og að hann fái öll tæki og úrræði til að svo megi verða.

Það er greinilegt að hér er komið tilefni þess að dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi í fyrradag frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan saksóknara, þar sem tiltekið er að hann eigi að geta fengið allar upplýsingar sem hann óskar frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins og fleiri aðilum sem upp eru taldir. Ég les á milli línanna að þessar stofnanir hafi ekki sýnt sérstaka saksóknaranum á spilin sín.

Mér finnst augljóst að það verði að sameina þá aðila sem eiga að rannsaka refsiverða háttsemi í tengslum vegna bankahrunsins og mynda sterka heild þar sem allir leggja saman. Það er flestum óskiljanlegt að búið hafi verið til sérstakt embætti, örembætti, til að rannsaka þessi mál, í stað þess að stórefla efnahagsbrotadeildina.


No comments: