6.3.09

Prinsessan sem átti 365 kjóla

Það er gott til þess að vita að kreppan hefur ekki bitið alla jafnilla og að gamla Ísland lifir ennþá, sumir halda sínu striki, blessunarlega ósnortnir af þeirri bylgju endurskoðunar á lífsgildum sem hefur dunið yfir okkur.

Hvað segir það um Bretaveldi að þar skuli ekki finnast einn einasti brúðarkjóll samboðinn íslenskri snót sem er að fara gifta sig og það í annað sinn? Í anda gamla Íslands lætur hún ekki bugast og ráðgerir ferð til Rómaborgar til að leita að kjólnum eftir að Bretland hefur verið fínkembt, en sér sig um hönd á síðustu stundu og fer í staðinn til Flórída í kjólaleit, enda vill hún fá stóran og mikinn kjól. Hann hlýtur að vera til á Flórída.

Eftir því sem hér segir, ætlar Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur að gifta konuna þrátt fyrir að hún sé þegar í hjónabandi, en hún og maður hennar giftu sig í Hollandi. Það er samkvæmt hjúskaparlögum óheimilt að vígja mann sem er í hjúskap. Það á ekki síður við þó "hjónaefnin" séu gift hvort öðru. Slíka athöfn má með góðum vilja kalla blessunarathöfn en hjónavígsla er það ekki. Við skulum vona að frétt Vísis sé röng um þetta atriði og ekki verði framkvæmd "aukagifting" í Dómkirkjunni.

Það er ekker einsdæmi að konur vilji gifta sig í stórum kjólum. Hér er glæsilegt dæmi.

No comments: