23.2.09

Lög og regla

Ég átti erindi á salerni á líkamsræktarstöð um daginn, ætlað konum. Þar hékk uppi listi yfir muni sem óheimilt var að varpa í salernið. Meðal annars kom fram að málmhlutum mátti ekki farga með þeim hætti, né heldur plastpokum. Ég geri ráð fyrir að listinn hafi verið útbúinn "að gefnu tilefni".

Það er varasamt að hafa lista yfir það sem er bannað of langa. Lesendur listanna gætu freistast til að beita á listana þeirri túlkun sem í lögfræði er kölluð gagnályktun. Í þessu tilviki myndi slík túlkun leiða til þess að talið væri heimilt að henda öllu í salernið sem ekki fyndist á listanum.

Hin klassíska regla „allt er bannað nema það sé sérstaklega leyft“ á hér betur við, enda er hægt að útbúa örstutta tæmandi talningu á því sem heimilt er að setja í klósett.

No comments: