27.1.09

Tími öskupokanna mun koma

Það er mikið áhugamál mitt að endurvekja hinn séríslenska, skemmtilega og ódýra sið, að hengja öskupoka á fólk á öskudegi. Vér fullorðnir getum ekki með fullri reisn sníkt nammi í búðum á öskudaginn, reyndar geri ég ekki ráð fyrir að kaupmönnum verði útbært ókeypis nammi núna í kreppunni. Öskudagurinn á líka að vera til skemmtunar fyrir fullorðna, óþarfi að leyfa börnunum að sitja einum að hátíðinni. Það geta allir skemmt sér við að hengja öskupoka á vini, samstarfsmenn og ekki síst ókunnuga. Virðulegur maður eða kona með öskupoka á bakinu vekur alltaf upp bros í munnviki.

Öskupokar geta einnig fengið rómantískt hlutverk. Þegar afi minn, Emil Ásgeirsson, var ungur maður á bændaskólanum á Hvanneyri, fann hann fagurlega bróderaðan öskupoka hangandi á bakinu á sér. Í honum leyndist bréfmiði með vísu:

Afbrýðisemin ergir mig
engan má það gruna.
Allar stúlkur elska þig
Emil minn frá Hruna.

Það hefur ekki verið upplýst enn þann dag í dag hver var þarna að verki. Engar stúlkur gengu í bændaskóla þá en einhverjar hafa verið þar við störf geri ég ráð fyrir. Hann átti reyndar kærustu þarna, dóttur skólastjórans.

Til að auka veg öskupokanna hefur mér dottið ýmislegt í hug. Á meðan góðærið geisaði datt mér í hug það þjóðráð að panta nokkur þúsund stykki frá Kínaveldi, en þar mun vera hægt að fá framleiddar gegn vægu gjaldi ýmsar nauðsynjavörur fyrir okkur vesturlandabúa. Núna hafa aðstæður breyst þannig að óskynsamlegt virðist að eyða dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar með þessum hætti. Ekki er um annað að ræða en að sauma öskupoka upp á gamla mátann og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Það kemur sér núna vel að hafa aldrei getað fengið sig til að henda efnisbút. Ég fullyrði að hér á heimilinu leynist hráefni í þúsundir öskupoka, þó auðvitað muni ég ekki geta saumað úr því öllu.

Leiðbeiningar um gerð öskupoka er að sjálfsögðu að finna á hinu undursamlega interneti.

1 comment:

Hermann Bjarnason said...

Allavega er tími öskubusku komin, hvað sem öðru líður.