14.1.09

Öskudagur og títuprjónar

Í gær áskotnaðist mér box af gömlum títuprjónum sem eru þeirrar náttúru að hægt er að beygja þá án þess að þeir brotni. Nýframleiddir títuprjónar brotna ef reynt er að beygja þá. Þegar ég var 10 ára voru títuprjónar sem bognuðu þegar orðnir vandfundnir, það var helst í rykföllnum blikkdósum hjá ömmu.

Ég tel það ótvírætt að notkun öskupoka á Íslandi hafi fjarað út vegna óæskilegra breytinga á títuprjónum, eins og hér er haldið fram. Nauðsynlegt er að beygja títuprjón til að búa til öskupoka. Það er mikill skaði þegar tapast séríslenskir siðir eins og öskupokasiðurinn.

Legg ég nú til að allir sem saumnál geta valdið taki nú til við að sauma öskupoka til að nota á næsta öskudegi. Það er reglulega góð skemmtun að hengja þá á grunlausa. Líklega er hægt að nota pínulitlar gular nælur í staðinn fyrir títuprjóna.

Á öskudeginum komu sumir kennararnir í skólann í ullarpeysum. Aðrir komu í jökkum úr mjög þéttofnum efnum sem vonlaust var að stinga í gegnum.

1 comment:

Anonymous said...

Alveg er ég þér sammála. Notum okkar skemmtilegu séríslensku siði í stað þess að apa upp eins og verið er að gera, amríska daga, svo sem valentínusardag og þakkargjörðardag. En þeir koma bognum títuprjónum e.t.v ekkert við!
Svanurinn