11.7.09

Staup


Áhugi minn á jarðargróðri er ekki takmarkaður við blóm, en því miður sækist mér illa að læra nöfn á mosum, sveppum, fléttum og þvílíku. Svona jurtir, ef jurtir má kalla, eru oft einstaklega listrænar í útliti og hljóta að veita hönnuðum innblástur. Þetta minnir aðeins á staup sem kona með rauðan varalit hefur drukkið úr.

Þetta fann hún Ásý frænka mín um daginn og spurningin er hvort einhver glöggur lesandi ber kennsl á gripina. Ætli þetta sé ekki svona einn og hálfur cm á hæð.

3 comments:

Anonymous said...

Þetta er flétta og kallast álfabikar (Cladonia chlorophaea). Mjög algeng um allt land og sérstaklega áberand á vorin þegar gróhirslurnar (rauðu hnúðarnir) myndast.

Gerirðu lítið af því að ferðast?

Rúna said...

Þakka þér fyrir, nafnið er vel viðeigandi. Af hverju heldur þú að ég ferðist lítið?

Sigurður Hjalti Magnússon said...

Ég held að þetta sé frekar skarlatbikar en álfabikar. Hörður kristinsson lýsir honum svona á floraislands.is:

Skarlatbikar (Cladonia borealis) vex á jarðvegi og mosa, oft yfir klettum, og er algengur um land allt. Hann líkist fljótt á litið álfabikar eða grjónabikar, en þalið er með ofurlítið gulgrænum blæ sem stafar af usninsýru. Askhirzlur eru fremur sjaldséðar, skærrauðar á litinn.

Álfabikar er hinsvegar með brúnum askhirslum:

Álfabikar (Cladonia chlorophaea) er mjög algeng flétta um allt land, myndar reglulegan bikar á stilk. Bikarinn er meir eða minna duftkenndur eða kornóttur að utan og innan, og stundum sitja dökkbrúnar askhirzlur á bikarbörmunum. Hann vex í mólendi eða í skóglendi á jarðvegi eða kvistum. Niðri í sverðinum vaxa smábleðlar sem einnig tilheyra fléttunni.