23.1.09

Berjum niður verðið

Alltof oft hef ég fundið þá gremjutilfinningu sem fylgir því að sjá eitthvað boðið til sölu á miklu lægra verði en var rétt áður borgað fyrir sama hlutinn. Mér finnst það sjaldnar vera á hinn veginn.

Nýlega gerði ég mér ferð í Bónus gagngert til að kaupa rúðuvökva á bílinn. Taldi að þar hlyti hann að vera ódýrastur. Konan á eftir mér í röðinni mundi allt í einu eftir því að hana vantaði rúðuvökva þegar hún sá mig með brúsann. Meðan ég beið í röðinni hugsaði ég um hvað ég væri vitlaus að gera mér sérstaka ferð í Bónus útaf svona smáræði, sennilega til að spara hundraðkall.

Brúsi með 2,5 l kostaði eitthvað í kringum 330 kall. Í Húsasmiðjunni, hinumegin við götuna, sá ég skömmu síðar jafnstóran brúsa boðinn til sölu á krónur 1.399. Um leið og hneykslunarbylgja fór um mig alla varð ég svo glöð yfir að hafa farið í Bónus.

Til að allrar sanngirni sé gætt þá skal tekið fram að Húsasmiðjuvökvinn var með sítrónuilmi en Bónusvökvinn var með hefðbundinni rúðuvökvalykt.

1 comment:

Unknown said...

Ég gerði mér líka ferð í Bónus um daginn til að kaupa ódýran rúðuvökva. Þá var hann allur búinn. Þá varð ég ekkert sérlega glöð, eiginlega varð ég frekar gröm.