23.3.09

Þegar vonin ein er eftir

Það vekur upp blendnar tilfinningar og margar spurningar að lesa minnisblað Seðlabankans dagsett 12. febrúar 2008 í tilefni að fundaröð starfsmanna hans í London í febrúar 2008 með bankamönnum þar í borg. Afdráttarlausar viðvaranir.

Davíð segir á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember 2008:
Þegar heim var komið var óskað eftir fundi með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, fleiri ráðherrum og embættismönnum, og fékkst sá fundur. Þar var lesin upp í heild skýrsla um ferðina sem þá var til í handriti.
Þar á hann við þetta minnisblað. Var virkilega látið duga að LESA UPP textann fyrir stjórnendur landsins? Var ekki tilefni til afhenda þeim eintak? Hversvegna kemur ekki fram hvaða fólk sat umrædda fundi í London? Það vekur raunar athygli að ekki ein einasta mannvera er nafngreind í skjalinu. Er þetta virkilega eina skriflega gagnið sem varð til í þessari Londonferð?

Nú segir Björgvin G. að hann hafi aldrei heyrt af þessu minnisblaði. Honum hefur ekki verið boðið á upplesturinn. Geir Haarde segir að það hafi ekki verið einfalt að bregðast við.

Geir Haarde brást þó við, hélt til dæmis ræðu á Viðskiptaþingi 13. febrúar 2008 (þá hefði upplesturinn átt að vera nokkuð ferskur í minni). Hann fullyrti þá að Moody´s telji fjárhagsstöðu bankanna góða. (Merkilegt í ljósi þess að fulltrúar þess fyrirtækis lýsa miklum áhyggjum af íslenskum bönkum á fundum með seðlabankafólki í þessum sama febrúarmánuði). Og Geir segir við okkur:
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir fjármálaeftirlitsins, Moody´s, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar stað­reynda­villur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum.
Minnisblað Seðlabankans endar á skáldlegan hátt:
Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.

No comments: