31.3.09

Hýdrófíl


Það henti í góðærinu að stúlkur keyptu sér þessar þykku þungu glerkrúsir með gullnu lokunum, sem eru í einum ilmandi kassa og öðrum glampandi kassa þar utanyfir. Innihaldið lítil 50 grömm af rakakremi, dagkremi eða næturkremi.

Til að lýsa innihaldinu nánar er óhjákvæmilegt að grípa til engilsaxnesku. Kremin eru "decelerating, replumping, prodigious, anti-aging, resculpting, rebalancing, restorative, super-restorative, repairing, multi-active, firming, extra-firming, advanced extra-firming, contouring, correcting, age-defying, pore minimizing, thightening". Íslenskan, hin frjósama orðamóðir, stendur á gati, orðlaus.

Kreppan hefur frelsað okkur undan þessu neyslubulli, enda er algengt kílóverð í kringum eitthundraðþúsund. Nú er það Gamla apótekið sem hefur það sem þarf, á rétta verðinu. Rakakremið Hýdrófíl frá þeim er selt í 100 gramma ósmekklegri túpu og kostar í kringum sjöhundruð krónur. Alveg stórgott og ég mæli eindregið með því.

3 comments:

Gamli sveppur said...

Það er nýbúið að senda mig út í lyfjabúð að kaupa næturkrem, dagkrem og andlitshreinsikrem frá hinu aldraða apóteki. Ég bætti svo við mýkingarkremi fyrir húð ungbarna. Það var hin kremfælna dóttir mín sem þurfti þetta eftir snyrtikynningu í skólanum.

Rúna said...

Ungbarn já, ég hef greinilega misst af einhverju.

Gamli sveppur said...

Það væri nú gott að hafa kjarngóð íslensk lýsingarorð yfir þessa fegurðaraksjón á ensku sem þú telur upp ... hægjandi.
Mjúkur eins og barnsrass og þéttur eftir því á þessum eggjandi tímum.