6.7.09

Tapað - fundið

Allar fréttir af fundnum fornleifum vekja áhuga minn, enda langaði mig til að verða fornleifafræðingur þegar ég var krakki. Sú hugmynd var ekki alveg úr tengslum við líf mitt, því afi minn safnaði gömlum munum og ég var og er afskaplega stolt af safninu hans sem ennþá er hægt að skoða í Gröf.

Núna sá ég á frétt um að fyrrverandi tilvonandi kollegar mínir hafi fundið næstum þúsund ára gamlan snældusnúð í jörðu í Reykjavík. "Véborg á mig" segja rúnirnar á honum. Enginn kvenmaður heitir Véborg á Íslandi, né finnst nafnið á skrá Mannanafnanefndar yfir leyfð stúlkunöfn. Engin Véborg finnst í Íslendingabók.

Wikipedia segir af einni Véborgu. Hún var ein þriggja skjaldmeyja sem fóru fyrir liði 300 slíkra í her Haraldar hilditannar í gríðarlegum bardaga við Brávelli í Svíþjóð í kringum árið 750 eftir því sem sagt er. Því er logið að 200 000 manns hafi tekið þátt í bardaganum. Véborg féll í orrustunni, fyrir Þorkeli hinum þrjóska og er frá því greint að orðaskak hafi fylgt vopnaskaki þeirra.

Véborg þessi hefur því tæpast átt snúðinn sem er frá 10. eða 11. öld, en eigandi hans gæti alveg hafa verið látinn heita eftir þessari frægu kvenhetju. Það er svo ráðgáta afhverju notkun á þessu prýðilega nafni hefur lagst af, fundur snúðsins verður vonandi til þess að nýjar Véborgir vaxi úr grasi. Ekki veitir okkur af kjaftforum skjaldmeyjum.

No comments: