30.11.08

Um útsendingu jólakorta

Alltaf finnst mér íþyngjandi þegar fólk talar mikið og lengi um að það sé búið að skrifa jólakortin í nóvember og kaupa jólagjafirnar í október.

Ég ráðgeri að halda í þá hefð að senda jólakortin af stað á síðasta auglýstum "kemst til skila fyrir jól degi" póstsins, nákvæmlega fimm mínútum fyrir lokun þann dag.

Það er mikilvægt sparnaðarráð að senda heimalöguð jólakort. Það virðist ríkja almennur skilningur á að slík jólakort þurfi ekki að vera sérlega falleg. Hægt er að ná fram enn meiri sparnaði með því að búa sjálfur til frímerki á umslögin.

Í minni gömlu heimasveit eru innanhreppsjólakort sett í skókassa á afgreiðsluborðinu í búðinni. Svo tekur fólk einfaldlega sín kort úr kassanum. Þannig komast öll jólakort í sveitarfélaginu ókeypis til skila. Allir eiga erindi í búðina og kerfið virkar fullkomlega. Fyrir utan sparnaðinn þá er miklu fljótlegra að skrifa utan á umslögin, nægilegt að skrifa bæjarnafnið. Þarna hefur pósturinn orðið af miklum tekjum í gegnum tíðina.

28.11.08

Time management

Stundum er rétt að eyða tíma í að bíða eftir að 5 mínútur líði, í staðinn fyrir að ætla sér að nota þær í eitthvað annað, með það í huga að snúa sér á ný að fyrra viðfangsefni þegar umræddar 5 mínútur eru liðnar. Fyrir kemur að sú ráðagerð fer út um þúfur.

Þetta verður betur skýrt með dæmum. Reglan á vel við þegar soðinn er hafragrautur. Hún á líka við þegar borinn hefur verið litur á augabrúnir sem á að sitja þar í 5 mínútur. Ég get staðfest óæskileg áhrif þess að hafa litinn á í klukkustund. Áður hefur verið fjallað um brunahættu sem getur hlotist af broti á umræddri reglu.

26.11.08

Svartar fjaðrir

Það óhapp varð hér á heimilinu að ástargaukurinn Hómer litaði sjálfur fjaðrirnar á hálsinum sér svartar með augnbrúnalit. Ég geri ráð fyrir að atvik sem þessi séu tölfræðilega sjaldgæf, en greinilega ekki óhugsandi. Hann er líka með svartan blett á tungunni.

Þeir sem hafa brúkað augnabrúnalit vita að lit og festi blandað saman í lítið ílát. Sjálfsagt er til fólk sem þrífur ílátið strax eftir notkun. Aðrir loka páfagaukinn inni á baðherberginu þar sem nefnt ílát liggur á glámbekk með háskalegu innihaldinu.

Mig langar að taka það fram að fangelsun gauksins á baðherberginu var gerð með persónulegt öryggi hans í huga, en þófaljónin vilja hann feigan.

25.11.08

Með lögum skal land byggja



Ég hef mikið dálæti á heimatilbúnum skiltum sem fólk hengir upp til að siða samborgara sína. Yfirleitt innihalda þau orðin "ekki", "bannað", "alltaf" eða "aldrei" og vitna um þennan pirring og óþol sem óæskileg hegðun annarra framkallar.

Crosstrainer

Það er sérstök þjálfun í jákvæðni og umburðarlyndi að horfa á Vörutorgið. Það virðist gilda eitthvað óformlegt samkomulag um að Vörutorgið fari frjálslega með staðreyndir og ekki eigi að taka of bókstaflega það sem þar er sagt.

Það þjálfast allir vöðvar líkamans í einu.

Komdu þér í toppform á fáeinum dögum.

Sama hvernig þú viðrar þá getur þú æft þig inni.

Síðasta fullyrðingin er þó sönn þó ekki sé um að ræða óvenjulegan eiginleika hins auglýsta. Minnir mig á þegar auglýst var vatnsheld skúringafata.

24.11.08

Stefnumót við framtíðina

Ég heyrði það eitt sinn að ísjakinn sem Titanic sigldi á, hafi lagt af stað frá Grænlandi mörgum mánuðum áður en skipið leysti landfestar.

23.11.08

Faðmlög

Í gær faðmaði ég ókunnugan mann úti á götu að hans frumkvæði. Síðdegis þegar ég gekk niður Laugaveg, vatt sér að mér og samferðamanni mínum maður og vildi faðma okkur. Hann kvaðst vilja sýna væntumþykju sína á samborgurum sínum þannig í verki. Fram kom að ekki hefðu allir sem hann nálgaðist verið tilbúnir til faðmlaga. Faðmlagið var þétt og einlægt.

21.11.08

Vesserbisserinn

Áðan var í Útsvarinu spilað lagið Edelweiss úr The Sound of Music og spurt um hvaða blóm væri sungið. Gefið var rétt fyrir svarið alparós. Þarna er mikill misskilningur á ferð, eins og ég mun nú útskýra af hógværð.

Söngur Vilhjálmsbarna var um alparós, en segja má að sá sem þýddi hafi tekið sér það skáldaleyfi að láta íslenska textann fjalla um aðra jurt en sungið var um upphaflega, enda hefði alpafífill, alpafífill, bögglast illa í munni . Alparós (rhododendron) er runni, oftast sígrænn. Ein slík blómstrar fagurlega á hverju vori í Grasagarðinum.

Edelweiss heitir á íslensku alpafífill, (leontopodium alpinum), það er lítil, hvít og gráloðin planta, heldur óásjáleg. Hún á að geta vaxið hér í görðum.

Edelweiss, Edelweiss
Every morning you greet me
Small and white, clean and bright
You look happy to meet me
Blossom of snow may you bloom and grow
Bloom and grow forever
Edelweiss, Edelweiss
Bless my homeland forever

Alparós, alparós
árgeislar blóm þitt lauga,
hrein og skær, hvít sem snær
hlærðu sindrandi auga.
Blómið mitt blítt, ó, þú blómgist frítt,
blómgist alla daga.
Alparós, alparós
aldrei ljúkist þín saga.

Jólagjafahandbók Eyrúnar

Í ár er tilefni til að halda jólagjöfum innan skynsemismarka, þó maður vilji auðvitað kaupmönnum (flestum) allt hið besta. Ég bendi á að í Góða hirðinum er hægt að kaupa bækur á 200 krónur, þar er töluvert af nýlegum bókum sem henta vel til jólagjafa.

Mér finnst skemmtilegt þegar fylgir með notuðum bókum, jóla- eða tækifæriskort frá fyrri eiganda.

Hafnarfirði, 23/8 ´48
Hugheilar hamingjuóskir á afmælisdaginn.
Ólafía, Guðmundur.

Kortið var stílað á Sigurð Þorsteinsson í Hafnarfirði. Það var inní Búnaðarriti, prentuðu í Fjelagsprentsmiðjunni árið 1900, sem ég keypti í fyrrgreindri verslun. Ég er ekki viss um að svo mörg hjón á Íslandi árið 1948 hafi heitað Ólafía og Guðmundur. Svo vill til að sonur langömmusystur minnar hét Guðmundur Marteinsson, hann átti konu sem hét Ólafía Hákonardóttir. Kannski er kortið frá þeim.

Minnir mig á það að ég þarf að lesa meira í þessu Búnaðarriti og jafnvel vitna í það hér.

19.11.08

Minning um hrylling

Ég er með aldrinum orðin mjög dugleg að horfa á ógeðslegar bíómyndir. Bregð mér hvorki við sár né bana söguhetjanna. Það var ekki alltaf svo. Þegar ég var yngri var gert grín að mér þegar ég hélt fyrir augu og eyru heilu kvikmyndirnar sem ég hafði þó borgað mig inn á fullu verði. Sérstaklega fannst mér ógeðslegt þegar var verið að pína fólk viljandi.

Þegar ég fór í fyrsta sinn á bíómynd í Flúðabíói sem var bönnuð innan 16 ára þá gekk ég út af henni. Sjálfsagt hef ég verið eitthvað yngri en 16. Ég man vel hvað var svona hræðilegt. Maður og kona voru um borð í bát, þau voru bundin við eitthvað tréverk og að þeim steðjaði mikil ógn. Lítil vélmenni sem litu út eins og dúkkur, gengu skrykkjóttum skrefum í áttina til þeirra og gerðu sig líkleg til að éta þau lifandi. Þessar mannætumorðdúkkur voru með hákarlstennur úr glampandi stáli og skelltu þeim saman ótt og títt. Ég gat ekki hugsað mér að horfa á þetta fólk étið lifandi svo þjáningafullt sem það hlaut að verða, þannig að ég ákvað að forða mér og sagðist þurfa að pissa. Ekki veit ég hvaða kvikmynd þetta var.

Flúðabíó var landsbyggðarbíó sem sýndi heimsfrægar stórmyndir í Félagsheimili Hrunamanna einu sinni í viku, á fimmtudögum, sjónvarpslausum dögum.

18.11.08

Kurl Project

Þessi kona í Hrunamannahreppi slær ekki feilhöggin. Mig langar í fötin hennar.

Lýsisraunir

Eftir að ég hafði rennt niður stórri matskeið af þorskalýsi við stofuhita þá kíkti ég eins og af tilviljun eftir því hver væri síðasti söludagur á flöskunni. Hún rúmar 500 ml og er næstum því full. Síðasti söludagur er í maí 2010. Ég á mér engrar undankomu auðið.

17.11.08

Hagsmunamatur

Innra með mér er háð heilagt stríð. Ég get ekki ákveðið hvort ég á að halda áfram að kaupa dýr brún egg úr hamingjusömum hænum eða hvort ég kaupi framvegis ódýr hvít egg úr þrautpíndum og innmúruðum búrhænsnum sem aldrei líta glaðan dag. Með því að kaupa hvítu eggin tek ég ábyrgð á þeirra ömurlega lífi og ég er ekki viss um að ég treysti mér til að axla þá ábyrgð. Hér vegast á mínir fjárhagslegu hagsmunir og persónulegir hagsmunir hæsnfuglanna.

16.11.08

Bankaleynd

Forsvarsmenn bankanna voru afar meðvitaðir um þá skyldu sína að upplýsa ekki um einkamálefni viðskiptavina þegar þeir neituðu að svara spurningum viðskiptanefndar Alþingis um hvort tiltekinn aðili hefði fengið lánað fé.

"Landsbankanum er óheimilt lögum samkvæmt að tjá sig um einstök viðskipti eða málefni viðskiptamanna sinna og mun sem fyrr fylgja þeim lögum."

Bankaleyndin virðist þó ekki hindra bankana í að miðla upplýsingum um vanskil viðskiptavina sinna til Lánstrausts (Creditinfo). Þeim upplýsingum geta síðan aðrir viðskiptavinir Lánstrausts keypt aðgang að.

Samkvæmt síðasta starfsleyfi Lánstrausts getur kröfuhafi m.a. tilkynnt skuldara inn á skrá Lánstrausts ef skuldarinn mætir ekki til fjárnáms, þrátt fyrir boðun.

15.11.08

Vinsældir

Lagt í munn Þórðar kakala í Óvinafagnaði Einars Kárasonar:

"Ég get reyndar ekki sagt að ég hafi hagað mér þannig að beinlínis væri fallið til vinsælda, en smám saman fór mér þó að skiljast að auralaus Íslendingur er eitthvert það ómerkilegasta kvikindi sem menn telja sig þekkja við hirð Noregskonunga."

Valur smalur

Þau stórtíðindi urðu að Ungmennafélag Hrunamanna bar sigurorð af íþróttafélaginu Val frá Reykjavík í körfubolta karla í gær. Leikurinn fór fram á heimavelli Hrunamanna í íþróttahúsinu á Flúðum og fór 111-115. Þessi atburður hefur ekki vakið mikla athygli. Hrunamenn leggja áherslu á að vera með heimaræktað. Aðeins einn Hrunamaður er af bandarískum uppruna en tveir slíkir munu finnast í liði Vals.

Áfram Hrunamenn! Tími ránfuglanna er liðinn.

14.11.08

Stafsetning á hættutímum

Það er mun verri villa að setja ypsilon þar sem það á ekki að vera, heldur en að sleppa því þar sem það á að vera. Dæmi: Firir - fyryr. Ef vafi leikur á, er best að sleppa ypsiloninu.

13.11.08

Búsetusaga

Ég flutti í bæinn eftir stúdentspróf. Síðan þá hef ég hengt húfur mína upp á Tjarnarstíg, Kjarrhólma, Laufásvegi (tvær íbúðir), Kaplaskjólsvegi, Stóragerði, Álftamýri og Nökkvavogi. Í þessari röð. Fyrstu tvær göturnar eru reyndar ekki í Reykjavík. Ekki alls fyrir löngu þurfti ég að reka erindi á Nesveginum, og fékk þá hugmynd að líta á gamla húsið mitt á Tjarnarstíg í leiðinni. Ég villtist, það var allt svo breytt. Það var í sjálfu sér gott að húsið var óþekkjanlegt, það var ekki á sparifötunum þegar ég bjó þar. Hún María Árelíusdóttir sem leigði okkur húsið sitt árið 1980, fimm tvítugum krakkakvikindum, hlýtur að hafa haft óbilandi trú á að hið góða fyrirfyndist innra með hverjum einstaklingi. Hún kvaðst aðeins fara fram á að húsið hennar yrði ekki "frægt hús". Við reyndum að verða við því.

Klemman

Hugsanlegir lánveitendur okkar virðast allir gera það að skilyrði að við semjum fyrst við Breta. Sú staðreynd gerir okkur ókleift að semja við Breta, þetta skilyrði gerir samningsstöðu okkar að engu, það vita þeir og nýta sér.

Nú þarf að standa upp frá þessu samningaborði þegar í stað.

Hafskip

Langt er orðið síðan ég heyrði síðast frétt í útvarpi þess efnis að skip hlaðið nauðsynjavöru hafi lagst við bryggju í Reykjavík. Helgafellið. Væntanlega eitt þeirra sex skipa sem koma næsta árið.

Ég spái því að svona verði velheppnað aprílgabb 1. apríl 2009:

Flutningaskip strandaði í morgun í Háfsfjöru, hlaðið niðursuðuvörum. Mannbjörg varð. Varningnum skolar smám saman upp í fjöruna, þar sem fjöldi fólks er saman kominn til að næla sér í niðursoðna tómata, kokkteilávexti og fleira sjaldséð góðgæti, þrátt fyrir að Þykkbæingar reyni hvað þeir geta til að hrekja aðkomumenn í burtu. Búist er við að til átaka komi, en Ólafur Helgi Kjartansson sagði í samtali við fréttamann að hann og eini lögreglumaðurinn sem hefur ekki verið sagt upp á Selfossi séu í öðru útkalli.

12.11.08

Veljum íslenskt

Ekki er vika liðin síðan ég kvartaði hér yfir skelfilegu verði á innfluttu hágæða kattafóðri og taldi einsýnt að ég yrði framvegis að fóðra mín elskuðu þófaljón á billegum Euroshopper hroða með yfirvofandi heilsutjóni fyrir þá fóstbræður. Það er mikið því mikið ánægjuefni að sjá að bráðlega verður hægt að kaupa íslenskan kattamat, framleiddan af fyrirtækinu Murr ehf. á Súðavík úr iðrum íslenskra húsdýra, fyrir íslenskar krónur.

Þrotaþjóð

Líf gjaldþrota einstaklings er fullt af hindrunum: Glatað lánstraust, sært stolt, eignir seldar á undirverði, skráning á svartan lista, fjárskortur, reiði kröfuhafa, vanþóknun þeirra sem betur eru settir. Sagt er að ekkert sé til sem heitir gjaldþrota þjóð, en þetta er samt upplifun hennar.

11.11.08

Viðskipti við útlönd

Ég hef saknað þess að fá ekki póstmenn í heimsókn á síðkvöldum. Engin kaup hafa verið gerð á eBay síðan krónan féll og bankakreppan reið yfir. Nú fyndist mér það djarfur leikur að senda seljanda fyrirspurn um hvað kostaði að póstsenda hið falboðna til Íslands. Ég geri ekki ráð fyrir að mér verði treyst, þrátt fyrir langan og hnökralausan kaupferil á eBay.

10.11.08

Margvíslegar hættur

Mikið getur "auto complete" reynst hættulegur fítus. Ármann heitir aðstoðarmaðurinn, ætli póstlistinn heiti ekki "allir fjölmiðlar" eða eitthvað á þá leið.

Í dag gleymdi ég að læsa klósetthurðinni og hún var opnuð.

Breska heimsveldið

Þessi Icesave kúgun gengur ekki lengur. Það er sagt í öðru orðinu að ekki sé skilyrði að Bretum sé greitt, en í hinu orðinu sagt að við þurfum að vera búin að ná við þá samkomulagi. Samkomulagi um hvað? Þeir gera kröfur sem ekki er hægt að semja um og með því móti stoppa þeir afgreiðslu IMF. Auðvelt fyrir þá að senda samhliða frá sér yfirlýsingu um að þeir styðji heilshugar okkar umsókn. Ætlum við að trúa því? Þetta er yfirgangur stórveldis, nýlenduveldis, heimsveldis. Þetta kunna þeir. Mér finnst vanta mikið upp á að við stöndum með sjálfum okkur í þessu máli. Nú fer að styttast í að við hótum slitum á stjórnmálasambandi.

Kapp er best

Ég hef stundum legið undir ámæli vegna frestunaráráttu. Stundum hef ég álasað sjálfri mér lengi og mikið af sama tilefni. Það er oftast, en ekki alltaf, skemmtilegt þegar manni auðnast að gera eitthvað strax. Eitt sinn hugðist ég ryksuga, akkúrat þegar þess var þörf, en ekki síðar. Þegar ég stakk ryksugunni í samband, þá sló rafmagnið út. Það gerðist í nokkur skipti og taldist fullreynt.

Ég ákvað strax að nú myndi það ekki gerast, sem kannski gæti gerst, að heimilið yrði lengi án rygsugunar af því ég kæmi því ekki verk að að fara í verslun og kaupa nýja ryksugu. (Ekki leiddi ég hugann að kostnaðarhliðinni, enda lifði ég þá í algleymi neysluhyggjunnar, lánsfjárkreppan var rétt óriðin yfir heiminn). Ég ákvað jafnframt nú myndi það ekki heldur gerast að ný ryksuga yrði keypt en sú gamla þvældist fyrir fótum mér mánuðum saman. Umsvifalaust setti ég gömlu ryksuguna í skottið, fór í Elko og keypti spánýja ryksugu frá viðurkenndum framleiðanda. Á leiðinni heim kom ég við í Sorpu og varpaði þeirri gömlu í gám merktan "allskonar annað drasl". Þegar heim kom setti ég nýju ryksuguna í samband. Það sló út.

9.11.08

Mokið ykkar flór

Það er merkilegt að ekkert hefur heyrst frá ungmennum landsins. Það er verið ráðstafa framtíðartekjum þeirra með lántökum ríkisins. Menntaskólakrakkar hefðu einhvern tíman tjáð sig af minna tilefni.

Það voru ríflega miðaldra menn í Spaugstofunni sem lögðu ungmennum orð í munn í lokaatriðinu í gærkvöldi. Það var hvasst atriði, en vakti upp hugsanir um hvort þau hefðu ekki eitthvað að segja sjálf, að eigin frumkvæði.

8.11.08

Nýr lífsstíll

Ég er ekki búin að aðlagast til fulls nýjum krepptum lífsstíl. Hingað til hef ég keypt í þar til gerðum sérverslunum hágæða fóður handa heimilisköttunum, hæfandi þeirra aldri, holdafari og lífsstíl. Öll lífsnauðsynleg vítamín og steinefni til að tryggja feldheilsu, greiða framvindu meltingar og starfsemi nýrna. Fóðrið er ekki búið til úr beljuheilum og rollujúgrum, þaðan af síður finnst í því kjúklingaskítur og má af því ráða þvílík gæðavara þarna er á ferðinni. Ég keypti 15 kg poka nýverið fyrir krónur 11 þúsund íslenskar og skrifa þetta mér til hjálpræðis gegn því áfalli. Pokinn kostaði hvorki meira en minna en tvöfalt meira en sá síðasti sem ég keypti. Það þurfa allir að færa fórnir í kreppunni og nú er komið að Putta og Fúsa að leggja sitt að mörkum, þeir munu í framtíðinni þurfa að éta andstyggðarinnar Whiskas tros úr Bónusi.

Hágæða fóðrið er einnig þeirrar náttúru að sá sem það étur, skítur skít sem ekki lyktar eins skítlega og annars væri. Það hefur aukið á mín lífsgæði, því þó að þessar losanir fari oftast fram í blómabeðum, þá kemur einstöku sinnum fyrir að innandyra er lagður mótmælaskítur, helst þegar gleymst hefur að fóðra.

Einu sinni las ég um það að lyfjum með samskonar verkun væri útbýtt á japönskum elliheimilum.

6.11.08

Galdrafár

Einn af þeim 72 sem heimildir eru um að hafi verið drepnir á Þingvöllum var Bjarni Bjarnason, forfaðir minn í 11. lið ef marka má Íslendingabók. Hann var brenndur á báli 4. júlí 1677, þá 62 ára gamall, ekkill sem átti þrjá eða fjóra uppkomna syni. Sama dag var annar maður brenndur á Þingvöllum, sá viðurkenndi að hafa reynt að spekja fé með galdri. Þetta hefur verið ógleymanlegt þing þeim sem sóttu.

5.11.08

Óhræsin

Hetjur fara nú um héruð með haglarana um öxl og skjóta rjúpur. Að fullvaxnir karlmenn, gegndrepa af testósteróni skuli láta það um sig spyrjast, salla niður varnarlausar hænur með skotvopnum. Rjúpan virðist alltaf jafn grunlaus um að nokkuð illt geti hent hana og hefur varla rænu eða getu til að forða sér undan þeim sem vilja hana feiga. Saklausasta fórnarlamb sem fyrirfinnst.

Fuglar hafa ekki nema í seinni tíð þótt henta til manneldis í minni gömlu heimasveit og kannski víðar í sveitum og sjálfsagt er ímugustur minn á rjúpnadrápum eitthvað því tengdur.

4.11.08

Er á meðan er

Mín allra mesta og besta hjálparhella gegn viðvarandi andleysi, Hannes Finnsson, lýsti Móðuharðindunum þannig að ekki verður um bætt. Lýsingar hans eru svo hryllilegar í nákvæmni sinni að það er útilokað að lesa nema örlítið í senn. Ef Mannfækkun af hallærum væri kvikmynd þá væri hún splatter.
Um vorið 1784 dóu nautpeníngur og sauðfé af liðaveiki, brígxlum og innanmeinum, svo sum innyfli vóru annaðhvort ofsastór eður uppvisnuð og í mörgu gallið óhóflega mikið. Hestar dóu margir fullfeitir; þeir átu þá dauðu, hauga, veggi, stoðir og þil frá húsum; sauðfé át ullina hvað af öðru og dó svo.
Hann segir að svona hafi "endakleppurinn" lýst sér, þ.e. veturinn 1784-1785:

Á manneskjum var húngur og sultur með öllum þeim sjúkdómum sem þar af rísa, einkum blóðsótt, skyrbjúg og hettusótt. Svo algengt var húngrið að sá á fjölda presta og beztu bænda. Þjófnaður og ránsháttur úr hófi, svo eingi mátti vera óhultur um sitt. Þetta var landsins almennt ástand, en þarvið bættust á einstöku stöðum önnur og fleiri bágindi. Í Holta-sveit í Rángárvallasýslu, Hreppum, Biskupstúngum, Skeiðum og neðarlega í Flóa gjörðu jarðskjálftar þ. 14. og 16. Augusti í beztu heyskapartíð stóran skaða. Féllu bæir víða gjörsamliga og niðurbrotnuðu, búsgagn og matvæli spilltust. Stórrigníngar komu, svo það sem fólk neyddist til að klaungra upp af húsum var til kostnaðar, en aungrar frambúðar, hlaut þó strax um sláttinn að gjörast.

Mannskæð sótt gekk þenna vetur, sem vissulega ekki að öllu leyti orsakaðist af atvinnuleysi; var mannfellir svo stór, að í meðalmáta sókn, hvar árlega vóru vanir að burtkallast 20 manneskjur, dóu nú yfir 200, sumstaðar dóu faðir og móðir frá börnunum; fundust svo börnin nær dauða komin og sum útaf dáin, þegar einhvör af öðrum bæ kom af hendíngu að; og tilbar að fundust í einu 10 manneskjur af húngri og máttleysi, sín í hvört sinn og á ýmsum tímum, úti orðnar á veginum frá Krísuvík og Grindavík til Njarðvíkanna eður Vatnsleysu-strandar.

Niðurstaða mín er í stuttu máli sú að þrengingar íslensku þjóðarinnar nú séu ekki sambærilegar við Móðuharðindin, að minnsta kosti ekki enn sem komið er.

Brennið þið bílar

Getur verið að þetta sé í smáa letrinu?

"Ef hið yfirveðsetta ökutæki brennur til kaldra kola, er skuldari laus allra mála."

3.11.08

Aðgöngumiðinn

Áðan var frétt á RUV um skuldir þjóðarinnar sem byrjaði svona: "Hvert barn sem fæðist í dag ..."

Gjaldmiðillinn

Það er talað í háum upphæðum þessa dagana. Ég sagði fyrir stuttu við mann að þinglýsing kostaði "þrettánhundruðogfimmtíu". Hann svaraði í spurnartón: Krónur?

2.11.08

Húsfrú Eyrún


Síðasta mynd sem birtist hér á síðunni var af hundi, nú bæti ég um betur og birti mynd af sjálfri mér í hrekkjavökubúningnum.
Það rifjaðist upp fyrir mér hvenær ég var síðast með rúllur. Það þótti ekki við hæfi að fermast með slétt hár. Daginn fyrir ferminguna setti Sjöfn á Hrafnkelsstöðum rúllur í hárið á mér og ég mátti sofa með þær um nóttina. Þar með var ég komin í fullorðinna kerlinga tölu.

Sendiferðir

Ég er alltaf aðeins smeyk við að fara með hendurnar blindandi ofaní kartöflupokann minn hér útí geymslu. Engu breytir þó það séu áratugir síðan kartöflumamma varð síðast á vegi mínum.

Eitt af þvi sem maður varð að gera reglulega var að sækja kartöflur í kjallarann í gamla bænum. Þar var margt sem vakti ótta, verst var myrkrið. Kartöflurnar þurftu endilega að vera innst í kjallaranum. Það versta sem fyrir gat komið var að putti lenti á kaf í kartöflumömmu sem leyndist í kartöflupokanum, sá hryllingur gleymist aldrei.

Lyktin í kjallaranum var köld, aðeins rök og mygluð moldarlykt. Alltaf eins. Síðasta vor var ég á ferð í Frakklandi og kom þar í vínkjallara, mörg hundruð ára gamlan. Þar var nákvæmlega sama lyktin.